Frétt

Afkoma Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi 2013

Helstu niðurstöður

 • Afkoma bankans eftir skatta var jákvæð um 4,6 ma. kr. á fyrsta ársfjórðungi 2013, samanborið við 5,6 ma. kr. á sama tímabili 2012. Munurinn á milli ára liggur að stærstum hluta í lægri vaxtatekjum og sveiflum í gengi íslensku krónunnar. 
 • Arðsemi eigin fjár eftir skatta lækkaði í 12,2% (1F2012: 17,7%). Lækkun á arðsemi skýrist að mestu af hærra eigin fé, sem hefur hækkað um 18% á milli ára, eða frá 129 ma. kr. í 152. ma. kr. 
 • Skattar og gjöld greidd ríkisstofnunum voru 2,1 ma. kr. á fjórðungnum, samanborið við 2,2 ma. kr. á 1F2012.
 • Frá stofnun bankans hafa um 35.900 einstaklingar og um 3.900 fyrirtæki fengið afskriftir, eftirgjafir eða leiðréttingar á skuldum sem nema um 490 ma. kr. 
 • Heildareignir hækkuðu lítillega í 829 ma. kr. (2012: 823 ma. kr.), en útlán til viðskiptavina lækkuðu um 3% í 543 ma. kr. (2012: 558 ma. kr.). 
 • Vaxtamunur var 3,6% (2012: 3,9% og 1F2012: 4,4%) og fer lækkandi samhliða því að afföll á lánasafni sem keypt var frá Glitni fara úr bókum bankans. 
 • Hreinar þóknanatekjur jukust í 2,5 ma. kr. (1F2012: 2,1 ma. kr.) sem er hækkun um 17% á milli ára og má að mestu rekja til markaða, viðskiptabanka, eignastýringar og dótturfélaga bankans
 • Nettó tekjufærsla vegna endurmats lánasafnsins var 3,1 ma. kr., samanborið við 1,5 ma. kr. gjaldfærslu á sama tímabili fyrir árið 2012. 
 • Heildarinnlán lækkuðu í 492 ma. kr. samanborið við 509 ma. kr. í lok árs 2012. Innlán viðskiptavina voru á pari við lok árs en lækkunin að mestu tilkomin vegna breytinga á innlánum lánastofnanna og Seðlabanka Íslands. 
 • Eigið fé nam 152 ma. kr., og hækkaði um 3% frá árslokum 2012 og 18% á milli ára. Eiginfjárhlutfall styrktist í 26,2% (2012: 25,5%) og eiginfjárhlutfall A (Tier 1) var 22,9% (2012: 22,0%). 
 • Lausafjárstaða Íslandsbanka er traust og vel yfir kröfum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. 

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

“Afkoma af grunnrekstri á fyrsta fjórðungi var í takt við áætlanir. Við sjáum að þau hagræðingarverkefni sem við höfum verið að vinna að eru byrjuð að skila sér og kostnaður lækkar um 3% milli tímabila. Um leið hafa þóknanatekjur aukist um 17% frá fyrra ári sem má meðal annars rekja til aukinna umsvifa á íslenskum verðbréfamarkaði. Þar hefur Íslandsbanki verið sannkallað hreyfiafl en bankinn er nú stærsti útgefandi sértryggðra skuldabréfa á landinu og gaf einnig út víxla á fjórðungnum, fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja frá haustinu 2008.

Íslandsbanki veitti um 20 þúsund skilvísum viðskiptavinum vaxtaendurgreiðslu í febrúar sl., eða samtals 2.5 ma. kr. sem voru lagðar inn á nýjan sparnaðarreikning, Vaxtaþrep 30 dagar. Markmið með endurgreiðslunni var að hvetja til sparnaðar og ánægjulegt frá því að segja að tæpur helmingur endurgreiðslunnar er enn á sparnaðarreikningi hjá bankanum.

Eiginfjárstaða bankans er áfram traust, eða 26.2%, sem er vel yfir kröfum FME, en er skiljanlega farin að hafa áhrif á arðsemi bankans.”

Símafundur fyrir markaðsaðila:

Síðar í dag kl. 13 mun bankinn bjóða markaðsaðilum upp á símafund. Fundurinn fer fram á ensku og farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans. Nauðsynlegt að gestir skrái sig á fundinn með tölvupósti til: ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila 2 tímum fyrir fundinn.

Hægt verður að nálgast fundargögn frá kynningunni á www.islandsbanki.is/fjarfestatengsl.

Nánari upplýsingar

Til baka

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall