Sara Margareta Fuxén
Deildarstjóri hjá VÍB
1. júlí 2015

Ertu að safna fyrir þinni fyrstu íbúð? Ekki missa af besta sparnaðarkostinum

Ertu að spá í að kaupa þína fyrstu íbúð? Hvernig gengur að spara fyrir útborgun?

Kaup á íbúð er stærsta skuldbindingin sem flestir fara út í á lífsleiðinni. Íbúðin er fjármögnuð annars vegar með sparnaði (eigið fé) og hins vegar með lántöku til margra ára. Því er mikilvægt að taka upplýsta ákvörðun og vanda til verka. Það er erfitt að safna fyrir útborgun og það er metnaðarfullt markmið að ætla að fjármagna kaupin með eins miklu eigin fé og hægt er. 

En hvernig byggjum við upp nógu mikinn sparnað?

Þegar byggja á upp sparnað er hægt að fara margar leiðir. Það er t.d. hægt að leggja fyrir ákveðna upphæð mánaðarlega eða selja bílinn og hjóla á milli staða. Það er allt gott og gilt en ef þú ert í fastri vinnu þá máttu ekki klikka á séreignarsparnaðinum! Með því að leggja mánaðarlega í séreignarsparnað getur þú byggt upp sparnað fyrir húsnæði, enda er hægt að taka hann út skattfrjálst þegar fjárfest er í íbúð.

Já, það er rétt, pening sem ætti að greiða í skatt má nota til að byggja upp húsnæðissparnað. Betri sparnaðarkostur er varla til. 

Þú ákveður hlutfallið

Lykilatriðið til að nýta sér þennan sparnaðarkost er að vera með virkan samning um séreignarsparnað. Þú velur hvort þú leggur til 2 eða 4% af launum um hver mánaðamót og á sama tíma leggur launagreiðandi til 2% mótframlag. Þannig má lýsa séreignarsparnaðinum sem 2% launahækkun. 

Gefum okkur að þú sért með 300.000 kr. í laun á mánuði. Þú velur að spara 4% eigið framlag, 12.000 kr., og launagreiðandi þinn borgar 2% á móti, 6.000 kr. Samtals 18.000 kr. og ef þú finnur íbúð sem þú ætlar að kaupa þá getur þú notað þessar 18.000 kr. skattfrjálst í húsnæðissparnað. 

18.000 kr.eða 7.524 kr.?

Ef þú nýtir þér ekki að greiða í séreignarsparnað þá fengir þú þessar 12.000 kr. borgaðar út sem þýðir 7.524 kr. eftir skatt (37,30%).  Það munar miklu hvort þú fáir 7.524 kr. um hver mánaðamót eða getir lagt 18.000 kr. skattfrjálst í húsnæðissparnað. 

Þetta úrræði tók gildi í júní 2014 og hægt er að nýta séreignarsparnaðariðgjöld frá þeim tíma til júní 2017 en fasteignakaupin þurfa að fara fram fyrir júní 2019. 

Kynntu þér málið nánar á islandsbanki.is

e9c8877e-6de1-11e5-bb16-005056b00087,0e5eb02a-3f24-11e4-bde2-005056b00087
Netspjall