Finnur Bogi Hannesson
Vörustjóri húsnæðislána
26. september 2015

Hvernig kaupi ég íbúð?

Þeir sem stefna á að kaupa sína fyrstu íbúð geta oft týnst í þeim frumskógi af upplýsingum sem í boði eru. Það að fjárfesta í húsnæði getur verið ein stærsta ákvörðun sem fólk tekur á lífsleiðinni og því er nauðsynlegt að vanda til verka.

Hér er dæmi um ferli við kaup á húsnæði.

Sparnaður fyrir útborgun

Það getur tekið tíma að safna sér fyrir útborgun í fasteign og því fyrr sem þú byrjar því betra. Við bjóðum upp á sérstaka húsnæðissparnaðarreikninga þar sem sparnaðurinn er bundinn í ákveðinn tíma en að honum loknum færðu frítt greiðslumat og afslátt af lántökugjöldum þegar að líður að kaupum.

Hvaða lán eru í boði?

Flestir taka húsnæðislán fyrir meirihluta kaupverðs. Veðhlutfall hefur því mikil áhrif á það hversu dýra eign þú getur keypt þér. Við bjóðum bæði upp á verðtryggð og óverðtryggð lán að hámarki 80% af kaupverði eignar, en einnig er hægt að blanda saman báðum lánsformum. Þeir sem eru að kaupa í fyrsta skipti geta líka fengið allt að 1.500.000 kr. aukalán.

Mikilvægt er að þekkja muninum á þessum ólíku lánstegundum og þá sérstaklega muninn á breytilegum og föstum vöxtum. Það er ekki síður mikilvægt að velta vel fyrir sér þeim áhrifum sem lengd lánstíma og greiðslufyrirkomulag hafa á mánaðarlega greiðslubyrði, eignamyndun og heildarlántökukostnað.

Greiðslumat

Áður en þú velur húsnæðið er mikilvægt að átta sig á hvað íbúðin má kosta. Greiðslumat er góður mælikvarði á hversu mikil greiðslubyrðin má vera á mánuði. Með bráðabirgðaútreikningi á greiðslugetu þinni færðu svar við hversu mikið eignin má kosta miðað við forsendur um eigið fé og mismunandi lánstegundir. Þú getur gert bráðabirgðagreiðslumat og skilað inn umsókn á vefnum okkar.

Þegar draumahúsnæðið er fundið er staðfest greiðslumat forsenda lánveitingar. Skila þarf inn formlegri umsókn um greiðslumat ásamt ítarupplýsingum, þar á meðal afriti af launaseðlum síðustu þriggja mánaða, skattskýrslu síðasta árs og greiðsluseðlum annarra lána.

 

Reiknaðu út þitt bráðabirgðagreiðslumat á Islandsbanki.is

 

Finna eignina

Þegar að niðurstaðan úr greiðslumatinu liggur fyrir veistu nokkurn veginn hversu dýra eign þú hefur ráð á að kaupa. Mikilvægt er að velja eignina vel því hún þarf að standa undir kaupverðinu til lengri tíma litið. Fasteignamælaborð Íslandsbanka getur hjálpað þér að bera saman kaupverð við verðþróun í ákveðnum hverfum og landshlutum síðustu ár.

Kauptilboð

Þegar að þú hefur fundið eignina er næsta skref að bjóða í hana. Gættu þess að freistast ekki til að spenna bogann of hátt því kauptilboð í fasteign er bindandi. Gott er að vera búin/n að ákveða fyrirfram hversu hátt verð þú ert reiðubúin/n að greiða fyrir viðkomandi eign áður en þú leggur fram fyrsta tilboð. Tilboðið þarf að samræmast því hversu mikið þú ert tilbúin/n að leggja út fyrir eigninni og hversu hátt lán þú getur eða vilt borga af. Þar að auki er mikilvægt að skoða ástand eignarinnar með tilliti til rekstrar- og framkvæmdarkostnaðar.

Á vef Félags fasteignasala er að finna góð ráð fyrir kaupendur.

Lánsskjöl útbúin

Hér þarftu endanlega að vera búin/n að ákveða það lánsform sem þú hyggst taka. Hafðu þó í huga að greiðslumatið þitt er unnið út frá ákveðinni lánstegund og því er ekki víst að greiðslugeta þín nægi til að borga af annarri lánasamsetningu en greiðslumatið tók mið af.

Þegar þú hefur endanlega ákveðið þig eru viðeigandi lánsskjöl útbúin og þú ert látinn vita þegar þau eru tilbúin til undirritunar. Mikilvægt er að lesa þau vel yfir til þess að ganga úr skugga um að þau séu í samræmi við þínar óskir.

Það er gaman að kaupa sína fyrsu íbúð

Kaupsamningur og þinglýsing

Þegar gerður er kaupsamningur fer löggiltur fasteignasali yfir helstu atriði hans með bæði kaupanda og seljanda, s.s. greiðslutilhögun, afhending eignar o.fl. Á þessu stigi málsins er mikilvægt að spyrja um allt sem þurfa þykir áður en undirritun fer fram. Þegar allir pappírar hafa verið undirritaðir eru lánsskjöl send í þinglýsingu. Húsnæðislánið er svo greitt út þegar bankanum berst þinglýst veðskuldabréf.

Afhending eignar

Afhendingardagur eignar getur verið eitt af því mikilvægara sem samið er um í kaupsamningi og oftast afar mikilvægt að þær áætlanir standist. Þessi tímamót eru yfirleitt skemmtilegasti hluti kaupferlisins enda sá tímapunktur sem beðið hefur verið eftir. Oft fylgir þessu mikil eftirvænting en þessu getur einnig fylgt töluverð vinna við flutninga og standsetningu húsnæðisins sem flutt er í.

Afsal

Fasteignasali boðar til afsals þegar bæði seljandi og kaupandi hafa uppfyllt sínar skyldur samkvæmt kaupsamningi. Þá geta hin eiginlegu eigendaskipti farið fram. Oftast fer lokagreiðslan fram við afsal en mikilvægt getur verið að halda einhverjum greiðslum eftir fram að þessum tímapunkti ef upp hafa komið einhverjir gallar sem ekki var vitað um við undirritun kaupsamnings. Ef allt er eins og það á að vera þá er lokagreiðslan greidd til seljanda og hann afsalar sér eigninni til kaupanda. Afsalið er svo sent í þinglýsingu.

Eftir það ert þú orðinn þinglýstur eigandi eignarinnar og ferð með fullan ráðstöfunarrétt yfir henni.

-------------------------------------------------------

Það er gaman að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð og eðlilega er mikil eftirvænting. Þó ber að fara að öllu með gát enda getur í mörgum tilvikum verið um að ræða stærstu einstöku fjárfestingu sem fólk ræðst í. Þú getur talað við sérstaka ráðgjafa í húsnæðisþjónustu í öllum útibúum Íslandsbanka en þeir geta ráðlagt þér á öllum stigum húsnæðiskaupaferlisins. 

Smelltu hér til að panta viðtal hjá ráðgjafa í húsnæðisþjónustu.


e9c8877e-6de1-11e5-bb16-005056b00087,0e5eb02a-3f24-11e4-bde2-005056b00087
Netspjall