Birna Einarsdóttir, bankastjóri

Ávarp bankastjóra

Árið 2016 var mjög gott ár fyrir Íslandsbanka og einkenndist af mikilvægum áföngum í sögu bankans. Grunnrekstur bankans hélt áfram að styrkjast og tekjur voru stöðugar. Endurskipulagningu lánasafnsins er lokið, allir eignarhlutir í óskyldum rekstri hafa verið seldir og gæði eigna halda áfram að aukast. Við gáfum út skuldabréf að fjárhæð 500m evra sem gekk mjög vel á eftirmörkuðum. Í ljósi jákvæðrar þróunar í íslensku efnahagslífi og skrefum í áttina að afnámi fjármagnshafta greiddum við sérstaka arðgreiðslu að fjárhæð 27 ma. kr. í desember. Með því tókum við fyrstu skrefin í áttina að hagstæðari samsetningu á eiginfjárgrunni bankans og undirbúningi að breyttu eignarhaldi. Hápunktur ársins var síðan flutningur okkar í nýjar höfuðstöðvar þar sem svokölluð verkefnamiðuð vinnuaðstaða er höfð í fyrirrúmi. Verkefnamiðuð vinnuaðstaða veitir okkur sveigjanleika í skipulagi og eykur samvinnu sem aftur styður við þá stefnu okkar að vera #1 í þjónustu.

Við erum #1 í þjónustu

Síðustu sex ár hefur Íslandsbanki haft þá framtíðarsýn að vera #1 í þjónustu. Árið 2015, þegar við vorum viss um að sýn okkar væri orðin greypt í fyrirtækjamenninguna og ferla, fannst okkur tímabært að opinbera loforð okkar til viðskiptavina – loforð um að veita þeim bestu bankaþjónustuna á Íslandi. Við höfum fengið framúrskarandi viðbrögð sem hafa skilað sér í gagnkvæmri ánægju og frekari vexti bankans.

Samkeppnisforskot bankans má ekki hvað síst þakka starfsfólkinu, eljusemi þess og dugnaði. Til að styðja við þjónustudrifna fyrirtækjamenningu býður bankinn starfsmönnum fjölbreytt úrval námskeiða til að bæta stjórnunarhæfni, forystuhæfileika og einstaklingsþroska. Starfsánægja, sem mælist mjög há eða 95%, og hátt innra þjónustustig eru grundvallaratriði við að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu.

Fjórða árið í röð eru viðskiptavinir Íslandsbanka ánægðustu viðskiptavinirnir samkvæmt niðurstöðu Íslensku ánægjuvogarinnar. Átta ár í röð höfum við verið kosinn faglegasti bankinn og sá banki sem veitir fyrirtækjum bestu bankaþjónustuna. Við erum einnig hæst í meðmælavísitölunni (NPS): meðal einstaklinga vorum við 6 stigum hærri en næsti banki, meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja vorum við 28 stigum hærri en næsti banki, og meðal stórra fyrirtækja vorum við 37 stigum á undan næsta banka.

Á meðan við höldum áfram að byggja upp góð tengsl við viðskiptavini okkar, þá eykst ánægja þeirra því við stundum viðskipti sem eru þeim að skapi

Eitt af meginmarkmiðum okkar er að margfalda viðskiptatækifæri meðal helstu viðskiptavinahópa okkar – fólki, fyrirtækjum og fagfjárfestum.

Á árinu 2016 héldum við áfram að kynna nýjar vörur og fleiri leiðir fyrir viðskiptavini til að eiga viðskipti við okkur. Íslandsbanki er reyndar eini bankinn sem hefur aukið markaðshlutdeild sína í húsnæðislánum. Við höfum lagt áherslu á fyrstu kaupendur og kynntum nýjan húsnæðissparnað til að spara fyrir útborgun og fleiri úrræði til að einfalda ferilinn við húsnæðislánaumsóknir. Ég er fullviss um, að þegar 47% af fyrstu kaupendum álíta Íslandsbanka leiðandi þegar kemur að þjónustu, að við séum að leggja grundvöll að langtíma sambandi við marga nýja viðskiptavini.

Ergo, eignafjármögnun bankans, heldur áfram að vera leiðandi á eignaleigumarkaðnum. Ferðamaður sem leigir bíl á Íslandi er að öllum líkindum á bíl sem er fjármagnaður af Ergo, sem er með 57% markaðshlutdeild á þeim markaði. Bílaleigur eru meirihluti kaupenda að bílum á landinu og hefur Ergo átt í góðu samstarfi við þær og tekið þátt í vexti þessa spennandi markaðar.

Við sjáum að lítil fyrirtæki og frumkvöðlar eru í miklum vexti, sérstaklega með tilkomu ferðaþjónustunnar sem er sá atvinnuvegur sem vex hvað hraðast. Ferðaþjónustan er nú orðinn stærsti atvinnuvegurinn í lánabók bankans og þar með orðinn stærri en sjávarútvegurinn. Með áherslu á sjávarútveg, orkuiðnað og ferðaþjónustu hélt fyrirtækjasvið áfram að byggja á gríðarlega sterkum grunni sínum og veitti 91 ma. kr. í ný lán árið 2016. Sviðið kom að mörgum af stærstu fjármögnunarverkefnum á landinu og hélt áfram að þróa starfsemi á völdum mörkuðum í Norður-Atlantshafi.

Með samstarfi við nokkur af stærstu eignastýringarfélögum heims er VÍB, eignastýringarsvið bankans, betur í stakk búið að veita viðskiptavinum okkar aðgengi að erlendum verðbréfasjóðum - tækifæri sem skapast með breytingu á lögum um afléttingu fjármagnshafta. Íslandssjóðir, í sama tilgangi, kynntu nýjan sjóð sem gerir íslenskum fjárfestum kleift að auka fjölbreytni í fjárfestingum utan Íslands. Fjárfestar voru einnig ánægðir með úrval sérhæfðra fjárfestinga í óskráðum eignum og fasteignum.

Markaðir eru leiðandi í fyrirtækjaráðgjöf á Íslandi og treystu stöðu sína sjötta árið í röð. Sviðið lauk 26 ráðgjafarverkefnum á öllum sviðum atvinnulífsins, allt frá átöppun og bruggun yfir í sjávarútveg og skráningu Skeljungs á markað. Markaðir sáu um 36% af allri nýrri skuldabréfaútgáfu fyrirtækja á innlenda markaðnum og voru áberandi í gjaldeyrisuppboðum Seðlabankans á aflandskrónum.

Þrátt fyrir að við höldum kostnaði í skefjum þá eykst ánægja viðskiptavina vegna þess að við erum að gera það sem viðskiptavinir okkar vilja að við gerum

Annað meginmarkmið okkar er einföldun, bæði þegar kemur að því að auka rekstrarhæfni bankans og að straumlínulaga upplifun viðskiptavina í gegnum rafrænar dreifileiðir. Með þeim þá einföldum við vöruframboð okkar, stuðlum að sjálfsafgreiðslu og bjóðum upp á vörur og þjónustu í gegnum þá dreifileið sem hentar okkar viðskiptavinum best – og á lágmarksverði.

Í desember flutti Íslandsbanki höfuðstöðvar sínar í Norðurturninn í Kópavogi sem gerir okkur kleift að sameina allar viðskipta- og stoðeiningar bankans undir einu þaki. Bankinn er jafnframt að einfalda útibúanet sitt og fækkaði útibúum um tvö á árinu, úr 17 í 15 útibú í árslok 2016 og í 14 útibú í febrúar 2017. Þetta hefur í för með sér að við höldum áfram að starfrækja hagkvæmasta útibúanet landsins, með 30% markaðshlutdeild en aðeins 17% af fjölda útibúa.

Rafrænar dreifileiðir eru þær þjónustuleiðir sem viðskiptavinir okkar vilja helst nota. Á síðasta ári fjárfestum við umtalsvert í rafrænum lausnum og bættum við nýjum aðgerðum og þjónustu og styrktum rafræna innviði. Árið 2016 fengum við ISO vottun á stjórnkerfi upplýsingaöryggis, sem er orðið enn mikilvægara sökum þess að rafrænt fótspor okkar stækkar sífellt. Við erum einnig að vinna í því að leysa af hólmi núverandi innlána- og greiðslumiðlunarkerfi með Sopra innlánakerfinu, sem er vafalaust stærsta og umfangsmesta verkefni tæknilegs eðlis sem bankinn hefur ráðist í.

Með því að taka höndum saman með frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækjum í fjármálastarfsemi getum við hraðað rafrænni þróun og kynnt til leiks nokkur ný og spennandi verkefni. Sem dæmi má nefna Kass sem var sett í loftið árið 2016. Kass er öflugt og einfalt greiðsluapp sem er í boði fyrir alla, óháð því hvar fólk er með bankaviðskipti sín. Það er áhugavert að minna en helmingur notenda appsins eru í viðskiptum við Íslandsbanka. Þetta er mjög gott dæmi um hvernig við sköpum tækifæri, hvernig við einföldum á meðan við í raun og veru margföldum.

Sterkur grunnrekstur og stöðugur vaxtamunur

Uppgangur í íslensku efnahagslífi heldur áfram að styðja við góðan rekstrarárangur Íslandsbanka. Enn og aftur skilar bankinn mjög góðum niðurstöðum – hagnaður var 20,2 ma. kr. og arðsemi eigin fjár 10,2%.

Stærstur hluti heildar rekstrartekna stafar af hreinum vaxtatekjum og hreinum þóknanatekjum. Hreinar vaxtatekjur hækkuðu um 14% milli ára og aukningin var aðallega vegna hærra vaxtastigs á Íslandi og hærri eiginfjárstöðu. Á sama tíma jukust hreinar þóknanatekjur um 4% sem er að mestu leyti vegna meiri umsvifa á viðskiptabankasviði og í dótturfélögum bankans. Aðrar tekjur voru 7,2 ma. kr., aðallega vegna 6,2 ma. kr. einskiptishagnaðar vegna sölu Borgunar, dótturfyrirtækis bankans, á hlut í Visa Europe.

Að frátöldum einskiptiskostnaði vegna flutnings í nýjar höfuðstöðvar hækkaði kostnaður um 1,4 ma. kr. Launahækkanir í kjölfar kjarasamninga höfðu talsverð áhrif. Skattar og þá sérstaklega hinn svokallaði bankaskattur, sem er núna rétt undir 0,4% af heildarskuldum umfram 50 ma. kr., hafa talsverð áhrif á afkomu okkar. Þessi skattheimta skekkir verulega samkeppnishæfni okkar gagnvart öðrum aðilum á markaðnum, sérstaklega innlendu lífeyrissjóðunum og alþjóðlegum fjármálastofnunum sem starfa á íslenska markaðnum.

Gagnsær og einfaldur efnahagsreikningur í kjölfar endurskipulagningar

Nú þegar endurskipulagningu lánasafnsins er lokið munu áhrif hreinna virðisbreytinga útlána, sem hafa að mestu leyti verið tekjur síðustu ár, verða minni og minni. Gæði eigna aukast sífellt og hefur hlutfall lána sem eru í vanskilum lækkað úr 2,2% á síðasta ári í 1,8% í lok árs 2016. Bankinn hefur náð góðum árangri í að byggja upp sterkan efnahagsreikning með endurskipulagningu lánasafnsins ásamt því að greiða upp skuldir sem urðu til við stofnun bankans og minnka innlán sem erlendir fjárfestar eiga í bankanum og eru bundin undir fjármagnshöftum. Þetta hefur leitt til þess að lánshæfismat bankans hefur hækkað undanfarið, eða í BBB/A-2 frá Standard & Poor’s og BBB/F-3 frá Fitch Ratings. Á sama tíma höfum við haldið áfram vinnu við að einfalda efnahagsreikninginn okkar og höfum selt eða endurskipulagt eignir okkar í óskyldri starfsemi.

Fjórða árið í röð er Íslandsbanki efstur í Íslensku ánægjuvoginni. Samkeppnisforskot bankans má þakka starfsfólkinu sem vinnur þar, eljusemi og dugnaði þess. Ég vil þakka okkar framúrskarandi starfsfólki sem er án efa leynivopnið í ánægju viðskiptavina okkar.

Skref í áttina að eðlilegri fjármagnsskipan

Íslandsbanki náði afburða árangri í útgáfumálum á árinu. Útgáfa á innlendum sértryggðum skuldabréfum hélt áfram með nýrri útgáfu að fjárhæð 20 ma. kr. sem festi okkur í sessi sem stærsti útgefandi sértryggðra bréfa hérlendis. Á erlendum vettvangi voru skuldabréf í evrum vinsæl hjá fjárfestum í Evrópu, sem og á eftirmörkuðum. Þar má sérstaklega nefna skuldabréf að fjárhæð 500m evra sem var gefið út síðsumars og leiddi íslenska markaðinn í heild sinni, jafnvel á undan hækkunum frá lánshæfismatsfyrirtækjunum. Lánshæfisfyrirtækin Standard & Poors og Fitch hafa bæði hækkað lánshæfiseinkunn bankans í BBB og er Íslandsbanki eini íslenski bankinn sem er með tvö lánshæfismöt. Bankinn lét mikið að sér kveða á fjármagnsmörkuðum í kjölfar útgáfunnar og núna erum við betur í stakk búin til að takast á við næsta markmið okkar sem er að ná fram eðlilegri fjármagnsskipan á skuldahlið efnahagsreikningsins.

Í því skyni greiddi Íslandsbanki eigenda sínum, íslenska ríkinu, sérstaka arðgreiðslu að fjárhæð 27 ma. kr. í desember. Með þessari greiðslu lækkaði eiginfjárhlutfallið í 25,2%, en það var 30,1% árið 2015. Er þetta stórt undirbúningsskref fyrir breytt eignarhald þegar Íslandsbanki mun skila ríkinu miklu virði.

Gott teymi skilar árangri

Öll þessi atriði og sterk undirstaða okkar hafa lagt sitt af mörkum við árangur Íslandsbanka árið 2016 og við erum enn og aftur stolt af því að hafa aftur verið útnefnd besti bankinn á Íslandi af tímaritinu Banker og besti bankinn fjórða árið í röð hjá Euromoney. Við lokuðum árinu með blendnar tilfinningar, við kveðjum gömlu höfuðstöðvarnar okkar á Kirkjusandi sem hafa þjónað okkur svo vel í meira en 20 ár en á móti kemur að við hlökkum til að flytja í nýjar, bjartar og nútímalegar höfuðstöðvar í Norðurturni með nýrri verkefnamiðaðri vinnuaðstöðu.

Ársskýrsla Íslandsbanka 2016, ásamt ársreikningi samstæðu og áhættuskýrslu, gefa greinargóða mynd af starfsemi bankans og rekstri á árinu.

Hér má skoða skýrslurnar á PDF formi.

Ársskýrsla Ársreikningur Áhættuskýrsla

Að auki má finna allt kynningarefni, s.s. kynningar, tilkynningar, einblöðung, lykiltölur og myndband, á vef fjárfestatengsla undir afkoma og tilkynningar.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall