Birna Einarsdóttir, bankastjóri

Ávarp bankastjóra

Það má með sanni hægt að segja að árið 2017 hafi verið tímabil breytinga og uppbyggingar fyrir Íslandsbanka. Við innleiddum nýtt skipulag, fullkláruðum flutning í nýjar höfuðstöðvar og endurnýjuðum grunnkerfi bankans. Við héldum áfram að undirbúa bankann fyrir nýtt alþjóðlegt regluverk, nýjar tæknilegar áskoranir og að takast á við nýja keppinauta á markaði. Við fengum hækkun á lánshæfismati bankans og stigum enn frekari skref í átt að hagstæðari fjármagnsskipan með fyrstu víkjandi skuldabréfaútgáfu íslensks fjármálafyrirtækis á erlendum markaði frá árinu 2008. Þrátt fyrir þessar miklu breytingar þá hélst rekstur bankans áfram stöðugur og skilaði bankinn 13,2 milljarða króna hagnaði og var arðsemi af undirliggjandi rekstri 10,3% sem er í takt við markmið bankans. Íslandsbanki á ánægðustu viðskiptavinina á bankamarkaði samkvæmt niðurstöðu Íslensku ánægjuvogarinnar. Þá hélt bankinn stöðu sinni á árinu sem leiðandi bankastofnun á Íslandi í þjónustu við viðskiptavini en hann mældist hæstur íslenskra banka í flestum þáttum þjónustukannana á meðal einstaklinga og fyrirtækja og var valinn besti bankinn á Íslandi að mati The Banker.

Nýtt skipulag, endurnýjuð kerfi og flutningur í höfuðstöðvar fullkláraður

Í nýju skipulagi bankans þá þjóna þrjú svið viðskiptavinum; Einstaklingar, Viðskiptabanki og Fyrirtæki og fjárfestar. Með breytingunum vildum við sníða skipulagið að breyttum þörfum viðskiptavina og bjóða enn betri bankaþjónustu. Breytingarnar hafa tekist vel og sjáum við strax aukin tækifæri til sóknar. Í október 2017 fullkláruðum við flutning bankans í nýjar höfuðstöðvar í Norðurturni þar sem við sameinuðum starfsemi bankans af fjórum stöðum. Við höfum komið okkur vel fyrir og vinnum í dag í verkefnamiðaðri vinnuaðstöðu sem hefur gefist vel og veitir starfsfólki sveigjanleika til að vinna að daglegum verkefnum í því umhverfi sem hentar best hverju sinni. Starfsánægja hefur haldast há innan bankans líkt og fyrri ár og finnum við fyrir miklum krafti í okkar hópi.

Lagt var stað í mikla vegferð þegar ákveðið var að skipta um grunnkerfi bankans en stefnt er að því að innleiða ný kerfi á fyrri hluta árs 2018. Verkefnið sem unnið er í samstarfi við Reiknistofu bankanna er gríðarlega stórt og umfangsmikið. Nú sjáum við fyrir endann á því verkefni þegar lagt er í lokasprettinn. Nýtt grunnkerfi mun auka hagræði og hjálpa okkur að takast á við nýja tíma.

Ánægðir viðskiptavinir

Á undanförnum árum höfum við í Íslandsbanka byggt upp þá framtíðarsýn að leitast við að vera númer eitt í þjónustu og hafa starfsmenn lagt allt kapp á að framfylgja þeirri skuldbindingu. Fimm ár í röð hafa viðskiptavinir Íslandsbanka verið ánægðustu viðskiptavinirnir á fjármálamarkaði samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni og var bankinn valinn í þriðja sinn besti bankinn á Íslandi árið 2017 að mati The Banker. Við erum mjög þakklát fyrir þá viðurkenningu sem hvetur okkur áfram á sömu braut og til að gera enn betur. Það er alltaf áskorun að breyta því sem nú þegar er gott í framúrskarandi. Á sama tíma erum við stöðugt að leita leiða til að veita viðskiptavinum þjónustu sem einfaldar þeim bankaviðskiptin. Í dag geta einstaklingar til dæmis átt nær öll bankaviðskipti í gegnum símann sinn í gegnum app Íslandsbanka þar sem nú er meðal annars hægt að sækja um og breyta yfirdráttarheimild. Fjölmargir nýta sér einnig Kass appið sem var valið besta íslenska appið á Íslensku vefverðlaununum á árinu. Nýjasta viðbót okkar er síðan Kreditkorta appið þar sem hægt er að fylgjast með notkun í rauntíma, fá pin númer og láta frysta kort.

Meðmælavísitala (Net Promoter Scores) Íslandsbanka hefur aldrei verið hærri frá árinu 2008 en hún mælir líkurnar á að viðskiptavinir okkar mæli með bankanum við vini eða kunningja. Meðmælavísitalan er sá mælikvarði sem er að verða hvað mest notaði þjónustumælikvarði um allan heim. Meðal einstaklinga var bankinn 11 stigum hærri en næsti banki og meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja erum við 27 stigum hærri en næsti banki. Aðspurðir telja forsvarsmenn íslenskra fyrirtækja Íslandsbanka veita góða þjónustu, sterka ráðgjöf og telja starfsfólk bankans setja sig vel inn í rekstur fyrirtækjanna.

Fjölbreyttur fyrirtækjamarkaður

Bankinn hefur verið leiðandi á fyrirtækjamarkaði og jókst markaðshlutdeild hans í útlánum á meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja á milli ára og stóð hún í 36% í lok árs 2017. Lánin skiptust nokkuð jafnt milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar en Viðskiptabankinn lánaði 45% af nýjum lánum sem hann veitti til fyrirtækja á landsbyggðinni. Þar að auki hefur bankinn átt farsælt samstarf við stærstu fyrirtæki landsins og námu ný lán til fyrirtækja á árinu 129 milljörðum króna en voru 116 milljarðar króna árið 2016. Heildarútlán bankans til bæði einstaklinga og fyrirtækja jukust um átta prósent árið 2017.

Lánað hefur verið í fjölbreytta atvinnustarfsemi í gegnum árin og skiptist áhætta lánabókar því á ólíkar greinar. Ferðaþjónusta var umfangsmest í lánabók bankans í lok 2017 en fasteignafélög og sjávarútvegur mælast stærst þar á eftir.
Árið var líflegt hjá Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sem kláraði 16 verkefni á árinu. Þar ber einna hæst umsjón með sölu á Keahótelum, stærstu hótelkeðju landsins, og ráðgjöf við kaup Vodafone á eignum 365 miðla. Mörg verkefni eru í farvatninu sem verður gaman að klára með viðskiptavinum okkar á nýju ári.

Verðbréfa- og gjaldeyrismiðlun stóð einnig í ströngu á árinu en útgáfa sértryggðra skuldabréfa Íslandsbanka nam tæplega 42 milljörðum króna. Verðbréfamiðlun sá um skuldabréfaútgáfu Eikar fasteignafélags fyrir tæpa 10 milljarða króna, og fyrir Íslandshótel, fyrir tæpa 3 milljarða króna. Góður gangur var jafnframt á afleiðuborði en við sjáum fram á mikla sókn á nýju ári í miðlun bankans.
Ergo,eignafjármögnun bankans, átti stærsta útlánaár sitt frá upphafi. Niðurstöður kannanna hafa sýnt að Ergo er fyrsti valkostur viðskiptavina og er leiðandi á fjármögnunarfyrirtækja markaðnum. Bílafloti landsins hefur verið að yngjast sem eru góðar fréttir fyrir umhverfi og öryggi í umferðinni og hafa hagstæðari kjör en áður til viðskiptavina einfaldað fjármögnun á bílakaupum til muna.

Með bankann í vasanum

Umhverfi fjármálaþjónustu einstaklinga er að taka miklum breytingum um þessar mundir þegar umfang regluverks eykst með hverju árinu. Með nýrri reglugerð munu bankar þurfa að veita öðrum fyrirtækjum aðgang að grunnstoðum bankakerfisins. Við munum því sjá aukna samkeppni frá fjártæknifyrirtækjum á komandi misserum sem verður neytendum til hagsbóta. Íslandsbanki hefur verið að bregðast hratt við þessari þróun en árið 2017 áttum við yfir 20 milljónir snertinga við viðskiptavini okkar, að mestu í gegnum stafrænar dreifileiðir. Með fjölmörgum nýjungum sjáum við fram á að viðskiptavinir geti nýtt sér stafrænar dreifileiðir til að eiga sín bankaviðskipti hvar og hvenær sem er. Við munum halda áfram á þessari vegferð og kynna enn fleiri nýjungar á árinu 2018. Mikil eftirspurn var eftir húsnæðislánum bankans, bæði í tengslum við fasteignakaup og endurfjármögnun eldri lána. Vextir húsnæðislána eru nú hagstæðari en þeir hafa verið um árabil og þrátt fyrir mikla samkeppni á húsnæðislánamarkaði hefur bankinn haldið markaðshlutdeild sinni. Sérstök áhersla hefur verið lögð á fyrstu kaupendur þar sem Íslandsbanki er leiðandi á markaði. Fyrir þann hóp er í boði sérstök viðbótarlán en sú þjónusta hefur fengið mjög góðar viðtökur.

Um leið og við eflum starfrænar dreifileiðir leggjum við mikla áherslu á að einstaklingar og fyrirtæki fái góða þjónustu í útibúum bankans sem eru 14 talsins. Við leggjum mikið upp úr sérfræðiþekkingu starfsfólks okkar sem aðstoðar viðskiptavini við stórar sem smáar ákvarðanir.

Útibúanet Íslandsbanka er það hagkvæmasta á Íslandi og árið 2017 var opnað nýtt og endurbætt útibú, Laugardalur, þegar útibúin á Suðurlandsbraut og Kirkjusandi sameinuðust. Nýstárleg hönnun útibúsins líkt og útibúa okkar í Norðurturni og Granda hafa vakið mikla athygli og marka nýja nálgun í bankaþjónustu. Útibúið í Norðurturni meðal annars valið framsæknasta útibúið árið 2017 af The Financial Brand.

Áframhaldandi sterkur grunnrekstur og stöðugar þóknunartekjur

Þrátt fyrir að hafa verið ár uppbyggingar og styrkingar á stoðum bankans, þá skilaði bankinn afbragðs afkomu en hagnaður bankans á árinu 2017 nam 13,2 milljörðum króna og var arðsemi af undirliggjandi rekstri 10.3% og þóknanatekjur13,8 milljarðar króna. Gæði lánasafnsins hafa haldið áfram að batna en hlutfall lána í vanskilum umfram 90 daga var 1,0% í lok árs.

Lánshæfismat bankans var hækkað af bæði S&P og Fitch og fjármögnun bankans gekk afar vel á árinu. Bankinn gaf meðal annars út tímamóta skuldabréfaútgáfu á árinu að fjárhæð 750 milljónir sænskra króna til 10 ára en útgáfan var fyrsta víkjandi skuldabréfaútgáfan sem íslensk fjármálastofnun selur á erlendum markaði frá árinu 2008 og var með henni var stigið stórt skref í átt að hagstæðari fjármagnsskipan bankans. Það er virkilega ánægjulegt að finna fyrir aukinni trú fjárfesta á rekstri bankans og íslensku efnahagsumhverfi.

Aukin fræðsla og ábyrgð í samfélaginu

Aukin fræðsla og ábyrgð í samfélaginu
Í gegnum fræðslustarf bankans, sem er hluti af samfélagsábyrgð bankans, höfum við á undanförnum árum haldið 600 fræðsluerindi og fengið til okkar 40.000 gesti á fundi sem hafa ýmist fjallað um fjármál við starfslok, fyrstu fjárfestingar, húsnæðismarkaðinn og léttara efni eins og fjármál í fótbolta. Nýlega hófum við framleiðslu á myndböndum fyrir samfélagsmiðla en þegar hafa yfir 50.000 manns horft á fyrstu myndböndin okkar.

Við erum spennt að nýta þessa leið til að koma áhugaverðu og fræðandi efni til viðskiptavina okkar og sjáum þar fjölmörg tækifæri.
Bankinn hefur einnig stutt dyggilega við frumkvöðlastarfsemi en annað árið í röð var bankinn einn af stærstu bakhjörlum Startup Tourism sem eflir nýsköpun í ferðaþjónustu. Jafnframt voru veittir styrkir úr frumkvöðlasjóði bankans sem hafa komið sér vel fyrir fyrirtæki sem eru að láta góðar hugmyndir verða að veruleika.

Sterk sókn á nýju ári

Við kveðjum viðburðarríkt ár og við erum þakklát fyrir traust og gott samstarf við viðskiptavini okkar og erum spennt að kynna fyrir þeim ýmsar þjónustunýjungar á komandi misserum. Árið 2017 var vel nýtt í að styrkja grunnstoðir okkar og aðlaga bankann að breyttu umhverfi. Líkt og íslenska landsliðið í knattspyrnu sem spilar í fyrsta sinn á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í sumar, þá höfum við í Íslandsbanka háleit markmið fyrir árið 2018 og hlökkum til að takast á við komandi verkefni af miklum krafti.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall