Vignir Þór Sverrisson
Fjárfestingastjóri
2. desember 2015

Kínverska myntin inn í gjaldeyriskörfu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins

Í vikunni var tilkynnt formlega um að kínverska yuan myntin yrði hluti af sérstökum dráttarréttindum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS). Markaðsaðilar höfðu almennt spáð að myntinni yrði bætt við körfuna en staðfestingin hefur þó nokkra þýðingu. Þetta er í fyrsta skiptið síðan 1999 að myntkörfu sjóðsins er breytt en síðast var það evran sem að kom inn í körfuna í stað marksins og frankans

SDR (sérstök dráttarréttindi, e. Special drawing rights)

Upphaf SDR má rekja til ársins 1969 þegar markmiðið var að nota réttindin sem gjaldeyrisvarasjóð landa undir Bretton Woods reglugerðinni sem átti að búa til reglur um gengi gjaldmiðla milli Bandaríkjanna, Kanada, Evrópu, Ástralíu, Asíu og Japan. Eftir að það kerfi féll þá hefur mikilvægi SDR minnkað til muna. Í dag er það aðallega notað af AGS í þeim aðgerðum sjóðsins auk þess sem viðskipti milli ríkisstjórna, seðlabanka og alþjóðastofnana nota einnig SDR. Þau lönd sem eru aðilar að AGS hafa rétt á því að fá fé frá sjóðnum undir ákveðnum aðstæðum og eru upphæðir ákvarðaðar út frá SDR gengi.

Samsetningin í dag

Mikilvægi mynta í gjaldeyrisvarasjóðum heimsins ræður vigtinni í körfunni. Mynd af því hvernig myntkarfan lítur núna út má sjá hér til hliðar.

Af þessu sést að kínverska myntin verður stærri en jenið og pundið í körfu sjóðsins og í því felst töluverð viðurkenning fyrir Kína. Þetta því mikil traustsyfirlýsing fyrir kínverska hagkerfið og þær umbætur sem búið er að vinna í með það að markmiði að opna hagkerfið frekar. Viðurkenning AGS á myntinni mun að öllum líkindum auka frekar viðskipti með myntina á opnum markaði og færir Kína nær því að vera mikilvægur hlekkur í hagkerfum heimsins.

cc9ae783-32c8-11e4-bde2-005056b00087
Netspjall