Bankastjóri og framkvæmdastjórn

Bankastjóri er ábyrgur fyrir daglegum rekstri bankans í samræmi við stefnu og ákvarðanir stjórnar. Það er enn fremur í höndum bankastjóra að tryggja að starfsemi bankans sé ávallt í samræmi við samþykktir bankans og viðeigandi lagaramma.

Bankastjóri skipar regluvörð bankans, framkvæmdastjóra yfir starfsvið bankans sem og nefndarmenn í ráðgefandi nefndir bankastjóra.
Í framkvæmdastjórn sitja sjö aðilar, að bankastjóra meðtöldum, en framkvæmdastjórnin stýrir daglegum rekstri bankans í samræmi við stefnu stjórnar.

Myndir af framkvæmdastjórn Íslandsbanka í fullri upplausn má nálgast í myndabanka.

Birna Einarsdóttir

Bankastjóri Íslandsbanka frá október 2008

Birna tók við stöðu framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs árið 2007 en hafði áður gegnt stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðsmála, útibússtjóra og markaðsstjóra hjá Íslandsbanka.Á árunum 1998 til 2004 starfaði Birna sem vörustjóri hjá Royal Bank of Scotland. Hún hefur jafnframt starfað sem markaðsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins, Stöðvar 2 og Íslenskrar getspár.

Birna er með Cand.Oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Edinborg.

Birna hefur starfað í 23 ár hjá Íslandsbanka og forverum hans.

Jón Guðni Ómarsson

Framkvæmdastjóri fjármála frá október 2011

Jón Guðni var forstöðumaður fjárstýringar frá 2008 til 2011. Jón hefur sinnt ýmsum störfum hjá bankanum og forverum hans, til dæmis innan markaðsviðskipta, þar sem hann veitti ráðgjöf um áhættuvarnir og á fyrirtækjasviði, þar sem hann tók þátt í erlendum lánveitingum. Jón Guðni hefur einnig sinnt ráðgjöf við áhættustýringu banka hjá SunGard í Boston.

Jón Guðni er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði og M.Sc. gráðu í fjármálaverkfræði frá Georgia Institute of Technology. Jón Guðni er einnig Chartered Financial Analyst (CFA) og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Jón Guðni hefur starfað í 15 ár hjá Íslandsbanka og forverum hans.

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir

Framkvæmdastjóri einstaklinga frá maí 2017

Sigríður Hrefna starfaði áður sem framkvæmdastjóri smásölusviðs Olís frá árinu 2014. Hún hefur áður starfað hjá Arion banka, skilanefnd Sparisjóðsbanka Íslands, Atlas Ejendomme A/S og Lex lögmannsstofu. Hún hefur jafnframt setið í stjórnum ýmissa félaga.

Sigríður Hrefna er með embættispróf í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands, er héraðsdómslögmaður og með MBA gráðu frá Copenhagen Business School. Þá hefur Sigríður lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Sigríður Hrefna hóf störf hjá Íslandsbanka í maí 2017.

Sigríður Olgeirsdóttir

Framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatækni frá september 2010

Sigríður hefur starfað innan hugbúnaðar- og upplýsingatæknigeirans frá 1984 og var m.a. forstöðumaður hugbúnaðarsviðs Tæknivals hf., framkvæmdastjóri Ax Business Intelligence A/ S í Danmörku og framkvæmdastjóri Ax hugbúnaðarhúss á Íslandi.

Sigríður er menntuð sem kerfisfræðingur frá EDB-skolen í Óðinsvéum í Danmörku. Hún er með diplomu í rekstrarfræði frá Endurmenntun HÍ og MBA gráðu í alþjóðastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.Þá hefur hún lokið stjórnendanámi Advanced Management Program (AMP) frá Harvard Business School.

Sigríður hefur starfað í sjö ár hjá Íslandsbanka.

Guðmundur Kristinn Birgisson

Framkvæmdastjóri Áhættustýringar frá október 2018

Guðmundur gekk til liðs við Íslandsbanka árið 2011 og tók þá við starfi forstöðumanns áhættueftirlits. Þar annaðist hann meðal annars innleiðingu umgjarðar bankans um rekstraráhættustýringu og eftirlit með framkvæmd lánaferla í bankanum.
Frá 2017 gegndi Guðmundur starfi forstöðumanns útlána á Einstaklingssviði bankans.

Guðmundur hefur fjölbreytta starfsreynslu og starfaði meðal annars sem lektor á sviði stærðfræðimenntunar og deildarforseti grunndeildar við Kennaraháskóla Íslands.

Guðmundur er með doktorsgráðu í stærðfræðimenntun frá Indiana University og B.A.-gráðu í heimspeki og raunvísindum frá Háskóla Íslands.

Guðmundur hefur starfað hjá Íslandsbanka í sjö ár.

Una Steinsdóttir

Framkvæmdastjóri viðskiptabanka frá maí 2017

Una hóf störf hjá Íslandsbanka 1991 og hefur víðtæka og fjölbreytta starfsreynslu úr bankanum. Hún var framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs frá október 2008 til maí 2017, framkvæmdastjóri útibúasviðs frá 2007 til 2008, og útibústjóri útibúsins í Reykjanesbæ frá 1999. Áður sinnti hún ýmsum störfum í alþjóðadeild bankans, lánaeftirliti og við lána- þjónustustjórnun.

Una hefur lokið Cand.Oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og lauk AMP stjórnunarnámi 2015 frá IESE í Barcelona.

Una hefur starfað í 27 ár hjá Íslandsbanka og forverum hans

Vilhelm Már Þorsteinsson

Framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfesta frá maí 2017

Vilhelm Már hóf störf hjá Íslandsbanka 1999 og hefur frá þeim tíma unnið að margvíslegum verkefnum innan bankans, svo sem í markaðsviðskiptum, á fyrirtækjasviði og á skrifstofu bankastjóra. Hann var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs frá október 2008 til maí 2017. Áður stýrði Vilhelm viðskiptaþróunarteymi bankans sem m.a. vann að ytri vexti bankans og síðar að eignasölu og ýmsum fjármögnunarverkefnum.

Hann er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík, MBA gráðu frá Pace University í New York og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Vilhelm Már hefur starfað í 18 ár hjá Íslandsbanka og forverum hans.

Uppfært 18. desember 2017

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall