Vignir Þór Sverrisson
Fjárfestingastjóri
5. mars 2015

Hver er staðan á erlendum fjármálamörkuðum?

Hlutabréfamarkaðir heimsins eru í dag margir hverjir í sínum hæstu gildum frá upphafi. Nasdaq vísitalan nálgast sem dæmi hæsta gildi síðan tæknibólan sprakk árið 2000. Það verður þó að segjast að fjárfestingarumhverfið í dag er mjög óvenjulegt og á sér ekki sögulegar hliðastæður.

Seðlabankar í sviðsljósinu

Efnahagsreikningar Seðlabanka Bandaríkjanna, Japan og Evrópu hafa verið að blása út gífurlega hratt. Sem dæmi þá hefur efnahagsreikningur bandaríska Seðlabankans tæplega fimmfaldast frá september 2008. Seðlabankar hafa verið að beita magnbundnum íhlutunum í meira mæli en þekkst hefur í fjármálasögunni. Seðlabankar hafa verið að prenta peninga til þess að kaupa skuldabréf á markaði til að auka laust fé og lækka ávöxtunarkröfur skuldabréfa.

Hvað er magnbundin íhlutun ?

Magnbundin íhlutun er samheiti peningastefnuaðgerða sem er notaðar af seðlabönkum heimsins til að örva hagkerfi þegar hefðbundnar aðgerðir hafa ekki reynst vel eða ganga ekki upp. 

Framkvæmd aðgerðanna er þannig að Seðlabankinn prentar pening og kaupir skuldabréf af fjármálafyrirtækjum og á markaði. Með því stuðla þeir að lægra vaxtastigi sem eykur hvata fyrirtækja til að endurfjármagna og taka ný lán. Aukin lántaka og betri kjör hjálpa svo rekstri fyrirtækja sem leiðir til aukinnar atvinnu sem á svo að leiða til aukins hagvaxtar.

Evrópski Seðlabankinn kynnti nýverið áætlanir sínar um að setja um 1.000 milljarða evra inn á markaðinn til þess að minnka líkur á verðhjöðnun.

Áhrif magnbundinnar íhlutunar á hlutabréfaverð og vexti

Þessar aðgerðir hafa aukið verulega peningamagn í umferð auk þess sem vaxtastig í heiminum er orðið það lægsta í nútíma hagsögu. Áhrifin á hlutabréfamarkað eru ótvíræð. Mikil innspýting af ódýrum peningum hefur ýtt upp hlutabréfaverði. Aðgerðirnar hafa í raun gengið það langt að Ben Bernanke fyrrum Seðlabankastjóri Bandaríkjanna beinlínis talaði um að markmið væri að styðja við eignaverð í landinu í ræðu sinni 4. nóvember 2010. 

Áhrif á vexti eru mikil. Í Bandaríkjunum hafa stýrivextir verið í kringum núllið í 70 mánuði. Nú er svo komið í Evrópu að fjárfestar sem vilja jákvæða vexti í t.d. svissneskum frönkum þurfa að kaupa 10 ára skuldabréf og gefa þau þá 0,01% nafnvexti á ári. Lágir vextir gera hlutabréf mjög álitleg sér í lagi ef þau eru að greiða út arð.

Gjaldmiðlastríð, olíustríð og baráttan við að ná fram hagvexti

Lágt vaxtastig leiðir ætti alla jafnan að leiða til þess að gjaldmiðlar þeirra landa veikist. Veikari gjaldmiðill er jákvæðari fyrir útflutningsfyrirtæki á viðkomandi svæði og styrkir samkeppnisstöðu svæðisins. Vandinn nú er að of mörg lönd eru að reyna að fara í sömu átt með gjaldmiðla sína. Sem dæmi þá hefur evran veikst um rúm 20% á móti bandaríkjadal sem hefur jákvæð áhrif á ferðamennsku og útflutning í Evrópu en við sjáum nú merki þess að útflutningsfyrirtæki í Bandaríkjunum er að kvarta undan of sterkum dollar.

OPEC hefur sögulega dregið úr framboði á olíu þegar hagvöxtur í heiminum hefur verið að dragast saman og þannig stutt við olíuverðið. Nú er svo komið að OPEC ríkin hafa haldið framleiðslu óbreyttri og leyft verðinu að falla en olían hefur lækkað um rúm 50% frá því í júní í fyrra. Lágt olíuverð hefur mikla kosti í för fyrir sér fyrir heimsbúskapinn þar sem það eykur hagvöxt en ef lönd reiða mikið á olíuútflutning þá hefur það mjög neikvæð áhrif. Bandaríkin urðu nýverið nettó útflytjendur af olíu í kjölfar aukinnar framleiðslu í landinu. Þetta hefur verið þyrnir í augum OPEC ríkjanna og mun lægra olíuverð þvinga marga nýja framleiðendur að olíu út af markaðnum þar sem olíuverð er lægra en kostnaðurinn við að ná í olíuna. Stærri olíuríkin eru því í raun að ganga á gjaldeyrisforða landa sinna en þau hafa vel efni á því eftir að hafa aukið forðann verulega í gegnum árin.

Afstaða fjárfesta

Lágir vextir, ódýr olía, íhlutunaraðgerðir og mikið peningamagn í umferð hefur leitt til þess að fjárfestar eru bjartsýnastir á hlutabréf og fasteignamarkaði. Hér er þá sérstaklega átt við markaði í þróaðri ríkjum.

VÍB hélt á dögunum fræðslufund um stöðuna á erlendum mörkuðum. VÍB veitir ráðgjöf og upplýsingar um erlenda markaði í síma 440-4900 og á vib@vib.is. Erlendir samstarfsaðilar VÍB eru m.a. Vanguard, DnB og Blackrock . Hér að neðan má sjá upptöku frá fundinum.

cc9ae783-32c8-11e4-bde2-005056b00087
Netspjall