Starfskjarastefna

Starfskjarastefna samþykkt á aðalfundi Íslandsbanka hf. þann 22. mars 2018.

1. gr. Markmið

Starfskjarastefna Íslandsbanka hf. er sett í samræmi við ákvæði 79. gr. a. í lögum nr. 2/1995 um hlutafélög. Hún byggir á meginreglum um góða stjórnarhætti fyrirtækja og er ætlað að treysta viðleitni bankans til að veita framúrskarandi þjónustu og leggja grunn að góðri arðsemi hlutafjár með langtíma hagsmuni félagsins, eigenda þess, viðskiptamanna og starfsmanna að leiðarljósi.

Í samræmi við þessi markmið er það megininntak starfskjarastefnu bankans að hann bjóði á hverjum tíma samkeppnishæf starfskjör og sambærileg við það sem gerist í starfsumhverfi hans, mælt á hefðbundna mælikvarða um umsvif, ábyrgð og árangur, en ekki leiðandi. Á þessum forsendum verði Íslandsbanki eftirsóknarverður starfsvettvangur framúrskarandi starfsmanna.

Starfskjarastefnan nær yfir helstu atriði í starfs- og launakjörum stjórnarmanna, bankastjóra, æðstu stjórnenda og annarra starfsmanna bankans.
Í bankanum starfar Stjórnarhátta-, starfskjara og mannauðsnefnd sem er skipuð þremur stjórnarmönnum bankans.

2. gr. Starfskjör stjórnarmanna

Stjórnarmönnum skal greidd mánaðarleg þóknun í samræmi við ákvörðun aðalfundar bankans, svo sem kveðið er á um í 79. gr. a laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Þá skal varamönnum í stjórn greidd þóknun í samræmi við ákvörðun aðalfundar bankans.

Stjórn skal leggja fram tillögu á aðalfundi bankans um þóknun fyrir stjórnarstörf, störf í undirnefndum stjórnar sem og þóknun til varamanna á komandi starfsári. Við gerð þeirrar tillögu skal taka mið af þeim tíma sem stjórnarmenn verja til starfans og þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir.

Bankinn greiðir jafnframt ferðakostnað og dagpeninga vegna starfa stjórnarmanna sem hafa lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins. Gerð skal grein fyrir slíkum greiðslum á aðalfundi í tengslum við ákvörðun þóknunar stjórnarmanna.

Aðrar launagreiðslur Íslandsbanka hf. til stjórnarmanna en greinir í ákvörðun hluthafafundar eru óheimilar.

Óheimilt er að gera starfslokasamninga við stjórnarmenn.

3. gr. Starfskjör bankastjóra

Stjórn skal ákvarða starfskjör bankastjóra í ráðningarsamningi hans. Föst laun og aðrar greiðslur skulu vera samkeppnishæf á þeim markaði sem bankinn starfar á og m.a. taka mið af hæfni, ábyrgð og umfangi starfans, en ekki leiðandi.

Í ráðningarsamningi skal tiltaka önnur starfskjör sem tíðkanleg eru í hliðstæðum störfum. Þar skal
kveðið á um greiðslur í lífeyrissjóð, orlof, hlunnindi og uppsagnarfrest.

Starfskjör bankastjóra skal endurskoða árlega. Við slíka endurskoðun skal höfð hliðsjón af
frammistöðu, þróun launakjara á markaði og afkomu bankans.

Við gerð ráðningarsamnings bankastjóra skal haft að leiðarljósi að ekki komi til frekari greiðslna við starfslok en fram koma í ráðningarsamningi.

4. gr. Starfskjör æðstu stjórnenda

Bankastjóri ræður framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn sem heyra beint undir bankastjóra. Við ákvörðun starfskjara þeirra skal gæta sömu sjónarmiða og fram koma í 1. og 3. gr.

Stjórn ræður innri endurskoðanda og skal gæta þeirra sjónarmiða sem fram koma í 1. og 3. gr.
við ákvörðun starfskjara hans.

5. gr. Breytilegir kjaraþættir

Stjórn bankans skal ekki gera eða heimila samninga um árangurstengdar greiðslur, nema aðfengnu samþykki hluthafa bankans og þá á þeim skilmálum sem hluthafar samþykkja á hluthafafundi.

6. gr. Upplýsingagjöf

Á aðalfundi skal stjórn gera grein fyrir kjörum bankastjóra, framkvæmdastjóra og stjórnarmanna. Upplýsa skal um heildarfjárhæð greiddra launa á árinu og launa frá fyrra ári. Jafnframt skal stjórn bankans gefa skýrslu á aðalfundi um árangur starfskjarastefnu síðasta árs.

Starfskjarastefnu þessa skal birta á heimasíðu bankans.

7. gr. Aðrir starfsmenn

Við ákvörðun starfskjara annarra starfsmanna skulu bankastjóri og aðrir stjórnendur innan bankans taka mið af ofangreindum reglum eftir því sem við á.

8. gr. Samþykkt starfskjarastefnu og fleira

Starfskjarastefna bankans skal tekin til afgreiðslu á hverjum aðalfundi og skal hún og borin undir hann til samþykktar eða synjunar.

Heimilt er að endurskoða starfskjarastefnuna milli aðalfunda og skulu breytingar á stefnunni þá
lagðar fyrir hluthafafund til samþykktar.

Starfskjarastefnan er leiðbeinandi fyrir bankann og stjórn hans. Ef stjórn bankans víkur frá
starfskjarastefnunni, skal það rökstutt í hverju tilviki fyrir sig í gerðabók bankans. Stjórnin skal
greina frá frávikum og ástæðum þeirra á næsta aðalfundi félagsins.

Starfskjarastefna 2018
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall