Skýrsla um íslenskan sjávarútveg

Ísland er nú í 20. sæti á lista yfir stærstu fiskveiðiþjóðir í heimi (FAO og OECD) og lendir mitt á milli Spánar og Taívan á listanum. Íslenskur sjávarútvegur stendur afar vel í samanburði við sjávarútveg stærstu fiskveiðiþjóða heims þrátt fyrir að þjóðin sé á meðal þeirra fámennustu á listanum.      

Ísland hefur fest sig í sessi á meðal fremstu fiskveiðiþjóða heims. Greinin skilar miklum verðmæti inn í íslenska þjóðarbúið og er rótgróinn þáttur í menningu landsins og atvinnulífi. Út frá þessum mælikvörðum og fleiri er staða íslensks sjávarútvegs gagnvart erlendum sjávarútvegi sterk. Við getum því verið stolt af því að vera ein farsælasta sjávarútvegsþjóð heims. 

Sjávarútvegsskýrsla Íslandsbanka hefur verið gefin út reglulega frá árinu 2003. Ávallt er leitast við að gera betur ár frá ári og að þessu sinni hefur tveimur nýjum þáttum verið bætt við skýrsluna. Fyrst ber að nefna umfjöllun um alþjóðlegan sjávarútveg þar sem borin er saman fiskveiði og fiskeldi eftir heimsálfum, innan Evrópu og á meðal Norðurlanda. Einnig hefur bæst við umfjöllun um fiskveiðar fyrstu níu mánuði þessa árs ásamt spá til næstu ára.

Viðtal

Viðtal við Runólf Geir Benediktsson forstöðumann sjávarútvegsteymis Íslandsbanka.

Runólfur fer yfir helstu niðurstöður nýrrar skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg.

Skemmtilegar staðreyndir úr skýrslunni

Helstu niðurstöður:

 • Ísland situr í 20. sæti á lista yfir stærstu fiskveiðiþjóðir heims m.v. árið 2014 með um 1,4% hlutdeild á heimsvísu. Ísland hefur færst neðar á þessum lista síðustu ár þar sem aðrar þjóðir hafa aukið veiðar sínar umfram Ísland.
 • Við teljum að útflutningur sjávarafurða muni taka við sér á seinni helmingi ársins, ekki síst vegna aukinna aflaheimilda í þorski. Teljum við að útflutningur muni dragast saman um 1% á árinu 2016 en við gerum ráð fyrir ríflega 4% aukningu í útflutningi sjávarafurða á árinu 2017 og rúmlega 3% aukningu árið 2018.
 • Heildarafli á árinu 2015 var 1.319 þús. tonn og jókst aflinn um 22,5% (243 þús. tonn) frá árinu 2014. Mest var veitt af loðnu á árinu eða um 337 þús. tonn og jókst loðnuaflinn um 218% (229 þús. tonn) frá árinu 2014. Aflaverðmæti ársins 2015 nam rúmlega 151 ma.kr. sem er 9,2% aukning frá árinu 2014 miðað við fast verðlag.
 • Þorskur er enn langstærstur þegar kemur að aflaverðmæti og nam aflaverðmæti hans tæpum 61 ma.kr. á árinu 2015 eða sem nemur 40,3% af heildarverðmæti aflans. Verðmætaaukning þorsks nam 13% sem er 10 prósentustigum umfram aukningu í magni og hefur því verðmæti á hvert tonn aukist milli ára.
 • Útflutt magn sjávarafurða á árinu 2015 nam tæpum 632 þús. tonna og er það um 3% lægra en árið 2014 og 83 þús. tonnum undir langtíma meðaltali. Þessi samdráttur í útflutningi sjávarafurða milli ára skýrist einna helst af viðskiptabanni Rússlands. Þrátt fyrir þetta námu verðmæti útflutnings á árinu 2015 um 265 mö.kr. sem er tæpum 17 mö.kr. meira (7%) en á árinu 2014 miðað við verðlag ársins 2015.
 • Þorskur var verðmætasta útflutningstegundin á árinu 2015 en þá námu útflutningsverðmæti hans 105 mö.kr. Er það um 38% af útflutningsverðmæti sjávarafurða.
 • Tekjur sjávarútvegsfélaga á árinu 2015 námu 275 mö.kr. og jukust um 9 ma.kr. á föstu verðlagi eða um 3,3%. Skýrist þessi vöxtur í tekjum af auknum loðnuveiðum og auknu verðmæti þorskaflans vegna verðhækkunar á erlendum mörkuðum.
 • Gengi krónunnar hefur styrkst um 17% frá upphafi árs og 26% frá upphafi síðastliðins árs gagnvart viðskiptaveginni gengisvísitölu. Hefur gengi krónunnar styrkst mest gagnvart bresku pundi eða um 41% frá upphafi árs. Bretland er eitt af stærstu viðskiptalöndum Íslands og fara um 18% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða til Breta. Hefur því gengislækkun pundsins gagnvart krónunni talsverð áhrif á utanríkisviðskipti okkar.
 • Norðmenn eru stærstir í fiskeldi í Evrópu með um 45% hlutdeild. Ísland situr í 25. sæti á meðal fiskeldisþjóða í Evrópu með 8 þús. tonn eða um 0,3% af heildarfiskeldi álfunnar.
 • Útflutningsverðmæti eldisfisks árið 2015 var um 7.024 m.kr. samanborið við 5.530 m.kr. árið 2014 á föstu verðlagi. Bandaríkin eru sem fyrr stærsti markaðurinn fyrir íslenskar eldisafurðir með um 35% af heildarverðmæti ársins 2015. Bretland kemur þar á eftir með um 9,3% og Þýskaland með um 7,5%.
 • Útgefin leyfi til framleiðslu fiskeldis eru mest á Vestfjörðum og Vesturlandi en þar eru leyfi fyrir 21.698 tonna ársframleiðslu. Hafa rekstrarleyfi til framleiðslu fiskeldis stækkað um 2.320 tonn frá árinu 2014.

Langar þig að vita meira? Náðu þér í eintak af skýrslunni hér neðar eða fáðu hana senda í pósti með því að smella á „Panta skýrslu.

Skýrsla um íslenskan sjávarútveg

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall