Peningaþvættisvarnir

Hvers vegna þarf að framvísa skilríkjum og svara ýmsum spurningum við stofnun reikninga og vegna ákveðinna viðskipta?

Varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Samkvæmt gildandi lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, ber Íslandsbanka að þekkja viðskiptavini sína, starfsemi þeirra og viðskipti við bankann svo vel að þeir geti orðið varir við það ef starfsemi bankans er notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.

  • Þetta ber bankanum að gera með því að framkvæma svokallaða áreiðanleikakönnun á viðskiptavinum sínum áður en þeir stofna upphaflega til viðskiptasambands við bankann og þegar viðskiptavinur vill opna nýjan reikning hjá bankanum.
  • Þetta ber einnig að gera þegar viðskiptavinir eiga gjaldeyrisviðskipti að fjárhæð sem samsvarar 1.000 evrum eða meira1 , hvort sem um er að ræða eina færslu eða fleiri sem virðast tengjast.
  • Sama á við um einstök viðskipti að fjárhæð sem samsvarar 15.000 evrum eða meira2 .

Áreiðanleikakönnun

Áreiðanleikakönnun fer þannig fram að starfsmenn Íslandsbanka kalla eftir upplýsingum um viðskiptavininn og fyrirhuguð viðskipti.  Er þetta gert með því að biðja viðskiptavini um að fylla út viðeigandi eyðublöð og leggja fram nauðsynleg gögn.  Sem dæmi um þær upplýsingar sem afla þarf má nefna helstu persónuupplýsingar, þegar um einstaklinga er að ræða, auk upplýsinga um uppruna fjármuna og tilgang viðskipta.  Á bankanum hvílir einnig sú skylda að láta viðskiptavini sína sanna á sér deili með því að framvísa við  bankann gildum og viðurkenndum persónuskilríkjum (nafnskírteini, ökuskírteini eða vegabréfi), sem bankanum ber að taka afrit af og varðveita.

Í tilviki lögaðila (svo sem félaga, fyrirtækja og sjóða) þarf m.a. að kalla eftir upplýsingum um lagalegt form lögaðilans og starfsemi, hverjir eru raunverulegir eigendur3  hans, hverjir stjórna honum og eru bærir til að skuldbinda hann. Leitast er við að staðfesta áreiðanleika upplýsinganna með öflun viðeigandi gagna, svo sem með því að kalla eftir vottorði úr opinberri skrá (svo sem hlutafélagaskrá eða firmaskrá), ársreikningum/stofnefnahagsreikningum og samþykktum lögaðila.  Þá ber bankanum einnig að láta alla þá, sem hafa heimild til að skuldbinda lögaðilann, sanna á sér deili líkt og þegar um einstaklinga er að ræða.

Óheimilt er að framkvæma viðskipti eða stofna til viðskiptasambands við viðskiptavini ef skilyrði könnunar á áreiðanleika upplýsinga eru ekki uppfyllt.

Áreiðanleikakönnun er ekki aðeins framkvæmd í upphafi viðskiptasambands, heldur einnig þegar viðskiptavinir hyggjast opna nýja reikninga hjá bankanum.  Tilgangurinn er sá að afla upplýsinga um uppruna fjármuna og tilgang viðskipta vegna hvers viðskiptasambands/reiknings, en ekki síður sá að tryggja að upplýsingar og gögn, sem áður hefur verið aflað, uppfærist ef breytingar eiga sér stað (svo sem á stjórnarmönnum lögaðila), þar sem þær kröfur eru gerðar til bankans að fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamann séu ávallt réttar.  Til að uppfylla þessa lagaskyldu ber starfsmönnum að fylgjast með því að sú sé raunin.  Viðskiptavinir mega því búast við því að starfsmenn spyrji reglulega sömu spurninga, og kalli eftir sömu upplýsingum, og gert var í upphafi viðskiptasambands.  Þetta er ekki aðeins lagaskylda heldur einnig mikilvægur þáttur í því að tryggja að aðeins þeir geti átt viðskipti fyrir hönd viðskiptavinar, sem heimild hafa til þess á hverjum tíma.

Með þessu móti er bankinn því að uppfylla skyldur ásamt því að stuðla að öryggi viðskiptavina sinna í viðskiptum við bankann.

Þær skyldur sem hér hefur verið lýst, og lagðar eru á bankann í lögum og reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, endurspegla þær ríku kröfur, í þessu efni, sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja á alþjóðlegum vettvangi.  Tilgangurinn er sá að taka á því alþjóðlega vandamáli sem peningaþvætti er, en það er talið ein af undirstöðum alþjóðlegrar glæpastarfsemi, svo sem fíkniefnaverslunar og hryðjuverka.  Í samræmi við þetta ber bankanum því, lögum samkvæmt, að tilkynna lögreglu um það ef grunur vaknar um að starfsemi hans sé notuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.

1 Á við hvort sem viðskiptavinur er þegar í viðskiptasambandi við Íslandsbanka eður ei.
Á aðeins við um einstök viðskipti, þ.e.a.s. þegar viðskiptavinur er ekki í viðskiptasambandi við Íslandsbanka.
Raunverulegur eigandi:  Einstaklingur eða einstaklingar sem í raun eiga eða stjórna lögaðila í gegnum beina eða óbeina eignaraðild að meira en 25% hlut í lögaðilanum, ráða yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall