Skýrsla um íslensk sveitarfélög

Út er komin ný skýrsla Íslandsbanka um íslensk sveitarfélög, sem bankinn gefur árlega út. Skýrslunni er ætlað að gefa gott yfirlit yfir stöðu sveitarfélaga á Íslandi og þróun síðustu ára.

Skýrslan er unnin af Greiningu og sveitarfélagateymi Íslandsbanka og er stuðst við ársreikninga sveitarfélaga 2016 og horft á fjárhagslega stöðu sveitarfélaga út frá þeim viðmiðum sem Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) hefur horft til.

Íslandsbanki vonast til að skýrslan nýtist vel sem upplýsingarit um íslensk sveitarfélög, bæði fyrir þá sem starfa innan sveitarstjórnarstigsins og þá sem vilja fræðast um íslensk sveitarfélög.

Sveitarfélagateymi Íslandsbanka

Helstu niðurstöður skýrslunnar

Elvar Orri Hreinsson sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka fer í stuttu máli yfir það sem fréttnæmast er í skýrslunni þetta árið.

Rekstrarniðurstaða og skuldir sveitarfélaga

Helstu niðurstöður:

 • Tekjur vegna A-hluta jukust um 10%, úr 259 mö.kr. í 285 ma.kr. á milli áranna 2015 og 2016.
 • Tekjur vegna B-hluta námu rúmum 86 mö.kr. á árinu 2016 og jukust um 3% frá árinu 2015.
 • Tekjur A- og B-hluta starfsemi sveitarfélaga jukust því úr 343 mö.kr. í 371 ma.kr., eða um 8% á milli áranna 2015 og 2016. Hefur tekjuvöxtur samstæðu sveitarfélaganna ekki verið eins hraður frá árinu 2007 þegar hann var 11%.
 • Gjöld A- og B-hluta námu 326 mö.kr. og jukust um 0,2% á árinu 2016. Launakostnaður er stærsti kostnaðarliður sveitarfélaganna, en sá liður jókst um rúma 5 ma.kr. eða 4% frá árinu 2015. Gjöld vegna breytinga á lífeyrisskuldbindingum námu um 13 mö.kr. og lækkuðu um 36% frá árinu 2015, á meðan annar rekstrarkostnaður jókst um 1%.
 • Þar sem að tekjur jukust hlutfallslega meira (8%) en gjöld (0,2%) batnaði rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagns- og óreglulega liði og hækkaði úr tæpum 18 mö.kr. í rúma 45 ma.kr., eða um 152%. Skýringin felst að mestu leyti í viðsnúningi á rekstri A-hlutans, sem var neikvæður um 8,6 ma.kr. árið 2015 en jákvæður um 18,2 ma.kr. árið 2016. Vegur hagstæð þróun lífeyrisskuldbindinga þyngst í þessari þróun.
 • Rekstrarreikningur sveitarfélaganna litaðist talsvert af hækkandi launakostnaði og lífeyrisskuldbindingum á árunum 2014 og 2015 vegna kjarasamninga og breyttra forsenda varðandi dánar- og lífslíkur. Á árinu 2016 hækkuðu laun og launatengd gjöld ásamt lífeyrisskuldbindingum minna en á árunum tveimur þar á undan og hafa tekjuliðir sveitarfélaganna ekki vaxið meira á milli ára síðan 2007. Hefur rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna því batnað töluvert.
 • Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta að teknu tilliti til fjármagns- og óreglulegra liða nam 46,4 mö.kr. á árinu 2016 og batnaði um 48,6 ma.kr. frá árinu 2015 þegar hún var -2 ma.kr. Skýringin felst m.a. í lægri fjármagnsgjöldum á árinu 2016 sökum lægri skuldsetningar og hagstæðara lánaumhverfis. Einnig jukust tekjur vegna óreglulegra liða umtalsvert á milli áranna. Þar ber helst að nefna matsbreytingu fjárfestingareigna hjá Reykjavíkurborg sem nam tæpum 11 mö.kr. á árinu 2016.
 • Heildarskuldir sveitarfélaganna námu rúmum 569 mö.kr. á árinu 2016 og lækkuðu um 3,3% frá árinu 2015. Langtímaskuldir lækkuðu um 26 ma.kr., eða um 6,3%, en skuldbindingar hækkuðu um rúma 9 ma.kr., eða um 11%. Hafa sveitarfélögin lækkað langtímaskuldir sínar um rúma 174 ma.kr. frá því að þær stóðu hæst árið 2009.
 • Rúmlega 98% sveitarfélaga stóðu undir skuldsetningu ársins 2016 þegar horft er til A- og B-hluta, sem er betri niðurstaða en á árinu 2015 þegar hlutfallið nam 90%.
 • Jafnmörg sveitarfélög stóðu undir skuldsetningu ársins 2016 þegar A-hluti er skoðaður, eða rúmlega 98%. Er það talsvert betri niðurstaða en á árinu 2015 þegar hlutfallið nam 77%.
 • Framlag Jöfnunarsjóðs sem hlutfall af heildartekjum sveitarfélaganna hefur á rúmum áratug aukist úr 7% í 10%.

Langar þig að vita meira? Náðu þér í eintak af skýrslunni hér neðar eða fáðu hana senda í pósti með því að smella á "Panta skýrslu".

Skýrsla um íslensk sveitarfélög

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall