Morgunkorn Íslandsbanka

Viðsnúningur í húsnæðisverði á evrusvæðinu?

11.10.2013

nullVerð á íbúðarhúsnæði á evrusvæðinu var 2,2% lægra á öðrum ársfjórðungi þessa árs en á sama tímabili í fyrra samkvæmt upplýsingum sem hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat) birti í gær.  Af þeim 13 evruríkjum þar sem tölur um húsnæðisverðsþróun eru tiltækar lækkaði verð í sex á þessum tíma. Lækkaði verð mest á Spáni, en þar fór húsnæðisverð niður um 10,6% á tímabilinu. Þar næst koma Holland, Ítalía og Slóvakía með 7,5%, 5,9% og 4,6% lækkun. Tölur fyrir Grikkland vantar hins vegar inn í samanburðinn. Af þeim löndum innan evrusvæðisins þar sem verð hækkaði var hækkunin mest í Eistlandi, eða um 8,1%, og í Lúxemborg um 5,1%.

Fylgir hagsveiflunni

Eftir að fjármálakreppan skall á árið 2008 lækkaði húsnæðisverð talsvert á evrusvæðinu og náði botni á árinu 2009. Hækkaði það síðan nokkuð samhliða uppsveiflu á svæðinu fram á fyrri hluta árs 2011. Fram á fyrsta ársfjórðung þessa árs lækkaði það samfellt og hafði þá ekki verið lægra síðan á seinni hluta árs 2006. Lækkun húsnæðisverðs á svæðinu frá árinu 2009 hefur hangið saman við samdrátt á svæðinu og hefur verðlækkunin innan svæðisins verið mest í þeim löndum þar sem efnahagsástandið hefur verið hvað verst.

Hækkaði frá fyrsta fjórðungi

Húsnæðisverðið hækkaði hins vegar á milli fyrsta og annars ársfjórðungs í ár um 0,3%. Hangir það eflaust saman við að á þeim fjórðungi mældist hagvöxtur á evrusvæðinu í fyrsta sinn í langan tíma. Var vöxturinn frá fyrsta yfir á annan árfsfjórðung í árstíðarleiðréttri landsframleiðslu 0,3%. Spáð er framhaldi á efnahagsbatanum á svæðinu, og raungerist sú spá má reikna með því að hækkun húsnæðisverðs á svæðinu haldi áfram.

Hækkun hér síðan 2010

Hér á landi hefur verð íbúðarhúsnæðis þróast með nokkuð öðrum hætti en á evrusvæðinu. Verð íbúðarhúsnæðis náði botni seinna hér en á evrusvæðinu eftir að fjármálakreppan skall á, eða á árinu 2010. Verðið hefur síðan verið að hækka. Húsnæðisverðið hefur þannig fylgt hagsveiflunni hér á landi sem hefur verið nokkuð hagfelldari undanfarið en á evrusvæðinu. Hækkaði húsnæðisverð hér á öðrum fjórðungi í ár um 4,9% frá sama tímabili í fyrra samkvæmt upplýsingum Eurostat. Hækkunin á milli fyrsta og annars fjórðungs í ár mældist 2,7%. Við reiknum með því að eftir því sem efnahagsbatinn heldur áfram hér á landi á næstunni muni íbúðaverð halda áfram að hækka.

Af Norðurlöndunum var mest hækkun í Noregi

Af Norðurlöndunum mældist hækkun húsnæðisverðs mest í Noregi, 5,8% á öðrum ársfjórðungi í ár m.v. sama fjórðung í fyrra samkvæmt tölum Eurostat. Minnst var hækkunin hins vegar í Finnlandi þar sem húsnæðisverð hækkaði aðeins um 1,4% á tímabilinu.  Í Svíþjóð hækkaði húsnæðisverð um 4,6% og í Danmörk mældist hækkunin 3,5%.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall