Nýr Glitnir tekur til starfa

15.10.2008

Í dag tók til starfa nýr banki í eigu ríkissjóðs sem tekur við hluta af starfsemi Glitnis banka hf. Bankastjóri Nýja Glitnis er Birna Einarsdóttir en hún hóf störf hjá Glitni og forverum hans, Iðnaðarbanka og Íslandsbanka árið 1987, nú síðast sem framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs. Framkvæmdastjórn Nýja Glitnis er skipuð einstaklingum sem allir hafa mikla reynslu á sínu sviði innan og utan bankans.

Á stjórnarfundi FME þann 14. október var tekin ákvörðun um að Nýi Glitnir hf. tæki yfir hluta af eignum, réttindum og skyldum Glitnis banka hf. og heyrir innlendi hluti af starfsemi bankans frá þeim tíma því undir nýtt fyrirtæki og nýja stjórn.

Um er að ræða rekstur allra útibúa á landinu, útlánastarfsemi og aðra hefðbundna bankastarfsemi. Með þessu hefur alþjóðleg starfsemi bankans verið skilin frá innlendu starfseminni.

Áætlað er að heildarfjöldi starfsmanna hins nýja banka verði í kringum 960 manns sem allir munu koma úr röðum núverandi starfsmanna Glitnis. Þessi breyting hefur í för með sér að um 97 starfsmenn Glitnis banka hf. á Íslandi munu missa vinnuna. Glitnir banki hefur á þessu ári hagrætt töluvert í rekstri og hefur það með annars starfsmönnum fækkað um 250 það sem af er ári, fyrir þessar aðgerðir.

Unnið hefur verið að þessum aðgerðum í nánu samstarfi við Samtök starfsfólks fjármálafyrirtækja og Starfsmannafélag Glitnis. Starfsmönnum bankans stendur til boða að leita raðgjafar hjá sálfræðingi og þeim starfsmönnum sem ekki flytjast yfir í nýja félagið verðuð boðið að sækja sér starfsráðgjöf hjá Capacent.

Framkvæmdastjórar Nýja Glitnis eru: Una Steinsdóttir - viðskiptabankasviði, Stefán Sigurðsson - Eignastýringu, Vilhelm Már Þorsteinsson - Fyrirtækjasviði, Jóhannes Baldursson - Fjárstýringu og markaðsviðskiptum, Sigrún Ragna Ólafsdóttir - Fjármála- og rekstrarsviði og Rósant Már Torfason - Áhættustýringu, lánaeftirliti og lögfræðisviði. Allir þessir einstaklingar hafa mikla reynslu á sínu sviði, innan sem utan bankans.

Engin breyting verður á hefðbundnum viðskiptum milli bankans og viðskiptavina hans. Útibú bankans munu starfa óbreytt og engin breyting verður á opnunartíma þeirra. Þjónusta við einstaklinga og fyrirtæki verður sú sama og notkun greiðslukorta verður með hefðbundnum hætti. Sömu inn- og útlánsreikningar verða í hinum nýja banka eins og áður var. Netbanki og hraðbankar starfa í óbreyttri mynd. Í ákvörðuninni felst m.a. að nýi bankinn yfirtekur allar innstæðuskuldbindingar í bankanum á Íslandi og sömuleiðis stærstan hluta eigna bankans sem tengjast íslenskri starfsemi s.s. lán og aðrar kröfur.

Birna Einarsdóttir hóf störf hjá Glitni og forverum hans árið 1987 (þá Iðnaðarbankanum) og hefur m.a. starfað sem útibússtjóri og markaðsstjóri Íslandsbanka, forvera Glitnis. Eftir nokkurt hlé réð Birna sig aftur til bankans haustið 2004 þá framkvæmdastjóri sölu og markaðsmála. Hún hefur verið framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Glitnis síðan í júní á síðasta ári. Birna starfaði um sex ára skeið að markaðsmálum hjá Royal Bank of Scotland. Hún hefur jafnframt starfað sem markaðsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins - Stöðvar 2 og Íslenskra getrauna. Birna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og MBA frá Háskólanum í Edinborg.

,,Síðustu vikur hafa verið erfiðar fyrir alla þá sem starfa í bankageiranum. Við horfum nú á eftir góðum vinum og félögum. Það er að mínu mati forgangsatriði fyrir samfélagið að kraftar þessa fólks verði virkjaðir á öðrum vettvangi. Næstu daga munum við hjá Glitni leggja megináherslu á að hugsa um viðskiptavini og fólkið okkar. Það er verkefni okkar að byggja aftur upp öfluga bankastarfsemi á Íslandi. Starfsfólk Glitnis hefur á þessu ári þurft að takast á við erfið verkefni og leyst þau af hendi afar vel. Það býr ótrúlegur kraftur í  fólkinu okkar.

Framundan eru tímar breytinga og uppbyggingar í íslensku samfélagi.Það þurfa allir að leggjast á eitt til þess að tryggja að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast. Við hjá Glitni ætlum að axla okkar ábyrgð í því sambandi og erum reiðubúin til þess að fara í þá vinnu með yfirvöldum og hagsmunaaðilum. Það þurfa allir að sýna samstöðu, þannig komust við öll í gegnum þetta.

Ég starfaði náið með Lárusi Welding og vil nota tækifærið og þakka honum fyrir hans góða starf fyrir Glitni. Þegar hann kom inní í bankann um mitt síðasta ár blöstu við mörg erfið verkefni sem hann leysti vel af hendi. Ég þakka honum samstarfið og óska honum velfarnaðar í framtíðinni.

Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni og er bjartsýn á að með samstilltu átaki náum við öll að snúa  þeim áskorunum sem við stöndum nú frammi fyrir í tækifæri."

Már Másson, forstöðumaður samskiptamála Glitnir sími: 440 4990, farsími: 844 4990, t-póstur: mar.masson@glitnir.is

Nýjustu fréttir

Íslandsbanki gefur út skuldabréf fyrir 300 milljónir evra og tilkynnir um endurkaup á hluta af eldra skuldabréfi

04.04.2019 - Kauphöll
Íslandsbanki hefur í dag gefið út skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir evra (um 40 milljarðar íslenskra króna) til 3 ára. Bréfið ber 1,125% fasta vexti...Nánar

Aðalfundur Íslandsbanka 2019 - dagskrá, aðilar í framboði og tillögur

19.03.2019
Aðalfundur Íslandsbanka verður haldinn fimmtudaginn 21. mars 2019, kl. 15:00 í höfuðstöðvum bankans á 9. hæð Norðurturns að Hagasmára 3, 201 Kópavogi...Nánar

Íslandsbanki með átta tilnefningar til Lúðursins

28.02.2019
Íslandsbanki er með átta tilnefningar til Lúðurins ásamt því að vera tilnefndur til ÁrunnarNánar

Aðalfundur Íslandsbanka

25.02.2019
Aðalfundur Íslandsbanka verður haldinn fimmtudaginn 21. mars 2019.Nánar

Sparað fyrir barneignum

20.02.2019
Tekjutap aðila með meðaltekjur í 6 mánaða fæðingarorlofi nemur um 640.000 krónum. Við þetta bætast 400.000 krónur í töpuðum séreignarsparnaði. Ástæðan...Nánar

Íslandsbanki hefur gefið út ársskýrslu og áhættuskýrslu (Pillar 3) fyrir árið 2018

13.02.2019 - Kauphöll
Íslandsbanki hefur gefið út ársskýrslu og áhættuskýrslu fyrir árið 2018. Nánar

Ársuppgjör 2018

13.02.2019 - Kauphöll
Afkoma bankans og Íslandssjóða var ágæt á árinu og skilaði samstæðan hagnaði upp á 10,6 ma. kr. en erfiður rekstur annarra dótturfélaga dró heldur úr...Nánar
Netspjall