Frétt

Afkoma Íslandsbanka á 2. árshluta 2013

Helstu niðurstöður:

  • Afkoma bankans eftir skatta var jákvæð um 6,6 ma. kr. á öðrum ársfjórðungi 2013 (2Q12: 6,0 ma. kr.) og 11,2 ma. kr. á fyrri árshelmingi (1H12: 11,6 ma. kr.)
  • Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 17,4% á fjórðungnum (2Q12: 18,6%) en 14,8% sé horft til fyrri árshelmings (1H12: 17,9%). Lækkun á arðsemi skýrist að mestu af hærra eigin fé, sem hefur hækkað um 15% á milli ára, eða frá 135 ma. kr. í 156. ma. kr. við lok júní 2013.
  • Skattar og gjöld greidd ríkisstofnunum voru 3 ma. kr. á ársfjórðungnum samanborið við 2,2 ma. kr. á 2Q12.
  • Frá stofnun bankans hafa um 35 þúsund einstaklingar og um 4 þúsund fyrirtæki fengið afskriftir, eftirgjafir eða leiðréttingar á skuldum sem nema um 500 ma. kr. 
  • Heildareignir voru 823 ma. kr. við lok tímabilsins (mars 2013: 829 ma. kr.), og útlán til viðskiptavina lækkuðu um 1% í 539 ma. kr. (mars 2013: 543 ma. kr.). 
  • Vaxtamunur var 3,4% (1Q13: 3,6%) og fer lækkandi samhliða því að afföll á lánasafni sem keypt var frá Glitni fara úr bókum bankans.
  • Hreinar þóknanatekjur jukust í 2,7 ma. kr. á fjórðungnum (2Q12: 2,3 ma. kr.) og 5,1 ma. kr sé litið til fyrri árshelmings (1H12: 4,4 ma. kr.). Hækkunin er um 15% á milli ára og má að mestu rekja til markaða, viðskiptabanka, eignastýringar og dótturfélaga bankans.
  • Nettó tekjufærsla vegna endurmats lánasafnsins var 4,7 ma. kr. á fjórðungnum (2Q12: 3,6 ma. kr.) og 7,9 ma. kr á fyrri árshelmingi (1H12: 2,1 ma. kr.).
  • Heildarinnlán hækkuðu í 506 ma. kr. samanborið við 492 ma. kr. í lok mars 2013 og sýna eðlilegar sveiflur í innlánum viðskiptavina og fjármálastofnanna. 
  • Eigið fé nam 155,5 ma. kr., og hækkaði um 2% frá lokum fyrri árshelmings 2013 og 15% á milli ára. Eiginfjárhlutfall styrktist í 27,4% (mars 2013: 26,2%) og  eiginfjárhlutfall A (Tier 1) var 24,0% (mars 2013: 22,9%). 
Nánari upplýsingar um afkomu bankans má finna í ítarlegri afkomutilkynningu hér meðfylgjandi.
 

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

"Afkoma á öðrum ársfjórðungi var í  takt við áætlanir og jákvæð samlegðaráhrif vegna sameininga eru að koma fram á báðum hliðum rekstrarreikningsins. Markverður árangur hefur náðst í hagræðingu á rekstri en kostnaðarhlutfall bankans lækkaði í 41,1% á 2F13 og raunlækkun á rekstrarkostnaði milli ára er 7,5%. 

Íslandsbanki var útnefndur besti íslenski bankinn af hinu virta tímariti Euromoney og var VÍB, eignastýring Íslandsbanka, valin fremsta eignastýringaþjónustan á Íslandi af breska tímaritinu World Finance. Þessar tvær viðurkenningar sýna vel hversu gott og metnaðarfullt starf er verið að vinna hjá bankanum. 

Íslandsbanki stækkaði skuldabréfaflokka sína á tímabilinu og er bankinn orðinn reglulegur útgefandi víxla. Íslandsbanki hefur einnig, í samstarfi við Bank of America Merill Lynch, fengið  heimild til að gefa út skuldabréf í erlendri mynt að andvirði 250 milljóna Bandaríkjadala og mun nýta tækifærið ef réttar aðstæður skapast á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum.

Endurútreikningur ólögmætra gengistryggðra lána gengur vel en búið verður að ljúka endurútreikningi á 90% virkra lána í lok mánaðarins. Íslandsbanki mun alls endurreikna um 15.000 ólögmæt gengistryggð lán og er áætlað að öllum endurútreikningi verði lokið fyrir árslok."
 
Síðar í dag munu Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri, kynna afkomu bankans á opnum fjárfestafundi og svara  fyrirspurnum. Fundurinn hefst kl. 16.00 og fer fram á íslensku. Nauðsynlegt að gestir skrái sig á afkomukynninguna á vef bankans

Hægt verður að nálgast fundargögn frá kynningunni á www.islandsbanki.is/fjarfestatengsl.

Nánari upplýsingar:


 

Til baka

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall