Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 23. ágúst

18.08.2017

Við spáum óbreyttum stýrivöxtum við næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans, en ákvörðunin verður kynnt þann 23. ágúst nk. Versnandi verðbólguhorfur, og þar með líkur á minna aðhaldi peningastefnunnar, vegna veikingar krónu frá júníbyrjun munu gera gæfumuninn að okkar mati. Á sama tíma er þörf fyrir nokkurt peningalegt aðhald, enda er verulegur gangur í hagkerfinu, laun og íbúðaverð hafa hækkað allhratt, og ekki lítur sérstaklega út fyrir að opinber fjármál og vinnumarkaður leggi hagstjórninni aukið lið á næstunni. 

Framsýna leiðsögnin verður væntanlega áfram hlutlaus líkt og verið hefur undanfarið, en reynsla síðustu fjórðunga sýnir að framsýna leiðsögnin hefur fremur takmarkað upplýsingagildi þegar aðhald peningastefnunnar er ekki langt frá því sem peningastefnunefndin telur hæfilegt. Sú hefur verið raunin undanfarið, en lesa mátti úr fundargerð síðustu vaxtaákvörðunar að meirihluti nefndarinnar leit fyrst og fremst á vaxtalækkunina þá sem leið til að taka til baka hækkun raunvaxta vegna hjaðnandi verðbólgu.

Dúfurnar í nefndinni, sem í júní gátu hugsað sér meiri vaxtalækkun en ákveðin var, geta þó tínt ýmislegt til sem rök fyrir lækkun stýrivaxta. Má þar nefna að verðbólga er enn undir 2,5% markmiði bankans, verðbólguvæntingar hafa haldist hóflegar þrátt fyrir gengissveiflur, langtíma vaxtamunur við útlönd hefur aukist og hugsanlega eru horfur á minni framleiðsluspennu á komandi misserum en áður leit út fyrir. Ekki er því hægt að útiloka lítils háttar vaxtalækkun á seinni hluta þessa árs, annað hvort í ágúst eða síðar.

Veruleg gengislækkun krónu frá síðustu vaxtaákvörðun

Frá síðustu vaxtaákvörðun í júní hefur gengi krónu lækkað um nálega 10% m.v. viðskiptavegna gengisvísitölu (GVT). Gengi krónunnar hefur lækkað um tæp 9% frá því að Seðlabankinn birti síðast verðbólguspá í maí síðastliðnum. GVT er nú 165 stig en Seðlabankinn spáði því í maí að hún yrði að meðaltali 157 stig á árinu. Krónan er því nærri 5% veikari en bankinn reiknaði með að hún yrði á árinu að jafnaði. GVT það sem af er ári hefur að meðaltali verið 158,7.

Seðlabankinn spáði í maí nokkuð sterkari krónu fyrir árin 2018 (148,2 stig) og 2019 (147,4 stig) en fyrir yfirstandandi ár. Minni líkur virðast á því en áður að sú spá muni ganga eftir. Ekki virðist þó veiking krónu undanfarið vera bankanum á móti skapi, þar sem hann hefur aðeins gripið inn í veikingarferilinn í þrígang frá júníbyrjun til að stöðva spíralmyndun. Við teljum hins vegar að gengisforsendan í nýrri verðbólguspá verði í átt að veikara gengi en í síðustu spá, sem vegur þá til meiri verðbólgu í nýju spánni að öðru óbreyttu.

Vísbendingar um hægari hagvöxt það sem af er ári  

Samhliða vaxtaákvörðuninni nú mun Seðlabankinn birta nýja þjóðhagsspá. Frá síðustu spá bankans sem birt var í júní sl. hafa verið birtar landsframleiðslutölur fyrir 1F 2017. Hagvöxtur mældist 5,0% á tímabilinu, og þar með nokkru hægari en að jafnaði á síðasta ári (7,2%). Vöxturinn á 1F var einnig nokkuð undir síðustu spá Seðlabankans fyrir árið 2017 í heild (6,3%). 

Vísbendingar eru um að þróun síðustu mánaða hafi verið svipuð og á 1F. Heildarvinnustundum fjölgaði um 2,0% á milli ára á 2F, sem er hægasta fjölgun vinnustunda síðan á 4F 2014. Aukningin var að stærstum hluta vegna fjölgunar starfandi (1,8%), en vinnustundum á viku fjölgaði um 0,2%. Þá hefur dregið úr vexti bæði vöruinnflutnings og –útflutnings það sem af er þessu ári í samanburði við síðasta ár. Hugsanlegt er að Seðlabankinn færi niður spá sína um hagvöxt 2017 frá maíspánni, en áfram mun bankinn þó  að okkar mati spá allmyndarlegum vexti. Framleiðsluspenna gæti því orðið heldur minni í ágústspá bankans en fyrri spá, en verður þó væntanlega áfram til staðar í forsendum hans fyrir komandi ársfjórðunga.

Verðbólga og verðbólguvæntingar enn nærri markmiði

Verðbólguálag á markaði, mælt út frá mun á verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum á skuldabréfamarkaði, hefur hækkað talsvert frá síðustu vaxtaákvörðun. 5 ára álag hefur farið úr 2,1% í 2,5% og 10 ára álag úr 2,4% í 2,9%. Álagið endurspeglar þó enn verðbólguvæntingar í grennd við markmið Seðlabankans. Sama gildir um verðbólguvæntingar markaðsaðila. Samkvæmt nýbirtum niðurstöðum í könnun Seðlabankans vænta markaðsaðilar þess að meðalverðbólga næstu 5 ára verði 2,5%. Matið lækkar lítillega frá síðustu könnun þrátt fyrir umtalsverða veikingu krónu. Þessi niðurstaða mun vísast falla peningastefnunefndinni vel í geð, því hún bendir til þess að verðbólguvæntingar til meðallangs tíma séu ekki jafn næmar fyrir skammtímasveiflum krónu og áður.

Verðbólgan á 2F mældist 1,7% sem er aðeins minna en spá Seðlabankans frá maí hljóðar upp á (1,9%). Í júlí mældist verðbólgan 1,8%. Verðbólgan er nú á svipuðum slóðum og við síðustu vaxtaákvarðanir í júní (1,7%) og maí (1,9%). Taumhald peningastefnunnar, mælt með mun liðinnar verðbólgu og virkum stýrivöxtum Seðlabankans, hefur haldist nánast óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun. Á kvarða verðbólguvæntinga markaðsaðila er taumhaldið einnig lítið breytt. Miðað við þróun verðbólguálags á markaði hefur taumhaldið hins vegar minnkað heldur á tímabilinu.

Samhliða vaxtaákvörðuninni nú mun Seðlabankinn birta nýja verðbólguspá. Í ljósi veikari krónu má ætla að sú spá verði öllu svartsýnni en maíspá bankans, þar sem spáð var verðbólgu undir markmiði fram yfir mitt næsta ár. Okkar nýjasta verðbólguspá hljóðar upp á vaxandi verðbólgu á komandi fjórðungum, og að verðbólgan verði nokkuð yfir verðbólgumarkmiðinu árin 2018 og 2019. 

 Ef verðbólguspá Seðlabankans breytist í líkum takti og spá okkar mun hún fela í sér lækkandi raunstýrivexti á mælikvarða liðinnar verðbólgu m.v. óbreytta virka stýrivexti. Það veltur hins vegar á trúverðugleika peningastefnunnar og trausti á undirstöðum krónunnar hvort verðbólguvæntingar og verðbólguálag á markaði muni hækka samfara þessu, og þar með hvort raunstýrivextir muni lækka á þann kvarða næstu misserin.

Spáum lítils háttar vaxtalækkun á næsta ári 

Við teljum að lækkun raunstýrivaxta á komandi fjórðungum muni haldast nokkurn veginn í hendur við minni þörf fyrir peningalegt aðhald eftir því sem hægir á hjólum hagkerfisins og framleiðsluspenna minnkar. Þó gæti verið að Seðlabankinn vildi sjá aðhaldið minnka heldur hraðar en sem nemur lækkun raunstýrivaxta vegna aukinnar verðbólgu og hækkandi verðbólguvæntinga þegar fram í sækir, sér í lagi ef síðarnefndi þátturinn reynist minna næmur fyrir tímabundinni aukningu verðbólgu en áður. Eru því talsverðar líkur á að bankinn lækki stýrivexti þegar kemur fram á næsta ár, þótt ekki séu horfur á mikilli viðbótarlækkun frá núverandi vöxtum nema krónan taki að styrkjast verulega að nýju og verðbólga hjaðni á nýjan leik. Eftir það er ekkert sem bendir sérstaklega til breytinga á stýrivöxtum til annarar áttar fremur en hinnar út spátímann, þ.e. til ársloka 2019, en vart þarf að taka fram að óvissan um vaxtaþróunina eykst hratt eftir því sem lengra er skyggnst fram í tímann.

Stýrivaxtaspá fyrir ágúst

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall