Morgunkorn Íslandsbanka

Seðlabankinn setur met í gjaldeyriskaupum í júlí

07.08.2015

Gjaldeyriskaup Seðlabankans í júlí voru þau mestu í einum mánuði frá upphafi. Alls keypti bankinn 265 m. evra á millibankamarkaði með gjaldeyri í síðasta mánuði, og var hlutdeild hans í heildarveltunni á gjaldeyrismarkaði ríflega 61%. Til samanburðar keypti Seðlabankinn 201 m.evra í júnímánuði, sem var þá langstærsti mánuðurinn fram að því hvað gjaldeyriskaup bankans varðar. Í júlí í fyrra námu gjaldeyriskaupin 83 m.evrum, og er því um ríflega þreföldun að ræða í nýliðnum júlí frá sama mánuði fyrir ári síðan.

Það sem af er ári hefur Seðlabankinn keypt 816 m.evra á millibankamarkaði inn í gjaldeyrisforða sinn. Er það 140% aukning frá síðasta ári, þegar bankinn keypti 340 m.evra á fyrstu 7 mánuðum ársins. Ríflega helmingur kaupanna í ár átti sér stað í júní og júlí. Endurspeglar það mikið hreint gjaldeyrisinnflæði til Íslands á tímabilinu, enda hefur gengi krónu á sama tíma styrkst lítillega m.v. viðskiptavegna gengisvísitölu þrátt fyrir kaupin. 

Innflæði vegna utanríkisviðskipta og fjárfestinga

Mikill vöxtur í ferðaþjónustu skýrir hluta innflæðisins. Þar má nefna að hreint innflæði gjaldeyris vegna kortaveltu nam ríflega 9 mö.kr. í júnímánuði samkvæmt tölum Seðlabankans, en tölur fyrir júlí verða birtar í næstu viku. Fleira kemur þó til. Vísbendingar eru um að hreint innflæði vegna beinnar fjárfestingar gæti verið að vaxa, enda skriður að komast á ýmis fjárfestingarverkefni í iðnaði og dæmi eru einnig um sölu innlendra fyrirtækja fyrir gjaldeyri. Þar að auki bendir ýmislegt til innflæðis tengt verðbréfafjárfestingum það sem af er sumri. Má þar benda á að eign erlendra aðila í ríkisbréfum óx um 4,4 ma.kr. í júnímánuði samkvæmt Markaðsupplýsingum Lánamála. Verður fróðlegt að sjá hvort tölur Lánamála fyrir júlímánuð, sem birtast næstkomandi mánudag, sýna áframhald á þeirri þróun.

Útlit er fyrir áframhaldandi innflæði gjaldeyris næsta kastið. Afgangur verður áfram af samanlögðum vöru- og þjónustuviðskiptum að mati okkar, einkum hvað þjónustuviðskipti varðar. Þjónustuviðskiptin hafa raunar dregið vagninn að þessu leyti það sem af er ári þar sem 10 ma.kr. halli var af vöruskiptum á fyrstu sjö mánuðum ársins samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir júlímánuð. Auk þess gæti innflæði tengt fjárfestingum orðið talsvert á komandi mánuðum. Seðlabankinn mun því líklega halda áfram að kaupa talsverðan gjaldeyri inn í gjaldeyrisforðann út þetta ár. 

Hreinn gjaldeyrisforði stækkar verulega

Þrátt fyrir gjaldeyriskaup Seðlabankans í júlí er gjaldeyrisforðinn í heild væntanlega heldur minni nú en hann var í júnílok, þegar hann nam jafnvirði 605 ma.kr. samkvæmt tölum bankans. Ástæðan er úttekt ríkissjóðs af gjaldeyrisreikningi sínum í Seðlabankanum til að standa straum af kaupum á eigin skuldabréfum í Bandaríkjadollurum sem námu 415 m. dollara. Kaupin fóru fram 4. ágúst síðastliðinn að undangengnu útboði. Þau bréf voru raunar gefin út til þess að afla gjaldeyris fyrir forða Seðlabankans, og má því segja að verið sé að skila að hluta til skuldsetta hluta gjaldeyrisforðans með endurkaupunum á sama tíma og hreinn gjaldeyrisforði stækkar. 

Þá hyggst Seðlabankinn einnig selja gjaldeyri úr forðanum í stóra aflandskrónuútboðinu sem boðað hefur verið með haustinu. Við höfum lauslega áætlað að sú sala muni í mesta lagi nema u.þ.b. 500 m.evra, og gæti hæglega orðið nokkuð minni.

Samkvæmt tölum Seðlabankans nam hreinn gjaldeyrisforði, þ.e. gjaldeyriseignir að frádregnum öllum skuldum í gjaldeyri, andvirði 119 ma.kr. í júnílok. Hafði forðinn þá rúmlega tvöfaldast á þennan kvarða frá áramótum, en þá nam hann 47 mö.kr. Við höfðum áður áætlað að hreinn gjaldeyrisforði gæti numið u.þ.b. 120-130 mö.kr. (800-900 m.evra) í árslok, en miðað við þróunina undanfarið og útlit fyrir gjaldeyrisflæði á komandi mánuðum gæti það mat reynst varfærið. Staða gjaldeyrisforðans verður því væntanlega mun sterkari í árslok en raunin var í ársbyrjun 2014, þegar hreinn forði var neikvæður, og burðir Seðlabankans til að draga úr áhættu vegna greiðslujafnaðaráfalls að sama skapi meiri.

Áhrif á peningamagn í umferð

Hin hliðin á gjaldeyriskaupunum er svo sú staðreynd að þau eru ekki stýfð með beinum hætti, og fjölgar Seðlabankinn því í raun krónum í umferð þegar hann safnar í forðann með slíkum kaupum. Hins vegar hefur bankinn bent á að á móti gjaldeyriskaupunum hafi peningamagn minnkað með auknum innstæðum í Seðlabankanum og sölu eigna ESÍ. Stærsti þátturinn í þróun peningamagns tengt losun hafta og gjaldeyrismarkaði á næstunni verður þó væntanlega ráðstöfun stöðugleikaframlags/-skatts slitabúanna á komandi misserum, en hún gæti leitt til töluverðrar minnkunar á peningamagni í umferð og vegið þannig gegn áhrifum gjaldeyriskaupanna.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall