Fjármál og ungt fólk

Þegar líður að fjárræði er nauðsynlegt fyrir ungt fólk að kynna sér fróðleiksmola um fjármál. Hér eru nokkrir molar um það sem skiptir máli í fjármálum fyrir ungt fólk sem er að verða fjárhagslega sjálfstætt.
Opna allt
Samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 þá verður fólk lögráða við 18 ára aldur. Lögráða er samheiti yfir það að vera sjálfráða og fjárráða. Ólíkt því sem áður var, þá er sjálfræðis- og fjárræðisaldur nú 18 ár en áður fyrr varð fólk sjálfráða 16 ára og fjárráða 18 ára. Lögræði þýðir fyrst og fremst að aðili ber réttindi og skyldur fullorðins manns og er því laus undan valdi foreldra og forráðamanna og ákvæðum barnalaga. Þess í stað fylgir lögræði meiri réttindi og skyldur gagnvart ríkisvaldinu.
Sjálfræði felur í sér að einstaklingar ráða einir yfir öllu öðru en fé sínu, nema lög mæli á annan veg. Sjálfráða einstaklingur ræður því persónulegum högum sínum, til dæmis með tilliti til náms, vinnu, heimilis og svo framvegis.
Fjárræði þýðir að einstaklingar hafa forræði og bera fulla ábyrgð á fjármálum sínum, svo sem bankareikningum og öðrum eignum, og mega ráðstafa þeim eftir eigin höfði.
Í stuttu máli þýðir sjálfráða að maður ráði öllum sínum persónuhögum sjálfur, svo sem dvalarstað, vinnu og skóla. Í fjárræði felst að maður ræður einn yfir fé sínu. Fjárráða einstaklingar geta sjálfir ráðstafað eignum sínum, t.d. selt þær, leigt þær eða veðsett. Fjárráða manneskja getur jafnframt tekið á sig fjárhagslegar skuldbindingar, t.d. stofnað til skulda.
Foreldrum og forráðamönnum ber ekki skylda til að framfleyta lögráða börnum sínum eins og kveðið er á um í barnalögum frá árinu 1992. Það er þó ekki þar með sagt að foreldrar hætti afskiptum af börnum sínum en þeim ber ekki sú skylda samkvæmt lögum. Þvert á móti er venjan sú að foreldrar framfleyti börnum sínum með einhverjum hætti á meðan þau eru í námi og/eða búa í foreldrahúsum. Þetta fer ávallt eftir aðstæðum og getur fyrirkomulag þess verið fjölbreytilegt.
Sumir eiga sparnað eða verðbréf sem þeir hafa öðlast eða unnið sér inn á unglingsárum. Þegar þeir verða 18 ára ráða þeir yfir þessum eignum og geta ráðstafa þeim að vild. Við þessi tímamót vaknar því spurningin hvað gera eigi við þessar eignir. Sumir freistast til þess að nota peninginn í eitthvað spennandi eins og utanlandsferð eða bílakaup á meðan aðrir ákveða að halda áfram að ávaxta fé sitt og safna í enn stærri sjóð sem gæti nýst til húsnæðiskaupa eða áframhaldandi menntun, jafnvel erlendis.
Fjárráða einstaklingur má taka á sig almennar fjárskuldbindingar, svo sem lán hjá bönkum eða fjármögnunarfyrirtækjum og gengist í ábyrgð vegna skulda annarra. Lán, samkvæmt skilgreiningunni, er samkomulag þar sem ákveðin upphæð er lánuð frá einum aðila til annars og tilgreint er hvernig upphæðin skal greidd til baka og með hve miklum vöxtum. Lán geta ýmist verið til skamms tíma eða langtímalán. Algengustu skammtímalánin eru svokölluð neyslulán, eins og yfirdráttarlán og kreditkortalán.
Með yfirdrætti fær lántakandi ákveðna heimild til að mynda neikvæða stöðu á tékkareikningi og á meðan staðan er neikvæð eru greiddir vextir sem hækka og lækka með stýrivaxtabreytingu Seðlabanka Íslands. Yfirdráttarlán eru yfirleitt ótímabundin og geta einstaklingar því verið með neikvæða stöðu að jafnaði. Slíkt ber að varast því yfirdráttarvextir eru háir og geta ársvextir slíkra lána hlaupið á tugum þúsunda, allt eftir vaxtakjörum og nýtingu yfirdráttarheimildar.
Við 18 ára aldur verður fólk lögráða en það er samheiti yfir bæði sjálfræði og fjárræði. Lögræði þýðir fyrst og fremst að aðili ber réttindi og skyldur fullorðins manns og er því laus undan valdi foreldra og forráðamanna.
Kreditkortalán eru annað form af skammtímaskuldum en ólíkt yfirdráttarvöxtum hafa þau ákveðna gjalddaga í lok hvers úttektartímabils, sem venjulega er 30 daga tímabil. Kreditkortalán bera aðeins vexti ef kortaskuldin er ekki greidd á gjalddaga og þá er miðað við dráttarvexti sem eru jafnan aðeins hærri en yfirdráttarvextir.
Langtímalán fela í sér að búið er til skuldabréf sem er samningur á milli lánveitanda og lántakanda þar sem ákveðið er hvernig endurgreiðsla lánsins fer fram. Lánstími langtímalána getur verið allt frá einu ári til 40 ára. Skuldabréf geta ýmist verið verðtryggð eða óverðtryggð, með veði eða án veðs, eða með föstum eða breytilegum vöxtum. Algengustu langtímalánin flokkast eftir því til hvaða nota lánin eru fengin og má þar nefna námslán, bílalán og húsnæðislán. Einnig er hægt að fá almenn skulabréfalán til ýmissa nota.
Námslán eru veitt af Lánasjóði íslenskra námsmanna til námsmanna hérlendis og erlendis til að framfærslu á meðan námi stendur. Námslán eru verðtryggð en bera ekki vexti fyrr en námi er lokið. Endurgreiðsla námslána hefst tveimur árum eftir að námi lýkur og reiknast þá 1% vextir á lánsfjárhæðina.
Með bílaláni fær kaupandi lán fyrir kaupverði bílsins. Annað hvort er um hefðbundin bílalán að ræða þar sem að kaupandi verður skráður eigandi bílsins frá upphafi og veitir lánveitanda fyrsta veðrétt í bílnum sem tryggingu fyrir láninu og afborgunum þess. Algengt er að veitt sé allt að 70% fjármögnun. Einnig er hægt að gera svokallaðan bílasamning sem felur í sér að lánveitandinn kaupir bílinn og leigir kaupanda í umsaminn tíma. Í lok samningstímans verður kaupandi skráður og skattalegur eigandi bílsins.
Húsnæðislán eru veitt til fjárfestinga í húsnæði. Helstu lánveitendur eru Íbúðalánasjóðir, bankar og lífeyrissjóðir svo eitthvað sé nefnt. Lánveitandi tekur alltaf veð í húsnæðinu og lánar upp að vissu hlutfalli markaðsverðs á hverjum tíma en mismunandi er hversu hátt þetta hlutfall er og oft ræðst það að einhverju leiti af því hvort að lánið sé á fyrsta veðrétti eða ekki.
Í viðskiptum gilda ákveðnar reglur sem allir verða að fara eftir. Ef þú hefur skuldbundið þig til að fara eftir ákveðnum skilmálum getur verið alvarlegt að brjóta gegn þeim. Þess vegna er mjög mikilvægt er að lesa og skilja alla skilmála vandlega áður en skrifað er undir þá. Já, líka smáa letrið aftast.
Takir þú lán og lendir í vandræðum með greiðslur gæti orðið erfitt að leysa málin. Þú gætir átt á hættu að lenda á vanskilaskrá. Ef nafnið þitt lendir á vanskilaskrá getur það haft áhrif í mörg ár og jafnvel hindrað að þú fáir lán hjá bönkum. Það er því mikilvægt og nú að standast freistingarnar og koma sér ekki í vandræði með skuldum sem maður ræður ekki við. Það er góð regla að eyða ekki um efni fram.
Þegar skuld er ekki greidd á umsömdum tíma er sagt að skuldin sé komin í vanskil. Vanskil hafa aukinn kostnað í för með sér því þá fara dráttarvextir að hlaðast á skuldina. Dráttarvextir eru mun hærri en venjulegir vextir. Kröfueigandi hefur ýmis úrræði til þess að innheimta vanskilaskuldir og þau hafa öll í för með sér aukinn kostnað. Ef skuldari greiðir ekki skuldina þrátt fyrir innheimtutilraunir getur kröfueigandi sett kröfuna í lögfræðiinnheimtu og eftir atvikum fengið dóm eða áritaða stefnu fyrir skuldinni, gert fjárnám í eignum aðalskuldara og/eða ábyrgðarmanna og beðið um nauðungarsölu á hinni fjárnumdu eign. Ef fjárnám er árangurslaust (engar eignir til að gera fjárnám í) getur kröfueigandi í kjölfarið beðið um gjaldþrotaskipti hjá skuldara. Gjaldþrot einstaklings rýrir verulega möguleika hans til að eiga viðskipti.
Þegar þú verður fjárráða getur þú tekist á hendur fjárhagslegar skuldbindingar. Í því felst að þú berð ábyrgð á eigin skuldum með öllum þínum eigum. Í því felst einnig að þú getur gengist í ábyrgð fyrir skuldum annarra. Að vera ábyrgðarmaður þýðir að ef lántakandi getur ekki sjálfur borgað lánið, þá þarf ábyrgðarmaðurinn að gera það. Rétt er að hafa í huga að það er ekki vinargreiði að gerast ábyrgðarmaður – við verðum fyrst og fremst að hugsa um okkar eigin fjárhag. Ef ábyrgðarmaður getur ekki borgað lán sem hann er í ábyrgð fyrir þá getur hann lent á vanskilaskrá. Það er því mjög mikilvægt að gerast aldrei ábyrgðarmaður nema vera tilbúinn til þess að borga alla skuldina sjálfur og hafa jafnframt fjárhagslegt bolmagn til þess. Bæklingur um sjálfskuldarábyrgð liggur frammi í bankanum og hvetjum við þig til þess að lesa hann.
Vanskilaskrá er opinber skrá sem geymir upplýsingar um vanskil einstaklinga og fyrirtækja, svo sem upplýsingar um áritaðar stefnur og dóma í skuldamálum, árangurslaus fjárnám, nauðungarsölur, gjaldþrot og skiptalok. Þar eru skráðar dagsetningar, nafn og kennitala skuldara (og ábyrgðarmanna, ef um ábyrgðarskuldbindingu er að ræða), fjárhæð skuldar o.fl. Fjármálastofnanir hafa aðgang að vanskilaskránni í gegnum Lánstraust ehf. Upplýsingarnar eru almennt í fjögur ár í skránni. Þegar skuldari hefur gert upp vanskil sín getur hann beðið um að nafn hans sé tekið af vanskilaskrá. Þegar viðskiptamaður sækir um lán er almennt skoðað hvort viðkomandi sé á vanskilaskrá og ef svo er vegur það þungt við mat á lánsumsókninni.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall