Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,2% hækkun VNV í júní

16.06.2017

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2 í júní frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá verður verðbólga óbreytt í 1,7% frá síðasta mánuði.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa batnað nokkuð frá síðustu spá. Er nú útlit fyrir að verðbólga fari ekki yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrr en á seinni hluta næsta árs, og verði að jafnaði undir 3,0% út árið 2019.

Húsnæði og flug til hækkunar

Hækkandi íbúðaverð vegur þyngst til hækkunar VNV í júní líkt og undanfarið. Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs, vegur til 0,27% hækkunar VNV. Þó virðist vera að hægja á hækkun íbúðaverðs m.v. könnun okkar. Má geta þess að áhrif þessa liðar hafa að meðaltali verið til 0,35% hækkunar í hverjum mánuði frá áramótum.

Flugfargjöld hafa áhrif til 0,09% hækkunar VNV, og er þar um árstíðarsveiflu að ræða. Þá hækkar verð á veitingum og gistingu nokkuð skv. spá okkar (0,03% í VNV).

 

Styrking krónu og samkeppnisáhrif til lækkunar

Ýmsir undirliðir VNV lækka í júní, ekki síst meðal innfluttra vara. Koma þar til bæði áhrif af styrkingu krónu síðustu mánuði og harðari samkeppni vegna tilkomu Costco og vaxandi viðskipta Íslendinga við alþjóðlegar netverslanir. Þessir þættir, ásamt lækkandi heimsmarkaðsverði á eldsneyti, skýra 4,3% lækkun eldsneytisverðs (-0,08% í VNV). Þá lækka bifreiðar (-0,05% í VNV), lyf (-0,04% í VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður (-0,02% í VNV) svo nokkuð sé nefnt. Við teljum einnig að símaþjónusta haldi áfram að lækka í verði (-0,02% í VNV).

Verðbólga eykst nokkuð næsta kastið

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aðeins hækka næstu mánuðina. Við spáum 0,1% lækkun vísitölunnar í júlí, 0,5% hækkun í ágúst og 0,3% hækkun í september. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,9% í septembermánuði.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,23% í mánuði hverjum að jafnaði. Útsöluáhrif munu svo setja svip sinn á júlímælingu VNV að vanda og útsölulok að sama skapi á ágúst- og septembermælingarnar. Þá gerum við ráð fyrir nokkurri árstíðarbundinni hækkun flugfargjalda í júlí, en lækkun í ágúst og september.

Hófleg verðbólga á komandi misserum

Útlit er fyrir áframhaldandi hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Þá eiga frekari áhrif af aukinni samkeppni einnig eftir að koma fram að mati okkar og halda aftur af verðbólgu á næstunni. Við teljum að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út yfirstandandi ár og mælist 2,1% í desember nk. Hins vegar verður verðbólgutakturinn heldur hraðari í spá okkar eftir því sem líður á næsta vetur. Áætlum við að verðbólga verði að jafnaði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á næsta ári. Við spáum svo  2,8% verðbólgu að meðaltali árið 2019.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall