Frétt

Islandsbanki hf. : Ársuppgjör 2013

Helstu niðurstöður

 • Afkoma bankans eftir skatta var jákvæð um 23,1 ma. kr. árið 2013 (4F13: 7,7 ma. kr.) samanborið við 23,4 ma. kr. árið 2012 (4F12: 7,2 ma. kr.).
 • Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 14,7% á árinu (4F13: 19,5%) samanborið við 17,2% árið 2012 (4F12: 19,7%). Lækkun arðsemi milli ára skýrist fyrst og fremst af hækkun eigin fjár sem nemur 14,4% milli ára. 
 • Eiginfjárhlutfall var áfram sterkt eða 28,4% (2012: 25,5%) og eiginfjárhlutfall A (Tier 1) var 25,1% (2012: 22,0%). 
 • Hreinar vaxtatekjur námu 28,4 ma. kr. (2012: 32,9 ma. kr.) sem er lækkun um 13,7% milli ára. Vaxtamunur var 3,4% (4F13: 3,1%) og fer lækkandi samhliða því að afföll á lánasafni sem keypt var frá Glitni fara úr bókum bankans.
 • Hreinar þóknanatekjur námu í 10,4 ma. kr. á árinu (4F13: 2,8 ma. kr.) samanborið við 9,5 ma. kr. árið 2012 (4F12: 2,8 ma. kr.). Hækkunin er um 10% á milli ára og má að mestu rekja til viðskiptabanka, eignastýringar og dótturfélaga bankans.
 • Kostnaðarhlutfall var 58,5% (2012: 53,8%). 
 • Skattar og gjöld greidd til ríkis og stofnana námu samtals 12,4 ma. kr. á árinu, samanborið við 9,2 ma. kr. 2012, sem er hækkun um 34% á milli ára.
 • Virðisbreyting útlána og krafna var jákvæð um 16,3 ma. kr. á árinu (2012: 5,7 ma. kr.), en tekjufærsla vegna endurmats eigna var mun hærri en sértæk virðisrýrnun á árinu.
 • Frá stofnun bankans hafa um 35.500 einstaklingar og um 4.100 fyrirtæki fengið afskriftir, eftirgjafir eða leiðréttingar á skuldum sem nema um 548 ma. kr. 
 • Endurskipulagning gengur vel, hlutfall lána í endurskipulagningu var 8% (des. 2012: 14%), meira en 90 daga vanskil voru 4% (des. 2012: 8%).
 • Heildareignir voru 866 ma. kr. við lok árs 2013 (2012: 823 ma. kr.) en útlán til viðskiptavina hækkuðu um 3% á seinni árshelmingi. 
 • Heildarinnlán voru 519 ma. kr. (2012: 509 ma. kr.). 

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

„Árið 2013 var gott ár hjá Íslandsbanka og má segja að við höfum uppskorið árangur þeirra miklu og góðu vinnu sem starfsmenn á öllum sviðum bankans hafa lagt af mörkum á undanförnum árum. 

Auknar álögur á bankann draga úr hagnaði og var greiddur bankaskattur 2,3 milljarðar á árinu. Samtals greiddi Íslandsbanki 12,4 milljarða í skatta og gjöld til hins opinbera ásamt eftirlitsgjöldum.

Við sjáum aukin umsvif í atvinnulífinu en ný útlán á árinu 2013 námu um eitthundrað milljörðum króna og allt bendir til að fyrirtæki og einstaklingar hafi meira svigrúm til fjárfestinga en áður. Við höfum lagt áherslu á aukningu þóknanatekna sem skilaði sér í 10% aukningu þóknanatekna á milli ára en þær námu 10,4 milljörðum samanborið við 9,5 milljarða árið 2012. Íslandsbanki var fremstur í miðlun hlutabréfa á árinu og er leiðandi í skráningu hlutafélaga á markað.

Góð framvinda hefur verið í hagræðingarverkefnum innan bankans en hins vegar litast uppgjörið af einskiptisliðum, bæði í tekjum og kostnaði.

Við höfum lagt mikla áherslu á að fjölga stoðum í fjármögnun bankans með góðum árangri. Aðgengi að erlendum fjármagnsmörkuðum gerir okkur betur í stakk búin til að styðja við viðskiptavini okkar sem stunda alþjóðleg viðskipti og þarfnast fjármögnunar í erlendri mynt.

Kannanir sýna ítrekað að bæði einstaklingar og fyrirtæki, telja bankann vera í fararbroddi og vera leiðandi í þjónustu í dag. Þessar niðurstöður gleðja okkur mikið og hvetja okkur til að gera sífellt betur.“

Fjárfestakynning í Reykjavík

Síðar í dag kl. 16.00 munu Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri, kynna afkomu bankans á opnum fjárfestafundi og svara fyrirspurnum. Fundurinn fer fram á íslensku og er haldinn í höfuðstöðvum bankans að Kirkjusandi. Skrá mig.

Símafundur á ensku

Boðið verður upp á símafund fyrir markaðsaðila síðar í dag kl. 13. Fundurinn fer fram á ensku og farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans. Nauðsynlegt að gestir skrái sig ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila stuttu fyrir fundinn.

Allar kynningar og gögn er tengjast afkomu bankans má finna á www.islandsbanki.is/fjarfestatengsl.

Hér má sjá myndband þar sem Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka segir frá uppgjörinu:

Til baka

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall