Björn Berg Gunnarsson
Fræðslustjóri
20. júlí 2018

Svona virka skerðingar TR

Greinin hefur verið uppfærð vegna breytinga sem gerðar voru á upphæðum í byrjun árs 2019. 

Greiðslur ellilífeyris Tryggingastofnunar (TR) eru tekjutengdar. Eftir því sem tekjur eftirlaunaþega eru hærri, því minna greiðir ríkið. Gott er að muna að einungis er skert vegna tekna, en eignir hafa engin áhrif.

Ákveðnar undanteknar eru þó á skerðingum:

 • Frítekjumark launa
  100.000 kr. frítekjumark er á launatekjum í hverjum mánuði, 1.200.000 kr. á ári. Undir þeim mörkum skerða laun ekki greiðslur. Gott er að líta til árlega frítekjumarksins sé gripið í tilfallandi störf. Sem dæmi fær sá sem vinnur 3 mánuði á ári og fær 400.000 kr. mánaðalaun 1.200.000 kr. launatekjur í heildina það árið og verður ekki fyrir skerðingum.
  Grein: Frítekjumark launa hjá TR
 • Almennt frítekjumark
  Auk frítekjumarks launa er almennt frítekjumark 25.000 kr. á mánuði, eða 300.000 kr. á ári. Aðili sem er með 300.000 kr. lífeyristekjur á mánuði og 100.000 kr. launatekjur að auki er þannig með 400.000 kr. tekjur en þar sem samanlögð frítekjumörkin eru 125.000 kr. munu aðeins 275.000 hafa áhrif til skerðingar.
 • Hálfur lífeyrir skerðist ekki
  Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum er mögulegt að sækja um hálfan lífeyri hjá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun. Í þeim tilvikum skerðast greiðslur frá stofnuninni ekki vegna neinna tekna.
  Grein: Hálfur lífeyrir

Greiðslur og skerðingar

Eftir einföldun kerfisins um áramótin 2016-2017 sitja eftir tvær tegundir greiðslna:

 • Ellilífeyrir
  Ellilífeyrir getur að hámarki verið 248.105. kr. á mánuði. Tekjur umfram frítekjumörk skerða greiðslurnar um 45%. Hafa þarf í huga að greiðslur TR eru skattskyldar. Eftir skatta eru greiðslur og skerðingar því minni og eru skerðingar eftir skatta nær 30%. Greiðslur lækka með hækkandi tekjum þar til tekjur umfram frítekjumark atvinnutekna ná 576.344 kr. Þá eru greiðslurnar að fullu skertar.
 • Heimilisuppbót
  Þeir sem búa einir fá aukalega greidda svokallaða heimilisuppbót. Heimilisuppbótin getur mest numið 62.695kr. og er skerðingarhlutfall 11,9%.

Dæmi um skerðingar og frítekjumörk

Einstaklingur býr einn, fær 250.000 kr. úr lífeyrissjóði og 200.000 kr. launatekjur að meðaltali á mánuði. Ávöxtun af sparnaði er 20.000 kr. á mánuði.

Vegna frítekjumarks launatekna hefur helmingur launatekna (100.000 kr.) áhrif til skerðingar. 25.000 dragast að auki frá tekjum vegna almenna frítekjumarksins. Af 470.000 kr. heildartekjum skerðast greiðslur TR því vegna 345.000 kr.

 • Skerðing ellilífeyris
  345.000 kr. x 0,45 = 155.250 kr.
  (skerðingargrunnur tekna x skerðingarhlutfall = skerðingar)
 • Skerðing heimilisuppbótar
  345.000 kr. x 0,119 = 41.055 kr.

Í þessu tilviki hafa 470.000 kr. heildartekjur því skert greiðslur TR um 196.305 kr. eða um 42% fyrir skatt.

Hver verður staðan hjá þér?

Langbesta leiðin til að átta sig á áhrifum tekna er að nota reiknivél lífeyris á vef TR. Þar getur hver og einn fært inn sínar forsendur og séð hvernig niðurstöðurnar breytast og greiðslur skerðast eða aukast þegar breytingar verða á tekjum.

Íslandsbanki veitir ráð og leiðbeiningar varðandi starfslok og sparnað á lífeyrisaldri. Þú getur pantað ráðgjöf hér eða hringt í okkur í síma 440-4900.
a61176cc-869c-11e8-954f-005056b00087
Netspjall