Nánar um úrræðin

Skilmálabreytingar

Skilmálabreytingar fela í sér breytingu á áður umsömdu endurgreiðsluferli og miða að því að gera lántaka kleift að aðlaga endurgreiðslu að breyttu fjárstreymi. Slíkt úrræði getur hentað vel, til dæmis þegar sýnt þykir að sjóðsstreymi fyrirtækis standi ekki undir greiðslubyrði lána vegna breyttrar eftirspurnar eða sölu. Mögulegt er að breytingar verði tímabundnar og eru skilmálabreytingar ávallt háðar mati bankans á aðstæðum lántaka hverju sinni.

Skilmálabreytingar geta t.d. falið í sér:

 • Breytingar á endurgreiðsluferli og endurgreiðslutíma.
 • Að vanskilum sé bætt við höfuðstól.
 • Óreglulegt endurgreiðsluferli.
 • Samninga um vaxtagreiðslur í tiltekinn tíma.
 • Samninga um fastar greiðslur í tiltekinn tíma (greiðslumark).
 • Breytingar á mynt (ef lántaki uppfyllir skilyrði um heimild til lántöku í erlendum myntum).
 • Breytingar á ýmsu er varðar upphaflega skilmála láns eða lánssamnings, svo sem endurskoðun fjármála- og formkvaða.
 • Breytingar á tryggingum.

Samningur um frjáls skuldaskil

Fyrirtæki geta leitað eftir samningi um frjáls skuldaskil vegna uppgjörs við kröfuhafa, oft nefnt óformlegur nauðasamningur. Slíkt getur átt við ef greining á fjárhagsstöðu félags leiðir í ljós að önnur úrræði henti ekki eða leysi ekki vanda fyrirtækis. Á það einnig við ef kröfuhafar eru margir eða bankinn ekki aðalkröfuhafi. Bankinn leitast við að styðja samninga um frjáls skuldaskil að því gefnu að eftirtöldum atriðum sé fullnægt:

 • Að sýnt þyki að með áframhaldandi rekstri lántaka muni bankinn endurheimta stærri hluta krafna sinna, ýmist sem hlutfall af heildarkröfum eða sem krónutölu, en með sölu veðsettra eigna.
 • Að tryggt verði að jafnræði ríki meðal kröfuhafa.
 • Að samstaða náist meðal allra lánardrottna um efni óformlegs nauðasamnings.
 • Að líklegt þyki að hægt verði að vernda betur verðmæti sem fólgin eru í fyrirtækinu, ýmist efnisleg eða óefnisleg, með frjálsum samningum en formlegum fullnustugerðum.

Samningur um frjáls skuldaskil getur falið í sér framsal eigna til bankans. Með beinu framsali er leitast við að hámarka verðmæti eigna fyrirtækis og ná fram hagræðingu.

Almennt leggst bankinn ekki gegn því að minni kröfuhafar fái fulla greiðslu minni háttar skulda, enda náist full samstaða í þeim efnum meðal kröfuhafa. Við sölu veðsettra eigna er verðmæti þeirra ráðstafað til kröfuhafa í samræmi við kröfuröð.

Breyting skulda í hlutafé eða ígildi eiginfjár

Í undantekningartilvikum getur bankinn fallist á að breyta skuldum í hlutafé, að hluta til eða í heild eða ígildi eiginfjár, svo sem í óformlegum nauðasamningum t.d. í þeim tilgangi að verja kröfu sem ella er talin töpuð. Ákvörðun um slíkt er háð samþykki stjórnar bankans. Bankanum er skylt að lögum að selja hluti í félögum í óskyldri starfsemi sem fyrst.

Nauðasamningar

Fyrirtæki getur óskað eftir greiðslustöðvun til 3 til 5 mánaða og/eða heimild til að leita nauðasamninga skv. lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig er unnt að óska eftir nauðasamningi eftir upphaf gjaldþrotaskipta. Héraðsdómari veitir heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamninga að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Nauðasamningar taka þó ekki til veðkrafna sem teljast innan matsverðs hinna veðsettu eigna. Þær kröfur sem ekki eru tryggðar með veði falla því undir nauðasamninginn, komist hann á.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall