Birgir Guðjónsson
Ráðgjafi í húsnæðisþjónustu
3. febrúar 2015

Hvernig lán á ég að taka?

Að fjárfesta í húsnæði er í flestum tilfellum stærsta fjárhagslega ákvörðun sem einstaklingar taka í sínu lífi. Fólk safnar fyrir útborgun í íbúð, finnur draumaeignina og þarf svo „bara“ að taka lán og eignin er þeirra. Flestir þurfa að taka lán fyrir meirihluta kaupverðs og því er lánafyrirgreiðslan mjög stór ákvörðun. Það er því mikilvægt að huga vel að henni þó að tilhugsunin um að eignast eigin íbúð sé meira spennandi heldur en að skulda nokkrar milljónir.

Það er vel skiljanlegt að þekking á lánamálum er misjöfn enda bakgrunnur fólks misjafn. En flestir þekkja einhvern sér nákominn sem hefur meira vit á lánmálum en hann sjálfur og því getur verið gott að fá ráðleggingar frá slíkum aðila. Það er hins vegar ekki þar með sagt að sá sem leitað er til þekki fjárhag heimilisins, fjárhagslegar væntingar og markmið lántaka. Það vill því oft verða þannig að sumir mæla með lánstegundum og formum sem henta alls ekki þeim sem síðan tekur lánið. 

Það eru margir kostir í boði og um margt að hugsa um áður en ákvörðun er tekin.. Það sem er hagstætt fyrir einn aðila er ekki endilega hagstætt fyrir annan. Þess vegna er enn mikilvægara fyrir lántakann að kynna sér alla þá kosti og ókosti sem lán geta borið. Lánum þarf að stilla upp þannig að þau henti lántakanum sjálfum en ekki meðmælandanum, það er jú lántakinn sjálfur sem greiðir af láninu og ber ábyrgð á því.

Breytingar verða eftir því sem tíminn líður

Verðbólga, vaxtakjör og lánsform eru þar engar undantekningar og fyrirfram veit enginn hvernig þessar breytingar þróast. Í dag getur enginn sagt með fullri vissu hvernig hagkerfið verður árið 2020 og því getur engin sagt með fullri vissu hvaða lán verður best þá. Því getur tíminn einn leitt í ljós þær breytingar sem koma til með að eiga sér stað. Það er því best fyrir lántaka að kynna sér lánamöguleika vel og þannig taka upplýsta ákvörðun út frá sínum eigin sjónarmiðum og stöðu. Ennfremur er mikilvægt að fara reglulega yfir stöðuna með lánveitanda aftur eftir að lánið hefur verið tekið og meta hvort það lán sem tekið var henti miðað við þær breytingar sem hafa átt sér stað á hverjum tíma.

Ráðgjafar okkar í húsnæðisþjónustu í öllum útibúum Íslandsbanka eru tilbúnir að skoða húsnæðislánamöguleika einstaklinga með það að leiðarljósi að upplýsa, fræða og þar með auðvelda ákvörðun lántakans um hvaða lán skal taka. 

Þú getur pantað viðtal á Islandsbanki.is

e9c8877e-6de1-11e5-bb16-005056b00087,0e5eb02a-3f24-11e4-bde2-005056b00087
Netspjall