Þjóðhagsspá 2017-2019

Uppfærð Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka var kynnt þann 26. janúar á fundi í nýjum höfuðstöðvum bankans. Þar var farið yfir helstu hagtölur þjóðarbúsins og þær settar í samhengi við stöðu heimila, fyrirtækja og fjármálamarkaðarins. 

Sérfræðingar bankans og Íslandssjóða fóru einnig yfir verðbréfamarkaði á árinu 2018 sem og uppgjör verðbréfamarkaða á árinu 2017.

  • Þjóðhagsspá: "Sætisbökin upp" - Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfæðingur Íslandsbanka
  • Sértryggð skuldabréf - Helga Óskarsdóttir, sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum
  • Staðan á erlendum mörkuðum - Halldóra Skúladóttir, forstöðumaður Eignastýringar hjá Íslandssjóðum
  • Innlendur hlutabréfamarkaður á árinu 2018 og uppgjör 2017 - Kristján M. Bragason, sérfræðingur hjá Verðbréfamilun Íslandsbanka
Hægt er að kynna sér nánar þessi erindi hér.

Undanfarin ár hafa verið tímabil góðæris eftir djúpa efnahagslægð í lok síðasta áratugar. Uppsveiflan náði hámarki árið 2016 þegar hagvöxtur nam 7,2%. 
Við áætlum að hagvöxtur í fyrra hafi verið 4,1%. Fyrir yfirstandandi ár spáum við 2,3% hagvexti, og sama hagvexti árið 2019. 

Segja má að heimilin dragi hagvaxtarvagninn að stórum hluta á spátímanum.. Einkaneysla og íbúðafjárfesting hefur í því efni tekið við af þjónustuútflutningi og fjárfestingu atvinnuvega. Fyrrnefndi liðurinn mun þó vaxa talsvert áfram næstu árin.

Við spáum því að viðskiptaafgangur muni nema 3,7% af VLF í ár, og 2,4% árið 2019. Gangi það eftir mun næsta ár verða sjöunda árið samfellt þar sem umtalsverður afgangur er af viðskiptajöfnuði. Viðvarandi viðskiptaafgangur hefur átt drjúgan þátt í að bæta erlenda stöðu þjóðarbúsins, og er nú svo komið að erlendar eignir eru nokkru meiri en erlendar skuldir.

Með hægari vexti í mannaflsfrekum geirum á borð við ferðaþjónustu og byggingariðnað er líklegt að þrýstingur á vinnumarkaði hjaðni nokkuð á komandi fjórðungum. Atvinnuleysi mun því væntanlega aukast aðeins á sama tíma og hækkun launa verður hægari en verið hefur. Við spáum 3,0% atvinnuleysi í ár og 3,2% atvinnuleysi að jafnaði árið 2019. Spá okkar fyrir launaþróun hljóðar upp á 5,7% hækkun að jafnaði í ár, og 4,8% hækkun launa á næsta ári.

Við teljum að verðbólga verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á 3. fjórðungi ársins, en aukist nokkuð í kjölfarið og verði 2,8% í árslok 2018. Árið 2019 spáum við 2,8% verðbólgu að jafnaði. Það má því segja að miðað við spá okkar verði verðbólga að jafnaði í næsta nágrenni við markmið Seðlabankans fram til ársloka 2019.

 Áhugaverðar staðreyndir úr Þjóðhagsspánni

Skýrsla um Þjóðhagsspá 2017-2019

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall