Frétt

Islandsbanki hf. fær lánshæfismatið BB+/B með stöðugum horfum frá S&P

Íslandsbanki er í traustri stöðu á íslenskum fjármálamarkaði með 30-40% markaðshlutdeild á flestum sviðum, þrátt fyrir að vera með minnsta efnahagsreikninginn af viðskiptabönkunum þremur. Þetta kemur fram í lánshæfismati fyrir Íslandsbanka sem Standard & Poor's birti í dag.

Fyrirtækið gefur Íslandsbanka lánshæfiseinkunnina BB+ með stöðugum horfum sem er góð niðurstaða þegar horft er til lánshæfismats íslenska ríkisins, en einkunnin er aðeins einu þrepi frá íslenska ríkinu.

Í lánshæfismati S&P kemur fram að fyrirtækið telji tekjudreifingu Íslandsbanka góða þar sem tveir þriðju hluti tekna séu vaxtatekjur og að aðrar tekjur séu vel dreifðar á milli tekjusviða. Í matinu kemur enn fremur fram að yfirtökur á árunum 2011 til 2012 hafi styrkt bæði stöðu bankans og afstöðu S&P til stefnu og yfirstjórnar hans.

S&P segir Íslandsbanka vera vel í stakk búinn fyrir afléttingu gjaldeyrishafta þar sem bankinn sé vel fjármagnaður og með sterka lausafjárstöðu. Þá er skuldsetningarhlutfall bankans einstaklega gott í alþjóðlegum samanburði.

Í mati S&P kemur fram að bankinn hafi náð góðum árangri í endurskipulagningu lána og að markmið næstu ára séu áfram metnaðarfull. Í lok árs 2013 hafi hlutfall lána í endurskipulagningu (LPA) hjá bankanum verið 8,3% en meðaltal viðskiptabankanna þriggja var 12,5%.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

"Við erum sátt við þessa niðurstöðu sérstaklega í ljósi þess að lánshæfiseinkunnin er aðeins einu þrepi frá einkunn íslenska ríkisins. Þess er þó ekki að vænta að lánshæfismat íslenskra banka hækki frekar fyrr en að mat á lánshæfi íslenska ríkisins batnar. Það er mikilvægt verkefni sem allir hagsmunaaðilar verða að vinna að í sameiningu.

Þessi niðurstaða S&P er viðurkenning á því að sú stefna undanfarinna ára hefur skilað árangri. Íslandsbanki er í dag vel fjármagnaður en lánshæfismatið mun auðvelda aðgengi okkar að erlendum fjármálamörkuðum enn frekar og gera okkur betur í stakk búin til að styðja við viðskiptavini okkar sem stunda alþjóðleg viðskipti og þarfnast fjármögnunar í erlendri mynt. Þannig uppfyllum við best hlutverk bankans, að veita fjármagni til fjárfestinga og uppbyggingar í íslensku atvinnulífi."

Nánari upplýsingar um lánshæfismatið

Til baka

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall