Morgunkorn Íslandsbanka

Óbreyttir stýrivextir en dúfnakurr í Svörtuloftum

15.11.2017

Peningastefnunefnd Seðlabankans (SBÍ) tilkynnti í morgun að skammtímavöxtum bankans yrði haldið óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,25%. Ákvörðunin var í samræmi við allar birtar spár, en nokkur titringur hafði verið á markaði fyrir ákvörðunina vegna þeirrar tilfinningar ýmissa markaðsaðila að ákvarðanir bankans væru minna fyrirsjáanlegar upp á síðkastið en áður.

Framsýn leiðsögn í yfirlýsingu peningastefnunefndar nú er hlutlaus, líkt og verið hefur frá miðju síðasta ári. Rétt er að geta þess að á framangreindu tímabili hafa stýrivextir lækkað um 1,5 prósentur. Samkvæmt peningastefnunefnd virðist núverandi aðhald peningastefnunnar “..að svo stöddu duga til þess að verðbólga verði að jafnaði við markmið. Hvort það reynist rétt mun á komandi misserum ráðast af framvindu efnahagsmála, þ.m.t. stefnunni í opinberum fjármálum og niðurstöðu kjarasamninga.”

Þessi orð má að mati okkar túlka þannig að hækki raunstýrivextir á næstunni, t.d. vegna hjöðnunar verðbólgu eða lækkandi verðbólguvæntinga, muni stýrivextir Seðlabankans lækka sem því nemur. Einnig kom fram á kynningarfundi eftir ákvörðunina að peningastefna Seðlabankans er gagnadrifin um þessar mundir. Munu því framangreindir þættir, ásamt vísbendingum um hvert stefnir í hagkerfinu á næstu fjórðungum, væntanlega hafa mikið vægi í allra næstu vaxtaákvörðunum. Almennt er tónninn í yfirlýsingunni, sem og á kynningarfundi í kjölfar hennar, með nokkru dúfuyfirbragði og ber þess merki að peningastefnunefndin telur jafnvægisvexti hafa lækkað undanfarin ár.

Óhagstæðari utanríkisviðskipti en hófleg verðbólga

Í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er dregin upp keimlík mynd af horfum í hagkerfinu og í ágústspá bankans. Þó er gert ráð fyrir talsvert minni hagvexti í ár (3,7%) en í ágústspánni (5,2%). Ástæðan er fyrst og fremst óhagstæðara framlag utanríkisviðskipta, þ.e. minni vöxtur útflutnings og meiri vöxtur innflutnings. Spá um hagvöxt árin 2018 og 2019 er hins vegar nær óbreytt, nema hvað hlutur þjóðarútgjalda í vexti eykst og hlutur utanríkisviðskipta minnkar. Samsetning vaxtarins er því að verða heldur óhagstæðari en teiknað var upp í síðustu spá. Það endurspeglast í því að Seðlabankinn spáir nú minni viðskiptaafgangi á komandi árum en í fyrri spá sinni.

Seðlabankinn telur verðbólguhorfur fremur góðar sem fyrr. Spáir bankinn nú verðbólgu við markmið út áratuginn, og er heldur bjartsýnni hvað það varðar en í síðustu spá sinni. Hljóðar spá hans upp á heldur minni verðbólgu en nýbirt verðbólguspá okkar, sem skýrist væntanlega að stórum hluta af því að SBÍ spáir nokkurri styrkingu krónu á komandi árum en við erum með litlar gengisbreytingar í okkar spá.

Í svari við spurningu okkar á kynningarfundi í morgun kom fram sú skoðun aðalhagfræðings Seðlabankans, Þórarins G. Péturssonar, að gengisleki (e. passthrough) yfir í verðlag hefði minnkað vegna aukins trúverðugleika peningastefnunnar. Það þýddi að gengisbreytingar hefðu minni áhrif á verðbólguvæntingar. Þetta hljóta að teljast jákvæð tíðindi, og ættu að gera Seðlabankanum auðveldara að halda verðbólgu nærri markmiði við lægra vaxtastig en ella.

Frekari lækkun vaxta líkleg

Að mati okkar rímar vaxtaákvörðunin nú, og það sem fram kom samhliða henni, við þá skoðun okkar sem birt var í nýlegri stýrivaxtaspá að stýrivextir verði lækkaðir frekar þegar hægja tekur á hjólum hagkerfisins og verðbólguþróun komandi fjórðunga skýrist. Má um þessar mundir greina nokkurn dúfnakurr í Svörtuloftum, eins og gárungarnir kalla stundum Seðlabankabygginguna við Kalkofnsveg. M.ö.o. lesum við þannig í orð og gjörðir peningastefnunefndar undanfarið að vilji nefndarmanna standi til að stuðla að lægri raunvöxtum hérlendis en verið hafa í uppsveiflunni undanfarin ár. Teljum við að stýrivextir muni lækka um 50 punkta (0,5%) fyrir árslok 2018. Ef verðbólga verður minni en við og Seðlabankinn spáum, t.d. vegna hægari hækkunar húsnæðisverðs, munu vextirnir væntanlega lækka hraðar og meira.

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall