Viðskiptaskilmálar Íslandsbanka hf.

Viðskiptaskilmálar Íslandsbanka hf.

Skilmálar þessir gilda um kort útgefin af Íslandsbanka hf. 

Tems and Conditions for Islandsbanki cards

1. SKILGREININGAR

1.1. Í skilmálum þessum merkir: Reikningshafi: Sá sem gert hefur samning um stofnun kortareiknings.
Kortareikningur: Reikningur sá sem á færast úttektir sem korthafi framkvæmir með framvísun korts eða númers þess eða með öðrum lögmætum hætti sem samrýmist skilmálum þessum. 
Kort: Skilríki fyrir því að reikningshafi hafi gert fyrrnefndan samning. Kortið getur hvort heldur verið örgjörvi í plastkorti sem jafnframt er með segulrönd og áþrykktu/prentuðu kortanúmeri eða örgjörvi í símakorti („SIMkorti“) farsíma til þess að tryggja öryggi í viðskiptum og er einvörðungu tengt við einn kortareikning.
Korthafi:Reikningshafi eða sá sem hann heimilar að hafi aukakort. Ef gefið er út aukakort, nefnist sá sem það heimilar aðalkorthafi en sá sem heimildina fær aukakorthafi. Bæði kortin eru gefin út á kortareikning aðalkorthafa. Korthafi er einnig sá einstaklingur sem hefur fyrirtækjakort þó hann teljist ekki reikningshafi. 
Útgefandi: Íslandsbanki hf., kt. 491008-0160, Hagasmára 3, 201 Kópavogi, sími 440 4000, islandsbanki@islandsbanki.is, er fjármálafyrirtæki samkvæmt 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Íslandsbanki hefur starfsleyfi frá fjármálaeftirlitinu og lýtur jafnframt eftirliti þess. Afgreiðslan og þjónustuverið eru opin virka daga á auglýstum opnunartíma.
Einstaklingskort: Kort gefin út til einstaklinga. 
Fyrirtækjakort: Kort, þ.m.t. innkaupakort, sem gefin eru út til einstaklinga með atvinnustarfsemi á eigin kennitölu og lögaðila, s.s. félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana. Lögaðilinn telst þá reikningshafi.
Færsluhirðir: Aðili sem tekur við kortafærslum og greiðir þær til þjónustuaðila. Færsluhirðir innheimtir síðan kortafærslurnar hjá útgefanda sem innheimtir þær hjá korthafa.

2. UMSÓKN OG KORTAÚTGÁFA


2.1. Umsækjandi korts skal fylla út umsókn hjá útgefanda eða senda hana til útgefanda með rafrænum hætti í gegnum vefsíðu útgefanda eða kortaapp hans.

2.2. Útgefandi áskilur sér rétt til að leita allra upplýsinga um getu umsækjanda og fjárhag, sem nauðsynlegar eru að mati hans til að afgreiða umsókn, þar á meðal lánayfirlit (FE-skrá) um fjárhagsstöðu korthafa í bönkum og sparisjóðum og upplýsingar frá Creditinfo Lánstrausti hf., s.s. skuldastöðuyfirlit, lánshæfismat, upplýsingar úr vanskilaskrá og öðrum gagnagrunnum sem félagið rekur, allt samkvæmt sérstakri heimild sem umsækjandi getur veitt skriflega eða með samþykki á umsóknarsíðu útgefanda (www.islandsbanki.is). Áskilinn er réttur til að synja umsóknum án skýringa. 

2.3. Útgefandi áskilur sér ennfremur rétt til þess að afla þeirra upplýsinga er greinir í lið 2.2. meðan að reikningshafi er í viðskiptum hjá félaginu ef nauðsyn krefur, t.d. þegar greiðslufall verður af hálfu reikningshafa eða þegar reikningshafi hefur sótt um hækkun heimildar eða önnur þau atvik eru fyrir hendi er gefa tilefni til að kanna fjárhagsstöðu hans. 

2.4. Kortið er gefið út til ákveðins tíma í senn og stofnast þá kortareikningur. Standi korthafi við skuldbindingar sínar er kort hans endurnýjað, án umsóknar, en gegn árgjaldi. Árgjald er fært fyrirfram á kortareikning, skv. verðskrá á vefsíðu, fyrir 12 mánuði í senn. Hægt er að semja um útgáfu fleiri en eins korts á kortareikning reikningshafa, enda liggi fyrir samþykki reikningshafa. Ákveðin kort eru með mynd af korthafa, sem hann hefur lagt fram með umsókn eða er til í gagnagrunni sem útgefandi hefur aðgang að. 

2.5. Útgefandi sendir korthafa útgefið kort í pósti nema hann sæki það sjálfur í afgreiðslu útgefanda.

2.6. Vilji korthafi afturkalla umsókn sína skal hann tilkynna það skriflega til útgefanda og skila kortinu sundurklipptu ásamt fylgikortum hafi hann þegar veitt því móttöku.

3. SAMÞYKKI VIÐSKIPTASKILMÁLA

3.1. Með fyrstu notkun kortsins samþykkir reikningshafi og/eða korthafi að hlíta gildandi viðskiptaskilmálum korta útgefanda. Viðskiptaskilmálar útgefanda, eins og þeir eru á hverjum tíma, eru aðgengilegir á vefsíðu útgefanda, www.islandsbanki.is.

3.2. Með því að samþykkja viðskiptaskilmála vefumsóknar og/eða viðskiptaskilmála í  kortaappi Íslandsbanka og/eða með undirritun umsóknar við móttöku kortsins, samþykkir reikningshafi og/eða korthafi að fylgja í hvívetna skilmálunum. Áður en reikningshafi og/eða korthafi samþykkir skilmálana ber honum að kynna sér þá vandlega.

3.3. Með notkun endurnýjaðs korts samþykkir reikningshafi og/eða korthafi viðskiptaskilmála sem eru í gildi á viðkomandi tíma. Reikningshafa og/eða korthafa ber að kynna sér skilmálana.

3.4. Meðan á samningssambandi stendur getur reikningshafi og/eða korthafi, hvenær sem er, óskað eftir að fá viðskiptaskilmála útgefanda á pappír eða öðrum varanlegum miðli endurgjaldslaust.

4. ÚTTEKTARHEIMILD

4.1. Greiðslur með korti eru ávallt takmarkaðar við hámarksfjárhæð óháð úttektartímabili, en geta verið misjafnar eftir sölu- og þjónustuaðilum. Þeim aðilum er heimilt að sækja um hækkun heimildar vegna tiltekinna viðskipta. Innistæða á fyrirframgreiddu korti er úttektarheimild á hverjum tíma. 

4.2.Útgefanda er heimilt að synja um heimild fyrir úttekt á korti og honum er aldrei skylt að verða við beiðni um hækkun úttektarheimildar og áskilur sér rétt til synjunar, svo sem ef kort er notað í heimildarleysi, gildistími þess útrunninn, rangt PIN-númer er notað, snertilaus virkni misnotuð eða farið út fyrir leyfileg viðmið hennar, úttektarheimild hefur áður verið fullnýtt eða skuld við útgefanda gjaldfallin. Sé fyrir hendi rökstuddur grunur um óheimila eða sviksamlega notkun kortsins er heimilt að synja um úttektarheimild. Í því tilviki er korthafa gert viðvart í framhaldinu án tafar. Reynist grunur ekki á rökum reistur er opnað fyrir heimild þegar í stað.

4.3. Reikningshafi ábyrgist að ekki verði tekið út á einstök kort útgefnum af útgefanda. umfram útgefnar heimildir og að heildarúttektir á kortareikning hans verði ekki umfram það sem samið hefur verið um. Hámarksfjárhæð heimilaðrar peningaúttektar kemur fram á heimasíðu útgefanda og ákvarðast m.a. af tegund korts og úttektarheimildum korthafa. 

4.4. Korthafi getur gert greiðsluþjónustusamninga um sjálfvirkar greiðslur sem færast á kortareikning hans, svo sem boð-, rað- og léttgreiðslur og afborgunarlán. Útgefandi getur ákveðið að greiðslubyrði af slíkum samningum dragist frá úttektarheimild eða synjað um að frekari samningar verði gerðir. Útgefandi getur ávallt krafist greiðslumats á korthafa áður en samningar um sjálfvirkar greiðslur eru samþykktir.

5. ÚTTEKTARTÍMABIL


5.1. Almennt úttektartímabil, sem reikningsyfirlit korthafa miðast við er mánuður og er byrjun og lok þess auglýst á vefsíðu útgefanda www.islandsbanki.is.

5.2. Færsluhirðar geta með samningum við einstaka seljendur eða samtök seljenda vöru og þjónustu heimilað frávik frá ofangreindum úttektartímabilum, án sérstakra tilkynninga.

6. NOTKUN OG VARÐVEISLA KORTS


6.1. Korthafi skal rita nafn sitt á kortið við móttöku og hefur einn heimild til notkunar þess. Korthafi ber ábyrgð á varðveislu kortsins þannig að óviðkomandi aðili komist ekki yfir það.

6.2. Kortið gerir korthafa kleift að greiða fyrir vöru og þjónustu hjá seljendum um allan heim sem gert hafa samning við viðkomandi kortasamsteypu. 

6.3. Reikningshafi skuldbindur sig til að greiða að fullu allar úttektir af kortareikningi sínum með kortum sem löglega hafa verið gefin út á reikninginn. Skuldbindingin tekur til allra úttekta samkvæmt úttektarseðlum sem korthafi hefur undirritað, staðfest með innslætti á PIN-númeri eða með snertilausum hætti, sem og úttekta sem hann hefur heimilað við símapöntun, með úttekt í hraðbanka, með rafrænum samskiptum, þar með talið internetviðskipti, eða á annan hátt samþykkt til færslu á kortareikninginn. 

6.4. Aukakorthafi á einstaklingskorti ber ábyrgð á greiðslu úttekta sinna. Aðalkorthafi ber bæði ábyrgð á úttektum með aðal- og aukakortum. 
Þegar um er að ræða fyrirtækjakort, sbr. grein 1.1., ber sérhver korthafi ekki persónulega ábyrgð á úttektum á kort, sem gefið er út á hans nafn, nema fyrir liggi að hann hafi notað kortið í eigin þágu. Korthafar sem jafnframt eru eigendur fyrirtækis bera þó ávallt óskipta ábyrgð með fyrirtækinu nema þeir hafi verið undanþegnir ábyrgð af hálfu útgefanda.

6.5. Úttektir korthafa í erlendri mynt eru umreiknaðar í íslenskar krónur á því gengi sem er í gildi á þeim degi er færsla kemur sem úttekt inn í kortakerfi útgefanda. Korthafi greiðir einnig sérstakt úttektar- eða greiðslugjald samkvæmt verðskrá bankans, eins og hún er hverju sinni. Upplýsingar um gengi vegna kortnotkunar er að finna á vefsíðu útgefanda: www.islandsbanki.is. Gengi er skráð alla virka bankadaga. Gengi er ekki skráð á innlendum frídögum eða á frídögum alþjóðlegra kortasamsteypa. Verði gengi skráð á öðrum dögum tekur sú breyting gildi þegar í stað en ekki samkvæmt kafla 18.3. Notkun korts í gjaldeyrisviðskiptum er háð upplýsingaskyldu samkvæmt lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglum settum með heimild í þeim lögum. 

6.6. Skiladagur færslu frá söluaðila til færsluhirðis ræður því, til hvaða kortatímabils úttekt heyrir. 

6.7. Unnt er að taka út reiðufé með kortinu í þeim bönkum, sparisjóðum og hraðbönkum sem bjóða korthöfum útgefanda slíka þjónustu innan þeirra takmarkana sem útgefandi setur hverju sinni. 

6.8. Þegar reiðufé er tekið út í hraðbönkum og þegar úttektir eru gerðar með notkun örgjörvalesara á sölustað, skal korthafi í stað undirskriftar nota sérstakt einstaklingsbundið auðkennisnúmer, svokallað PIN-númer, sem korthafi fær afhent með kortinu eða staðfesta snertilaust með þar til gerðum örgjörva bjóði söluaðili upp á móttöku slíkra færslna. Með innslætti á PIN-númeri eða með snertilausri staðfestingu samþykkir korthafi þau viðskipti sem tilgreind eru á sölunótunni. Snertilausar færslur eru háðar fjölda og/eða fjárhæðartakmörkunum hverju sinni. Í netviðskiptum og við símgreiðslur skal korthafi gefa upp nafn, kortanúmer, gildistíma og öryggisnúmer og jafngildir slík upplýsingagjöf samþykki korthafa fyrir viðskiptunum. 

6.9. PIN-númerið er leyninúmer sem korthafi má ekki láta aðra hafa með neinum hætti né heldur geyma með korti sínu. Korthafi skal ekki geyma PIN-númer í veski sínu eða snjallsíma eða öðrum rafrænum búnaði eða með öðrum þeim hætti sem er aðgengilegur öðrum. Varðveiti korthafi PIN-númer ekki í samræmi við þessi fyrirmæli telst það stórfellt gáleysi. Korthafa ber ávallt að ganga úr skugga um að enginn sjái þegar hann slær inn PIN-númer sitt. 

6.10. Reglubundin útgjöld reikningshafa og/eða korthafa, hjá innlendum og erlendum seljendum má færa á útgefin kort að fyrirframgreiddum kortum undanskildum. Beiðnum reikningshafa/korthafa um skuldfærslur skal beint til söluaðila og skal beiðni einstakra korthafa vera nægileg. Verði vanskil á kortareikningi reikningshafa er útgefanda heimilt að stöðva allar greiðslur samkvæmt slíkum samningi án fyrirvara.

7. GJALDTAKA

7.1. Við útgáfu kortsins í fyrsta sinn greiðir korthafi árgjald. Korthafi heimilar útgefanda að skuldfæra kortareikning sinn fyrir árgjaldi eins og það er ákveðið hverju sinni, árlega eftir að kort er gefið út í fyrsta sinn. Fyrir aðra þjónustu greiðir reikningshafi og/eða korthafi eftir notkun samkvæmt gjaldskrá útgefanda.

7.2. Við úttektir í bönkum og hraðbönkum innanlands og utan leggst við kostnaður og úttektargjald samkvæmt verðskrá. 

7.3 Þegar korthafi fær nýtt kort þegar hið eldra hefur glatast greiðist endurútgáfugjald. Ef gefa þarf út nýtt kort vegna galla innheimtist ekki endurútgáfugjald. Afgreiðslugjald má innheimta fyrir útvegun neyðarfjár eða neyðarkorts. 

7.4 Ef uppsögn kortaviðskipta er tilkynnt skemur en 30 dögum áður en árgjald kortsins fellur í gjalddaga skal korthafi greiða gjald vegna útgáfu nýs korts. Þegar gjöld samkvæmt samningi þessum eru greidd fyrir fram skulu þau endurgreidd notanda hlutfallslega, með tilliti til gildistíma uppsagnar. 

7.5 Komi til vanskila skv. 13. kafla skilmála þessara eða vegna eftirstöðva sjálfvirkra greiðslna eða afborgunarlána sem útgefandi innheimtir, greiðir korthafi innheimtukostnað samkvæmt verðskrá útgefanda eða innheimtuaðila.


7.6. Öll gjöld vegna korta reiknast samkvæmt auglýstri verðskrá útgefanda sem nálgast má á heimasíðu hans: www.islandsbanki.is. Öll gjöld vegna þjónustu á vegum útgefanda fer samkvæmt auglýstri verðskrá útgefanda á hverjum tíma sem birt er á heimasíðunni www.islandsbanki.is. Korthafi samþykkir að honum verði tilkynnt um breytingar á verðskrám á heimasíðu útgefenda. Telst sú birting fullnægja kröfum 6. gr. laga nr. 121/1994, um neytendalán.

8. FYRIRFRAMGREITT KORT

8.1. Fyrirframgreidd kort fela ekki í sér lánsviðskipti. Þess í stað greiðir korthafi inn á kortareikning áður en kortið er notað og inneignin gengur upp í úttektir korthafa. Þar sem í skilmálum þessum og verðskrá er vísað til fyrirframgreiddra korta er átt við þess konar kort. Skuldastaða getur allt að einu myndast á kortareikningi vegna álagningar árgjalds eða annarra þóknunargjalda og ef bilun verður í afgreiðslutækjum, símalínum, tölvum eða samskiptabúnaði, innanlands sem erlendis. Sama gildir ef sölu- eða þjónustuaðili nýtir ekki samskiptabúnað tímabundið. Slíkar skuldbindingar eru jafnréttháar skuldum á venjulegum kortum og gjaldfalla á þeim degi eftir að úttektartímabili lýkur, sem auglýst er á heimasíðu útgefanda og er sá dagur jafnframt eindagi.

8.2. Ekki er heimilt að láta færa á fyrirframgreitt kort afborgunarsamninga, svo sem boðgreiðslur, léttgreiðslur eða aðrar reglubundnar greiðslur. Ekki er hægt að greiðsludreifa skuld er stofnast getur á fyrirframgreitt kort. Að sama skapi er ekki heimilt að skuldfæra afborganir af raðgreiðslum eða staðgreiðslulánum af fyrirframgreiddu korti. 

8.3. Ef korthafi fyrirframgreidds korts útgefnu af útgefanda er í vanskilum vegna úttekta með öðru kreditkorti eða veltukorti útgefnu af útgefanda áskilur útgefandi sér rétt til að ráðstafa innstæðu korthafans á reikningi fyrirframgreidda kortsins til greiðslu á skuldinni þegar 3 dagar eru liðnir frá eindaga.

8.4. Þegar fyrirframgreiddu korti er lokað fær korthafi ónýtta inneign greidda næsta virka dag eftir að kort hefur verið afhent útgefanda. Í þeim tilvikum að korthafi hefur gert úttektarfærslur erlendis á undangengnu 30 daga tímabili, eða reynt úttektir umfram innborganir sínar, áskilur útgefandi sér rétt til að halda inneign sem tryggingu í 30 daga fyrir greiðslu færslna sem mögulega hafa verið gerðar með kortinu, en seljendur hafa ekki enn sent inn úr afgreiðslutækjum sínum. Í þeim tilvikum skal útgefandi greiða korthafa vexti frá lokunardegi korts til greiðsludags sem jafnir eru hæstu innlánsvöxtum auglýstum af Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.

9. VELTUKORT

9.1 Korthafi veltukorts skal ávallt greiða umsaminn hluta heildarskuldar sinnar á eindaga ásamt vöxtum og þjónustugjöldum. Við greiðslu umsaminnar skuldar/lágmarksfjárhæðar á eindaga færast ógreiddar eftirstöðvar korthafa yfir á næsta eindaga þar á eftir. Upplýsingar um lágmark mánaðarlegrar greiðslu ásamt vöxtum og þjónustugjöldum er auglýst á vefsíðu útgefanda, www.islandsbanki.is. Ef skuld á kortareikningi er lægri en auglýst lágmark mánaðarlegrar greiðslu skal greiða hana að fullu. Ennfremur er það skilyrði að staða kortareiknings sé undir heimildarmörkum eftir greiðslu á eindaga. Kjósi korthafi að greiða umsaminn hluta heildarskuldar/ lágmarksfjárhæð reiknast vextir á ógreiddar eftirstöðvar frá eindaga og koma til greiðslu á næsta eindaga og reiknast síðan áfram milli næstu eindaga svo lengi sem korthafi nýtir sér heimild sína til að greiða einungis hluta skuldar. Skuldin telst öll vera í vanskilum ef lágmarksgreiðsla fer ekki fram á eindaga og einnig ef korthafi greiðir ekki fjárhæð sem er umfram heimildarmörk ásamt lágmarksfjárhæð á eindaga og ber hún þá dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Vextir af skuld á kortareikningi eru breytilegir og háðir ákvörðun útgefanda. Vextir reiknast ekki af úttektum sem greiddar eru að fullu á næsta eindaga eftir að þær áttu sér stað. Veltukort telst opinn lánssamningur og fellur undir lög nr. 33/2013 um neytendalán þegar korthafi er neytandi. Ákvæði lánssamninga sem gerðir eru um veltukort ganga framar skilmálum þessum, s.s. varðandi greiðsluskil og vaxtabreytingar.

10. GREIÐSLUR

10.1. Korthafa ber að greiða útgefanda úttektir tímabils samkvæmt mánaðarlegu yfirliti. Eindagi úttekta á kortareikningi sem eiga sér stað á úttektartímabili er auglýstur á vefsíðu útgefanda, www.islandsbanki.is. Lendi eindagi á almennum lokunardegi banka og sparisjóða færist hann til næsta opnunardags útgefanda. 

10.2.
 Útgefandi sendir reikningshafa mánaðarlega eða birtir rafrænt í netbanka hans, á Mínum síðum eða í kortaappi yfirlit um færslur á kortareikninginn á næstliðnu tímabili og upplýsingar um stöðu reikningsins við lok úttektartímabilsins auk áfallins kostnaðar og áfallinna vaxta á eindaga, auk greiðslutilmæla með greiðsluseðli eða rafrænum hætti.

Í greiðslutilmælunum sem handhöfum veltukorta eru send kemur fram hver sé sú lágmarksfjárhæð sem skylt er að inna af hendi á eindaga. Nýti handhafi veltukorts heimild sína til að greiða aðeins hluta útistandandi skuldar, eða lágmarksfjárhæðina, reiknast vextir á ógreiddar eftirstöðvar frá eindaga og koma til greiðslu á næsta eindaga og síðan áfram milli næstu gjalddaga, svo lengi sem reikningshafi nýtir heimild sína til að greiða aðeins hluta skuldar sinnar. Skuldavextir, sem birtir eru í verðskrá á heimasíðu útgefanda www.islandsbanki.is eru breytilegir og háðir ákvörðun hans.

10.3. Innborganir á kortareikninginn ráðstafast þannig að fyrst greiðist áfallinn kostnaður, þá áfallnir vextir og síðan skuld vegna úttekta. 

10.4. Hafi korthafi veitt útgefanda heimild til skuldfærslu á tiltekinn bankareikning, ábyrgist korthafi að næg innistæða verði á þeim reikningi á hverjum tíma til skuldfærslu á gjaldföllnum úttektum. Skuldfærslan verður gerð á gjalddaga. Ef ekki er næg innistæða áskilur útgefandi sér rétt til að skuldfæra að því marki sem innistæða er fyrir á viðkomandi reikningi. Sé eigandi reikningsins annar en korthafi þarf skriflegt samþykki reikningseiganda að liggja fyrir til að skuldfærsla sé heimil. Þegar korthafi sem veitt hefur heimild til skuldfærslu fær nýtt kort gefið út í stað eldra korts gilda heimildir til skuldfærslu og boðgreiðslur ásamt viðeigandi kostnaði samkvæmt verðskrá um hið nýja kort nema að korthafi fari þess sérstaklega á leit við útgefanda að svo verði ekki. 

10.5. Hafi greiðsla ekki borist á réttum eindaga, leggst vanskilagjald skv. verðskrá útgefanda á skuldina og vanskilavextir, eins og þeir eru auglýstir af Seðlabanka Íslands hverju sinni, frá eindaga til greiðsludags. Áskilinn er réttur til að stöðva allar greiðslur af kortareikningi, hvort heldur sem er vegna nýrra úttekta eða umsaminna greiðslna, verði greiðslufall á einhverjum hluta gjaldkræfrar skuldar á kortareikningi reikningshafa samkvæmt bókum útgefanda. 

10.6. Útgefandi áskilur sér rétt til að fela innheimtufyrirtæki eða lögmanni innheimtu á vanskilum ásamt öllum áföllnum og áfallandi kostnaði, komi til vanskila á kortareikningi reikningshafa. 

10.7. Hafi vanskil korthafa varað í a.m.k. 40 daga frá eindaga og vanskilin eru vegna skuldar sem er a.m.k. sú fjárhæð sem tilgreind er á heimasíðu útgefanda: www.islandsbanki.is að frátöldum áföllnum vöxtum og kostnaði, áskilur útgefandi sér rétt til að tilkynna nafn og kennitölu reikningshafa á vanskilaskrá Creditinfo Ísland (Lánstrausts).

11. ÁBYRGÐ Á FÆRSLUM

11.1. Ef korthafi eða reikningshafi hefur athugasemdir við færslu á kortareikning, skal hann gera skriflega og undirritaða athugasemd hjá útgefanda innan 10 daga frá eindaga greiðslu. Eftir 30 daga frá skiladegi færslu samkvæmt yfirliti er útgefanda ekki skylt að taka athugasemd til meðferðar. 

11.2. Telji korthafi að kort hans hafi verið notað með sviksamlegum hætti ber honum að tilkynna það án tafar til útgefanda. Í öllum tilvikum þegar grunur um sviksamlega kortanotkun er að ræða ber útgefanda að loka korti og korthafa að afhenda kortið til útgefanda. Korthafi ber ekki tjón vegna úttekta sem hann á ekki sannarlega aðild að, nema korthafi hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi eða látið hjá líða að varðveita PIN-númer til samræmis við fyrirmæli í grein 6.9. Korthafa ber skylda til að aðstoða útgefanda við vinnslu málsins og lágmarka tjónið eins og kostur er.

11.3 Í þeim tilvikum er seljandi hefur ekki innt af hendi eða vill ekki inna af hendi þá vöru eða þjónustu er korthafi greiddi fyrir með kortinu, atburði hefur verið aflýst eða söluaðili hefur hætt rekstri, getur korthafi skilað skriflegri kvörtun til útgefanda allt að 30 dögum eftir að afhending átti sannanlega að eiga sér stað. Telji útgefandi að afhending hafi sannanlega ekki átt sér stað vegna ofangreindra ástæðna, endurgreiðir útgefandi korthafa andvirði hins selda. Útgefandi endurgreiðir þó aldrei úttektir hafi ytri aðstæður, sem falla undir venjulegar reglur kauparéttar um óviðráðanleg atvik (force major) og eru seljanda óviðkomandi, hamlað afhendingu. 

11.4. Þrátt fyrir ákvæði liðar 11.1 og 11.2 hefur korthafi lengst 13 mánuði til að gera athugasemdir við færslur á kortareikning, enda geti korthafi sýnt fram á að útgefandi hafi ekki uppfyllt ákvæði skilmála þessara um birtingu reikningsyfirlits eða að ómögulegt hafi verið að hafa uppi athugasemdir innan áðurnefndra tímamarka.

11.5. Útgefandi tekur ekki ábyrgð á gallaðri vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með korti, né heldur á nokkrum öðrum vanefndum seljanda vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með korti. Kvörtunum út af slíku skal korthafi beina til viðkomandi seljanda. 

11.6. Útgefandi ber ekki ábyrgð á tjóni korthafa vegna tæknilegrar bilunar í hraðbanka eða öðru sjálfsafgreiðslutæki, né heldur á tjóni korthafa sem hlýst af því að sjálfsafgreiðslutæki hefur ekki samband við heimildarkerfi útgefanda. Telji korthafi og/eða reikningshafi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þessa, hvílir sönnunarbyrðin á færsluhirði sem ber, fyrir hönd viðkomandi sölu- eða þjónustuaðila, að sýna fram á að viðskiptin hafi verið rétt skráð og réttilega færð inn á reikninga og að tæknibilun eða aðrir hnökrar hafi ekki valdið rangri skráningu sem leitt hafi til tjóns.Telji korthafi að hann hafi orðið fyrir slíku tjóni skal hann senda útgefanda skriflega kvörtun. Útgefandi framsendir kvörtun korthafa til færsluhirðis. Ábyrgð færsluhirðis tekur ekki til tjóns sem kann að leiða af því að umbeðin fjárhæð, vara eða þjónusta, fæst ekki afhent, heldur takmarkast hún við beint fjárhagslegt tjón korthafa. Færsluhirðir ábyrgist ekki tjón þegar tæknibilun á að vera korthafa ljós, svo sem þegar skilaboð þess efnis koma fram á tölvuskjá.

11.7. Útgefandi ber ekki ábyrgð á því ef móttöku korts er synjað sem greiðslu hjá seljanda, né því tjóni sem leitt getur af því. Með sama hætti ber útgefandi ekki ábyrgð á því ef reiðufé fæst ekki tekið út á kortið hvort sem er í hraðbönkum eða annars staðar. 

11.8. Útgefandi ábyrgist ekki skaðleysi korthafa af bilun á kortinu, þ.m.t. örgjörva sem veldur því að viðskipti geta ekki átt sér stað. Ef korthafi telur kort gallað skal því skilað til útgefanda. Reynist kortið gallað á korthafi rétt á nýju korti sér að kostnaðarlausu.

11.9. Útgefandi ákveður hvaða öryggisþættir eru notaðir við framkvæmd færslna eða annarra viðskipa við útgefanda. Útgefanda er heimilt að innkalla kreditkort til uppfærslu á öryggisþáttum. Útgefandi getur gert viðskiptavini að skipta út öryggisþáttum ef grunur leikur á misnotkun eða villuhættu.

11.10. Hafi verið í gildi greiðsluþjónustusamningur milli korthafa og söluaðila um sjálfvirkar greiðslur, eða greiðsla fyrir þjónustu eða vöru frá bílaleigu, hóteli eða skemmtiferðaskipi hefur verið færð á kort eftir að þjónusta var afhent, hefur korthafi 8 vikur frá færsludegi til að gera skriflega og undirritaða athugasemd með ósk um endurgreiðslu. Hafi athugasemd verið gerð innan tímamarka og viðhlítandi gögn lögð fram af hálfu korthafa henni til stuðnings, skal hann innan 10 daga fá rökstudda synjun eða endurgreiðslu. Réttur til endurgreiðslu getur verið háður skilmálum þess alþjóðalega kortafyrirtækis sem útgefandi á í samstarfi við. Leiði reglur hins alþjóðlega kortafyrirtækis til þess að korthafi á ekki réttmætt tilkall til endurgreiðslu verður fjárhæðin innheimt af kortareikningi korthafa. Vilji korthafi ekki una niðurstöðunni getur hann kært hana til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

11.11. Endurgreiðsla skal framkvæmd eins fljótt og við verður komið eftir að ljóst er að korthafi á rétt á endurgreiðslu og færð inn á þann kortareikning sem út af var tekið.

12. TRYGGINGAR


12.1. Útgefandi getur á hverjum tíma óskað eftir að reikningshafi og/eða korthafi leggi fram þær tryggingar fyrir úttektum sem útgefandi metur fullnægjandi. Ef ekki er orðið við beiðninni getur útgefandi lækkað úttektarheimild eða sagt upp viðskiptum.

13. UPPSÖGN / INNKÖLLUN

13.1. Kortið er eign útgefanda og honum er heimilt að loka og innkalla öll kort korthafa án þess að tilgreina ástæðu.

13.2. Útgefanda er heimilt að loka fyrirvaralaust öllum kortum korthafa í eftirfarandi tilvikum:

    a) Ef korthafi eða handhafi korts vanefnir skyldur sínar samkvæmt skilmálum þessum.
    b) Ef fjárnám er gert hjá korthafa eða ábyrgðarmanni, fram komi ósk um gjaldþrotaskipti á búi þeirra eða leiti þeir nauðasamninga.
    c) Ef vanskil verða af hálfu korthafa á greiðslum gjaldfallinna krafna vegna notkunar korts eða útgefandi þarf að afskrifa ógreiddar kröfur á         korthafa vegna kortanotkunar.

13.3. Vegna áhættustýringar í kortaviðskiptum er heimilt að dreifa skrá um afturkölluð kortanúmer til sölu- og þjónustuaðila.

13.4. Innkalli útgefandi kortið, skal korthafi tafarlaust klippa kortið og senda til útgefanda. Afhendi korthafi ekki innkallað kort með áðurgreindum hætti getur útgefandi falið starfsmanni sínum eða umboðsmanni að sækja kortið. Seljandi hefur einnig fulla heimild til að klippa og/ eða taka í sína vörslu innkallað kort. 

13.5. Aldrei má greiða með korti sem innkallað hefur verið af útgefanda. Misnotkun korts getur varðað við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

13.6. Vilji reikningshafi og/eða korthafi að segja upp viðskiptum sínum skal það gert skriflega með 30 daga fyrirvara og skal hann skila kortinu sundurklipptu ásamt fylgikortum. Reikningshafi getur hvenær sem er óskað eftir lokun útgefinna korta og ber ekki ábyrgð á úttektum á lokuð kort frá því að tilkynning þar að lútandi er komin til útgefanda og korti hefur verið skilað og staðfesting á lokun kortsins hefur borist frá útgefanda til reikningshafa. Korthafi ber ábyrgð á úttektum, noti hann kort sjálfur eftir að óskað var eftir lokun.

14. GLATAÐ KORT

14.1. Ef kort glatast eða korthafi verður var við óheimilaðar úttektir skal hann tafarlaust tilkynna það útgefanda, eða næsta umboðsaðila korta útgefanda hvar sem er í heiminum. Strax eftir að tilkynning hefur verið móttekin ber þeim sem móttók tilkynninguna að loka kortinu og koma í veg fyrir frekari notkun þess eða misnotkun. Sá sem móttekur tilkynningu korthafa, hvort heldur er útgefandi eða umboðsaðili korta útgefanda, ber að geyma slíka tilkynningu í 18 mánuði.

14.2. Óski korthafi eftir nýju korti í stað glataðs ber honum að skila til útgefanda yfirlýsingu um glatað kort og undirrita umsókn um nýtt.

14.3. Hafi glatað kort verið notað af óviðkomandi aðila áður en hvarf þess er tilkynnt ber korthafi sjálfsábyrgð. Fjárhæð sjálfsábyrgðarinnar er að jafnvirði 150 evra í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni. Við ákvörðun fjárhæðar sjálfsábyrgðar er horft til þess hvernig korthafi varðveitti kortið og PIN-númer og málsatvik þegar kortið týndist, glataðist eða var nýtt með óréttmætum hætti. Korthafi er ábyrgur fyrir öllum úttektum sem staðfestar eru með PIN-númeri, hafi hann ekki varðveitt PIN-númer í samræmi við grein 6.9. enda telst varðveisla með öðrum hætti stórfellt gáleysi. Korthafi er einnig ábyrgur fyrir öllum snertilausum úttektum, hafi hann ekki áður tilkynnt útgefanda með sannanlegum hætti að kortið hafi glatast. Korthafi er ábyrgur fyrir allri notkun korts og greiðslu úttekta sé um að ræða stórfellt gáleysi eða svik af hans hálfu í sambandi við kort sem tilkynnt eru glötuð.

14.4. Korthafi ber ekki ábyrgð á notkun korts eftir að hann hefur tilkynnt það glatað, nema hann hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi. Auk þess ber korthafi ekki ábyrgð á notkun korts eftir að hann hefur tilkynnt það glatað ef móttakandi tilkynningar hefur ekki lokað kortinu strax í kjölfar tilkynningar, sbr. grein 14.1., nema korthafi hafi sýnt af sér sviksamlega háttsemi.

14.5. Óheimilt er að nota kort eftir að það hefur verið tilkynnt glatað. Finnist kort, sem tilkynnt hefur verið glatað, skal senda það sundurklippt til útgefanda. 

14.6. Óski korthafi eftir enduropnun korts, sem tilkynnt hefur verið glatað en korthafi hefur fundið aftur, hefur hann möguleika á að opna kortið aftur og þarf beiðni að berast fyrir næsta bankadag eftir að hann tilkynnti kortið glatað. Bankadagur er virkur dagur þegar bankar eru opnir á Íslandi. Korthafi ber ábyrgð á allri notkun kortsins meðan það var glatað. Beiðni um enduropnun korts skal berast útgefanda skriflega eða með tölvupósti.

15. ÁREIÐANLEIKAKÖNNUN


Viðskiptavinur staðfestir lögmæti þeirra fjármuna sem notaðir verða við greiðslu kortareiknings hans. Hann staðfestir einnig að fjármunirnir tilheyri honum persónulega og að hann teljist raunverulegur eigandi þeirra. Viðskiptavinur skuldbindur sig til að upplýsa útgefanda um allar breytingar þar á. Sama á við ef viðskipti fara fram í þágu þriðja aðila. 

16. PERSÓNUVERND

16.1.Persónuupplýsingar þær sem safnast í tengslum við umsókn um debetkort verða skráðar í tölvukerfi Íslandsbanka þ.á m. upplýsingar um korthafa, aukakorthafa og ábyrgðarmenn. Upplýsingar sem hér um ræðir eru m.a. kennitala, heimilisfang og aðrar þær upplýsingar sem aðilar hafa veitt útgefanda með útfyllingu eyðublaða og forma útgefanda. Upplýsingarnar eru aðgengilegar afkomusviðum útgefanda sem kunna að vera rekin undir öðrum auðkennum, nema reglur um aðskilnað viðkomandi sviðs frá meginstarfsemi (Kínaveggir) eigi við. Útgefanda er einnig heimilt að afhenda öðrum félögum innan samstæðunnar persónuupplýsingar um viðskiptavini sína án samþykkis hafi viðskiptavinur leitað eftir þjónustu frá viðkomandi félögum. 

16.2. Allar upplýsingar um kortareikninga og notkun korta eru vistaðar í tölvukerfi útgefanda. Ópersónugreindar upplýsingar um færslur á korti korthafa eru sendar alþjóðlegum kortasamsteypum, sbr. grein 1.1., þ.e. upplýsingar um kortnúmer, hvenær færsla er gerð, fjárhæð færslu og hver er starfsemi seljanda.

16.3. Útgefanda er heimilt lögum samkvæmt að halda utan um og vinna með upplýsingarnar með rafrænum hætti. Vinnsla getur t.d. verið nauðsynleg við gerð viðskiptasamninga, til að þjóna þeim á gildistíma þeirra og í því skyni að setja fram og birta upplýsingar á Mínum síðum og snjallsímalausnum útgefanda. Vinnsla persónuupplýsinga getur einnig verið notuð sem grundvöllur fjármálaráðgjafar og greiningar korthafa.

16.4. 
Útgefandi kann að nota persónuupplýsingar í markaðslegum tilgangi, þ.m.t. til að þróa nýjar þjónustuleiðir og viðskiptalausnir sem beint er til ákveðins hóps viðtakenda á grunni persónuupplýsinga. Útgefandi getur haft samskipti í þessu skyni við korthafa í gegnum SMS, tölvupóst, Mínar síður eða önnur rafræn skilaboð. Útgefandi notar sams konar samskiptaleiðir til að senda korthafa skilaboð er varða notkun kortsins eða tilkynningar um breytingar á skilmálum þess og meta gæði þjónustu sem útgefandi veitir. Korthafar geta óskað eftir því við útgefanda að notkun persónugreinanlegra upplýsinga eða sending tölvupósts í markaðslegum tilgangi fari ekki fram. 

16.5. Flokkun persónuupplýsinga, svo sem vegna fjármálalegra færslna sem korthafi hefur aðgang að í gegnum Mínar síður eða snjallsímalausnir, má setja fram gagnvart korthafa með hverjum þeim hætti sem eykur notkunargildi þeirra og gegnsæi eða til að uppfylla þá þjónustuþætti sem í boði eru á hverjum tíma, enda sé öryggi upplýsinganna tryggt með fullnægjandi hætti eftir sem áður.

16.6. Vinnsla og geymsla persónuupplýsinga skal vera í samræmi við það sem nauðsynlegt er til starfrækslu greiðslumiðlunar. Þá getur vinnsla persónuupplýsinga verið nauðsynleg við rannsóknir ef grunsemdir vakna um peningaþvætti eða aðra sviksemi og byggir slík vinnsla á viðeigandi löggjöf. Útgefandi skal gæta þess að vinnsla og vistun persónuupplýsinga sé ætíð í samræmi við gildandi lög og reglur.

16.7. Það kann að vera að upplýsingunum sé deilt með þriðja aðila t.d. til eftirlits- eða til þjónustuaðila en fyllsta öryggis og trúnaðar er gætt við slíka miðlun.

16.8. Korthafar eiga rétt á að fá upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar útgefandi hefur skráð um þá samkvæmt ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og í samræmi við reglur útgefanda um meðferð viðskiptamannaupplýsinga. Nánari upplýsingar um meðferð og vinnslu persónuupplýsinga hjá Íslandsbanka má finna hér: www.islandsbanki.is/personuvernd

17. HLUNNINDI OG ÞJÓNUSTA

17.1. Korthafi getur óskað eftir neyðarkorti og neyðarfé og skal hafa samband við þjónustuver útgefanda sem afgreiðir slíkar beiðnir. Þjónustusími útgefanda er opinn allan sólarhringinn og eru neyðarkort og neyðarfé veitt samkvæmt verðskrá sem birt er á heimasíðu útgefanda, www.islandsbanki.is. 

17.2. Korti geta fylgt ýmis hlunnindi, svo sem almenn ferða-, slysa- og sjúkratrygging samkvæmt tryggingaskilmálum hverrar tegundar korts, viðlagaþjónusta, heimild til afborgunarlána auk margvíslegra sértengdra fríðinda samkvæmt auglýstum skilmálum þar um á hverjum tíma.

17.3. Útgefandi hefur heimild til að breyta, auka eða fella niður hlunnindi og/eða fríðindi sem ekki eru tilgreind sérstaklega í skilmálum þessum án sérstakra tilkynninga. 

17.4. Upplýsingar um þau hlunnindi er tengjast mismunandi tegundum korta má finna á heimasíðu útgefanda, www.islandsbanki.is.

Icelandair Saga Club

Með notkun á völdum kortum frá útgefanda er hægt að safna Vildarpunktum Icelandair. Korthafi slíks korts getur áunnið sér Vildarpunkta Icelandair vegna veltu á korti hjá söluaðilum korta útgefanda, hafi kort hans tengingu við Icelandair Saga Club. Mismunandi er eftir kortategundum hvort ávinnist Vildarpunktar af innlendri og/eða erlendri veltu, sjá nánar á heimasíðu útgefenda. Korthafi getur áunnið sér aukinn fjölda Vildarpunkta í viðskiptum við þá sölu- og þjónustuaðila, sem Icelandair Saga Club hefur gert sérstaka samninga við. Icelandair Saga Club heldur skrá um áunna punkta og veitir Vildarkorthöfum rétt til að nýta punktana sem greiðslumiðil við kaup á flugfarseðlum og annarri þjónustu, sem Icelandair býður þeim með sérstöku viðskiptakerfi. Saga Club gefur út nánari reglur þar um. Verði breytingar á þessum reglum upplýsir Saga Club um þær samkvæmt skilmálum Icelandair Saga Club. Útgefandi ber enga ábyrgð á því gagnvart korthafa að skrá um áunna punkta og staða þeirra í Vildarkerfinu sé rétt. Vegna aðildar að vildarkerfi Icelandair greiðir handhafi Vildarkorts árlega sérstakt tengigjald til Icelandair Saga Club samkvæmt verðskrá útgefanda, sem heimilt er að skuldfæra korthafa fyrir á 12 mánaða fresti. Korthafi samþykkir að útgefanda og Icelandair Saga Club sé heimilt að miðla upplýsingum um notkun vildarkorts í viðskiptum við þá aðila, þar sem viðskiptin veita handhafa Vildarpunkta, þannig að unnt sé að uppfæra skrár þar um. Komi til þess að Icelandair Saga Club hætti starfsemi ber útgefandi enga ábyrgð gagnvart korthafa.

Fríðindakerfi útgefanda

Útgefandi gefur út kreditkort tengt fríðindakerfi útgefanda.

Fríðindakerfi útgefanda býður korthöfum af og til upp á tilboð þar sem tiltekin fyrirtæki og söluaðilar bjóða korthöfum afslátt ef verslað er á tilteknu tímabili, að því gefnu að korthafi greiði með greiðslukorti sem tengt er við fríðindakerfið. Tilboðin og þar með afslátturinn virkjast ekki ef korthafi greiðir með öðrum hætti, t.d. í reiðufé. Tilboðin munu birtast í smáforriti sem útgefandi lætur korthafa í té (Íslandsbanka appinu/kortaappi Íslandsbanka). Korthafi greiðir fullt verð fyrir vöru og/eða þjónustu til viðkomandi fyrirtækis samkvæmt hverju tilboði. Sá afsláttur sem fyrirtækið veitir verður greiddur til útgefanda sem tekur við greiðslunni fyrir hönd korthafa og greiðir svo til korthafa í samræmi við skilmála fríðindakerfisins.

Tilboðum fríðindakerfisins kann að vera eingöngu beint til tiltekinna hópa af korthöfum. Mismunandi tilboð eru í boði fyrir ólíka hópa viðskiptavina hverju sinni sem valdir eru eftir lýðfræðilegum breytum og neysluhegðun. Slík tilboð taka þá eingöngu til viðkomandi hópa en ekki annarra. Korthafi þarf að veita sitt samþykki til að fá send slík sérsniðin tilboð en slíkt samþykki er ávallt hægt að veita gegnum smáforrit Íslandsbanka (Íslandsbanka appinu/kortaappi Íslandsbanka).

Korthafar geta hvenær sem er óskað eftir að skrá sig úr sérsniðnum tilboðum og munu þá í kjölfarið ekki verða send slík tilboð. Viðeigandi korthöfum mun eftir sem áður berast almenn tilboð sem send eru á alla viðeigandi korthafa.
Fríðindakerfið er í eigu útgefanda og áskilur hann sér rétt til að hætta rekstri kerfisins hvenær sem er. Útgefandi mun tilkynna korthöfum um slíka ákvörðun með a.m.k. 2 mánaða fyrirvara. Ef rekstri kerfisins er hætt falla allar skuldbindingar útgefandavegna fríðindakerfisins niður að þeim ávinningi frátöldum sem korthafi hefur aflað sér fyrir lokunina.

18. ÝMSIR SKILMÁLAR

18.1. Reikningshafi og/eða korthafi skulu tafarlaust tilkynna útgefanda verði breyting á heimilisfangi og netfangi hans/þeirra til að tryggja að yfirlit og aðrar upplýsingar geti borist honum með eðlilegum hætti. 

18.2. Sé reikningshafi lögaðili eða sjálfstætt starfandi rekstraraðili áskilur útgefandi sér rétt til að kalla eftir ársreikningum hvenær sem er á samningstímanum, sem og þegar mat er lagt á umsókn um kort eða hækkun á heimild. 

18.3.Útgefandi hefur heimild til að breyta ákvæðum skilmála þessara einhliða. Ef breytingarnar eru ekki til hagsbóta fyrir korthafa skal honum tilkynnt um þær á tryggan hátt, s.s. með skilaboðum í netbanka eða á Mínum síðum, tilkynningu á vefsíðu útgefanda, póstsendingu á tilkynnt aðsetur eða lögheimili korthafa eða með tölvupósti á tilkynnt netfang korthafa. Breytingar á skilmálunum skulu kynntar korthöfum eigi síðar en 2 mánuðum áður en breyttir skilmálar taka gildi. Korthafi skal hafa aðgang að gildandi skilmálum á pappír eða á rafrænu formi. Aðrar breytingar er útgefanda heimilt að birta með tilkynningu á heimasíðu sinni: www.islandsbanki.is. Korthafi telst hafa samþykkt breytinguna tilkynni hann ekki um annað fyrir fyrirhugaðan gildisdag, sem og ef hann notar kortið eftir að breyttir skilmálar hafa tekið gildi.

18.4. Ef korthafi sættir sig ekki við breytingu á skilmálum getur hann sagt upp samningi sínum við útgefanda í samræmi við ákvæði 13. gr. skilmála þessara.

19. LÖG OG ÁGREININGSMÁL


19.1. Um meðferð og túlkun skilmála þessara fer eftir íslenskum lögum. Sama gildir um öll mál er upp kunna að koma við notkun kortsins. 

19.2. Mál sem rísa út af broti á viðskiptaskilmálum þessum, svo og innheimtumál vegna úttekta með korti er heimilt að reka fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. 19. gr. a. í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eða Héraðsdómi Reykjavíkur. Upplýsingar um úrskurðarnefndina er að finna á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins, www.fme.is. Korthafi samþykkir auk þess að útgefandi megi, kjósi hann slíkt, reka innheimtumál í því landi, sem korthafi hefur búsetu hverju sinni.

20. GILDISTÍMI

20.1 Skilmálar þessir eru gefnir út á íslensku og gilda frá og með 21.10.2018. Þeir liðir sem teljast íþyngjandi fyrir neytendur taka gildi tveimur mánuðum frá birtingu, sbr. 18.3. gr. 

Kópavogi í október 2018. 

Íslandsbanki hf.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall