Ráðgefandi nefndir bankastjóra

Ráðgefandi nefndir bankastjóra skiptast í stefnumótunarnefndir, sem hafa með höndum innleiðingu á stefnu stjórnar, og viðskiptanefndir, sem taka afstöðu til einstakra viðskiptaerinda. Skipan nefndanna er ákveðin af bankastjóra og starfa þær samkvæmt erindisbréfi og starfsreglum settum af bankastjóra. 

Framkvæmdastjórn og Áhættustefnunefnd, teljast til stefnumótunarnefnda og taka lykilákvarðanir er varða innleiðingu á þeirri stefnu sem mörkuð er af stjórn. Í þeim eiga sæti allir framkvæmdastjórar bankans auk annarra stjórnenda sem skipaðir eru af bankastjóra.

  • Framkvæmdastjórn skal hafa yfirsýn og samhæfa lykilþætti í starfsemi Íslandsbanka. Framkvæmdastjórn fer með ákvörðunarvald í þeim málefnum bankans sem bankastjóri felur henni í samræmi við stefnu, markmið og áhættuvilja.
  • Áhættustefnunefnd tekur lykilákvarðanir er varða innleiðingu á umgjörð áhættustýringar og innra eftirlits og hefur eftirlit með því að áhættusnið bankans sé innan þess ramma sem markast af yfirlýsingu stjórnar um áhættuvilja. Áhættustefnunefnd gefur út leiðbeiningar um áhættuviðmið og samþykkir aðferðir og forsendur við útreikning á áhættumælikvörðum auk þess sem nefndin staðfestir lánareglur og aðrar reglur er varða útfærslu á áhættustefnu.

Viðskiptanefndir bankans taka afstöðu til einstakra viðskipta- eða rekstrarerinda í samræmi við stefnuskjöl, reglur og önnur mörk sem samþykkt hafa verið af stjórn, framkvæmdastjórn eða áhættustefnunefnd. Viðskiptanefndir bankans eru Yfirlánanefnd, Efnahagsnefnd, Fjárfestingarráð og Rekstrar- og öryggisnefnd.

  • Yfirlánanefnd tekur afstöðu til erinda um lánamál og er formlegur vettvangur fyrir rýni og umræðu um einstök lánamál.
  • Efnahagsnefnd tekur afstöðu til erinda varðandi markaðsáhættu, lausafjárstýringu, fjármögnun, eiginfjármál og innri og ytri verðlagningu.
  • Fjárfestingarráð tekur afstöðu til erinda varðandi kaup, sölu og verðmat eignarhluta í félögum og öðrum fjárfestingum bankans.
  • Rekstrar- og öryggisnefnd tekur afstöðu til erinda varðandi nýjar vörur, nýja þjónustu, samfelldan rekstur og áhættusamar breytingar á kerfum og ferlum í bankanum.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall