Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,1% hækkun neysluverðs í apríl

10.04.2015

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,1% í aprílmánuði frá mánuðinum á undan. Ef spáin gengur eftir hjaðnar verðbólga úr 1,6% í 1,4%. Verðbólga er því áfram nokkuð undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans samkvæmt spánni.

Horfur hafa heldur batnað frá síðustu spá, þrátt fyrir að við gerum nú ráð fyrir heldur meiri hækkun íbúðaverðs á komandi mánuðum en áður. Við teljum að verðbólgan muni verða undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans stærstan hluta ársins, en enda árið 2015 í markmiðinu. Horfur eru á vaxandi verðbólgu í kjölfarið, en hún verður þó samkvæmt spánni innan þolmarka verðbólgumarkmiðsins næstu ár. Hagstofan birtir VNV fyrir apríl kl. 09:00 þann 29. apríl næstkomandi.

Tíðindalítil aprílmæling?

Útlit er fyrir að flestir þeir undirliðir VNV sem oft hafa mest áhrif á mánaðarbreytingar hennar muni lítið breytast að þessu sinni. Á það ekki síst við um húsnæðisliðinn, sem drifið hefur verðbólgu að miklu leyti undanfarið. Athugun okkar gefur til kynna að litlar breytingar muni mælast á markaðsverði íbúðarhúsnæðis, og þar með greiddri húsaleigu í VNV, að þessu sinni. Það kemur nokkuð á óvart eftir umtalsverða hækkun þessa liðar síðustu mánuði, en komandi mánuðir munu leiða í ljós hvort um er að ræða flökt milli mánaðamælinga, sem getur verið talsvert líkt og sjá má á myndinni, eða hvort hægt hefur á verðhækkunartaktinum á íbúðamarkaði. Í heild gerum við ráð fyrir 0,06% hækkun á húsnæðislið VNV (0,02% áhrif í VNV).

Svipaða sögu má segja af eldsneytisverði, sem hækkaði drjúgt í marsmælingu VNV. Könnun okkar bendir raunar til um 0,9% hækkunar á þessum lið milli mánaða, en þá ber á það að líta að mæling Hagstofu sýndi nokkru meiri hækkun á liðnum í mars en okkar könnun hafði gefið til kynna. Við spáum því að mæling Hagstofunnar sýni aðeins ríflega 0,2% hækkun á þessum lið nú (0,01% í VNV).

Þriðji liðurinn sem oft hefur sveiflað mánaðarmælingum VNV töluvert er flugfargjöld til útlanda. Að þessu sinni bendir þó verðkönnun okkar til þess að liðurinn breytist lítið, en rétt er að halda til haga að hann er ólíkindatól og ekki alltaf samræmi milli verðmælinga okkar og Hagstofunnar. 

Lausleg athugun okkar á bifreiðaverði bendir til þess að sá liður muni lækka um 0,5% í aprílmælingu VNV (-0,02% í VNV). Gangi spáin eftir hefur bifreiðaverð lækkað um 2,5% frá 3. ársfjórðungi 2014. Leggst þar á eitt lækkun virðisaukaskatts á bifreiðar um síðustu áramót og tæplega 4% styrking krónu gagnvart evru á tímabilinu.

Það eru í raun fáir undirliðir sem við gerum ráð fyrir að vegi umtalsvert til hækkunar VNV að þessu sinni. Þó má nefna að við gerum ráð fyrir 0,7% hækkun á liðnum hótel- og veitingastaðir (0,03% í VNV), en þar af reiknum við með að verð gistingar hækki um 3,0%.

Verðbólga í markmið Seðlabankans í lok árs

Næstu mánuði spáum við hóflegri hækkun VNV, og að litlar breytingar verði á 12 mánaða verðbólgutaktinum. Við spáum 0,2% hækkun VNV í maí, 0,4% hækkun í júní og 0,3% lækkun í júlí. Gangi spáin eftir mun verðbólga að jafnaði mælast 1,5% á 2F 2015. Líkt og í aprílmælingunni gerum við ráð fyrir tiltölulega tíðindalitlum mælingum VNV ofangreinda mánuði, enda hreyfist gengi krónu lítið þessa dagana, sveiflur í eldsneytisverði hafa minnkað erlendis og útlit er fyrir að kjarasamningar geti dregist á langinn, jafnvel fram á sumar. Þó teljum við að hækkun íbúðaverðs muni ýta VNV upp um 0,1% í mánuði hverjum næstu mánuðina. Sömu sögu má segja um hækkandi flugfargjöld í júní og júlí, enda fer þá í hönd háannatími í ferðaþjónustu. Í júli gerum við svo ráð fyrir hefðbundnum áhrifum sumarútsala.

Í kjölfarið spáum við vaxandi verðbólgu, og mun verðbólgan verða við 2,5% markmið Seðlabankans í árslok 2015 samkvæmt spá okkar. Ári síðar áætlum við að verðbólgan verði orðin 2,8%. Ástæður aukinnar verðbólgu í spá okkar eru að stærstum hluta hröð hækkun launa og áframhaldandi verðhækkun íbúðarhúsnæðis, sem hvort tveggja endurspeglar vaxandi spennu í efnahags- og atvinnulífinu. Verðbólga gæti þó reynst meiri en við spáum. Þar kann að koma til enn hraðari hækkun launa en við gerum ráð fyrir, meiri hækkun íbúðaverðs og síðast en ekki síst sveiflur í gengi krónu þegar (og ef) umtalsverð skref verða stigin til losunar gjaldeyrishafta á komandi misserum.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall