Morgunkorn Íslandsbanka

Neikvæð heildarávöxtun á íslenska hlutabréfamarkaðinum á árinu

12.11.2014

Innlendur hlutabréfamarkaður hefur átt mjög erfitt ár. Hefur gengi margra félaga annaðhvort lækkað eða stigið óverulega í fremur dræmri veltu. Hefur K-90 hlutabréfavísitala Greiningar ÍSB, sem lýsir verðbreytingum þeirra félaga sem mest velta er með á íslenska hlutabréfamarkaðinum, lækkað um 2% frá áramótum.

Vísitalan fór lægst í júlí og nam lækkun þá 8,5% en vísitalan hefur hækkað nokkuð síðan og stendur nú  á sama stað og hún stóð um miðjan febrúar sl. K-90 er leiðrétt fyrir arðgreiðslum og því er heildarávöxtun hlutabréfa jafngild ofangreindum gildum vísitölunnar og það sem af er ári 2014 því skilað neikvæðri heildararðsemi fyrir hlutafjáreigendur. 

Veltan lítil

Velta með hlutabréf frá janúar til október hefur numið um 23 mö.kr. að meðaltali á mánuði. Til samanburðar var meðalveltan á mánuði í fyrra 21 ma.kr. Í samanburðinum þarf að taka tillit til þess að skráðum félögum hefur fjölgað. Það sem af er ári hefur hlutabréfamarkaðurinn verið með veltu sem hefur verið í kringum 4,2% af markaðsvirði hlutabréfa á Aðallista Kauphallarinnar og er það nokkuð minna en í fyrra en þá var þetta hlutfall 5,1%. Þetta er talsvert lægra hlutfall en í kauphöllum sem íslenski markaðinn hefur oft borið sig saman við. 

Sveiflur í umfangi hlutabréfaviðskip innan ársins eru talsverðar en stór einstök viðskipti hífa upp  veltuna í sumum mánuðum en á árinu hefur verið um nokkrar töluvert stórar sölur þar sem stórir hluthafar seldu eignir sem fyrirséð var að þeir myndu losa. 

Þannig hefur Framtakssjóðurinn selt allt hlutafé sitt í Icelandair og N1 og Klakki selt allan hlut sinn í VÍS. TM minnkaði aftur verulega hlut sinn í HB Granda en fyrir lá að félagið þyrfti að losa eitthvað af hlutanum þar sem hann var nokkuð íþyngjandi vegna gjaldþolsútreikninga Solvency II. Önnur viðskipti hafa komið meira á óvart þannig seldi Hagamelur t.d. bróðurpart hlutar síns í Högum í febrúar og Columbia seldi allan hlut sinn í Marel nú í október. 

Skráningar HB Granda og Sjóvá náðu ekki að hafa þau veltuhvetjandi áhrif sem væntingar voru um. Veltan jókst eitthvað í kjölfar skráningar HB Granda í apríl en sú veltuaukning náði ekki að halda sér yfir næstu mánuði þar á eftir. Samanlagt markaðsvirði þeirra félaga sem nýskráð voru á árinu er um 74 ma.kr. Það verður að teljast nokkuð áhyggjuefni hversu lítil dagleg velta er ef horft er fram hjá þessum stóru viðskiptum. 

Félög með óskilvirka verðmyndun hækka mest

Tvö félög standa uppúr er kemur að hækkun hlutabréfsverðs á árinu, eftir að leiðrétt hefur verið arðgreiðslu þar sem það á við. Þessi félög eru Össur og Nýherji en  bæði félögin hafa hækkað gríðarlega á árinu. Bæði þessi félög hafa reyndar mjög óskilvirka verðmyndun á markaði.  Heildarvelta félaganna, það sem af er ári, í hlutfalli af meðalmarkaðsvirði þeirra er 2-3% sem er lágt samanborið við önnur félög.

Vodafone hefur hækkað mest, af þeim félögum sem teljast hafa næga veltu bak við sig svo hægt sé að tala um virka verðmyndun með þau, eða um 27%. Hagar og N1 eru einnig í þeim flokki og hefur heildarávöxtun af eignarhaldi í þeim bréfum verið rúmlega 11%.  HB Grandi hefur einnig hækkað talsvert en velta með þau bréf er ekki yfir heilt ár, þar sem félagið var skráð á Aðallista Kauphallarinnar á miðju ári.

Töluverð raunlækkun kemur nokkuð á óvart

Heilt á litið kemur lækkun hlutabréfa á innlendum hlutabréfamarkaði á árinu á óvart. Ástæðan er einfaldlega sú að fá félög hafa á árinu skilað afkomu sem er til þess fallinn að stýra væntingum um framtíðararðsemi í neikvæðan farveg. Í sumum tilfellum er hugsanlega um verðleiðréttingu að ræða eftir mikla hækkun í fyrra og eðlilega hefur árferðið verið erfiðara sumum félögum en öðrum. Þannig hafa fjármagnsmarkaðir t.a.m. leikið tryggingarfélögin grátt. 

Það liggur hins vegar fyrir að m.v. eðlilega ávöxtunarkröfu til hlutfjár ættu félögin að hafa hækkað á bilinu 10-14% í ár hefðu þau verið rétt verðmetin í upphafi árs og ekki komið fram neinar nýjar upplýsingar sem breyt hafa verðmatsforsendum frá upphafi árs. Það er því eðlilegt að spyrja sig hverju sættir. Líklega liggur ástæðan í því að fjárfestar hafa fundið að þeirra mati betri tækifæri í óskráðum fjárfestingum. 

Veltuleysið sem birtist í þeim tölum sem hér hefur verið farið yfir lýsir því að þannig að eftirspurn eftir skráðum bréfum hefur að miklu leiti verið svarað í þeim stóru einstökum viðskiptum sem talin voru upp hér að framan. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall