Erlendir aðilar með aðkomu að Íslandsbanka

20.07.2009

Samkomulag hefur náðst um fjármagnsskipan Íslandsbanka. Glitnir banki hf. hefur með því öðlast rétt til þess að eignast allt hlutafé í Íslandsbanka. Þetta er niðurstaða samningaviðræðna stjórnvalda við fulltrúa kröfuhafa Glitnis. Með þessu gæti Íslandsbanki komist  í eigu erlendra aðila innan tíðar. Samkvæmt samkomulagi ríkisins og kröfuhafa mun ríkið leggja bankanum fyrst til nýtt eigið fé sem kröfuhöfum gefst kostur á að eignast fyrir 30. september nk. að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ríkið mun jafnframt leggja bankanum til fé í formi víkandi láns sem styrkir eiginfjár- og lausafjárstöðu bankans.

Eignaraðild Glitnis á Íslandsbanka tengir saman hagsmuni erlendra kröfuhafa Glitnis við framtíðararðsemi Íslandsbanka. Á sama tíma er tryggt að bankinn sé með sterkan eiginfjárgrunn og  trausta lausafjárstöðu.

Aðkoma erlendra kröfuhafa

Mikil vinna hefur farið fram af hálfu starfsmanna Íslandsbanka og skilanefndar Glitnis á undanförnum mánuðum í tengslum við samningaviðræðurnar.  Með erlendu eignarhaldi mun Íslandsbanki aftur verða beintengdur alþjóðlegu fjármálakerfi en meðal kröfuhafa Glitnis eru margar af öflugustu fjármálastofnunum í Bandaríkjunum og Evrópu. Aðkoma erlendra kröfuhafa mun stuðla að bættum aðgangi bankans að alþjóðlegum fjármálamörkuðum sem mun gera bankanum betur kleift að þjóna viðskiptavinum sínum enn betur í framtíðinni. Þetta er einnig mikilvægur þáttur fyrir framtíðaruppbyggingu íslensks atvinnulífs og fjármálakerfis.

Skilvirkur banki með trausta eiginfjárstöðu

Með þeim samningi sem nú liggur fyrir á milli ríkisins og skilanefndar Glitnis mun  Íslandsbanki standa uppi sem öflugur banki, með sterkan efnahagsreikning, traust eiginfjárhlutfall og góða lausafjárstöðu.

Mikil hagræðing hefur átt sér stað á bankanum og forvera hans frá því í byrjun árs 2008 og hefur starfsmönnum bankans á Íslandi fækkað úr um 1300 í tæplega 900. Hjá bankanum starfa nú jafnmargir starfsmenn og árið 2003 en efnahagsreikningur bankans er í dag þriðjungi stærri en hann var þá. Þá er útibúanet Íslandsbanka það hagkvæmasta á Íslandi þar sem bankinn hefur ávallt lagt mikla áherslu á aðhald í rekstri.

Uppbyggingarstarf heldur áfram

Uppbygging og stefnumótun Íslandsbanka hefur gengið vel frá stofnun hans sl. haust og verður því starfi haldið áfram. Bankinn býður alhliða bankaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki á Íslandi. Utan Íslands byggir bankinn fyrst og fremst á þeirri sérþekkingu og viðskiptasamböndum sem hann býr yfir í sjávarútvegi og orkugeiranum, en fram hefur komið meðal fulltrúa kröfuhafa að þeir telji þessa sérstöðu bankans skapa honum sóknarfæri í framtíðinni.

Með aðkomu erlendra aðila að bankanum mun staða hans styrkjast enn frekar á þessum sviðum.

Árni Tómasson formaður skilanefndar Glitnis:

"Við í skilanefnd Glitnis erum ánægð með að hafa náð samningum við ríkisvaldið sem við teljum að tryggi kröfuhöfum í senn hámarksréttindi og valkosti sem þeir geta tekið afstöðu til að lokinni áreiðanleikakönnun sem fram fer á næstu vikum."

"Með samningnum hefur skilanefnd Glitnis, fyrir hönd kröfuhafa, öðlast rétt til að eignast Íslandsbanka að öllu leyti án þess að leggja til frekari fjármuni og ríkið hefur ennfremur skuldbundið sig til að veita bankanum 25 milljarða lausafjárstuðning. Með þessu teljum við að bankinn sé að fullu fjármagnaður og að lausafé hans sé tryggt um fyrirsjáanlega framtíð."

"Verði það niðurstaða kröfuhafa eftir að áreiðanleikakönnun hefur farið fram, að í stað þess að eignast Íslandsbanka að fullu strax,  þá telji þeir sig betur setta að eignast skuldabréf og kauprétt að allt að 90% af hlutafé bankans á næstu fimm árum, þá er sá valkostur einnig fyrir hendi. Tekin verður ákvörðun um þetta með hag lánadrottna að leiðarljósi fyrir 30. september næst komandi."

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

"Við fögnum aðkomu kröfuhafa Glitnis að Íslandsbanka. Þetta er mikilvægur áfangi í uppbyggingu nýs banka. Tenging hagsmuna erlendra kröfuhafa við hagsmuni Íslandsbanka mun flýta fyrir uppbyggingu fjármálakerfisins og atvinnulífs á Íslandi."

"Starfsfólk Íslandsbanka hefur lyft Grettistaki við uppbyggingu nýs banka á síðustu mánuðum og því starfi verður haldið áfram af krafti. Við teljum okkur í góðri stöðu til þess að hámarka virði bankans fyrir nýja eigendur. Það verður best gert með því að vinna áfram að úrlausnum fyrir viðskiptavini bankans og veita þeim góða og skilvirka þjónustu. Rekstur bankans er afar hagkvæmur og sérþekking okkar á sviði orku og í sjávarútvegi skapar okkur mikla sérstöðu og hlutverk á alþjóðavettvangi."

Nýjustu fréttir

Íslandsbanki gefur út skuldabréf fyrir 300 milljónir evra og tilkynnir um endurkaup á hluta af eldra skuldabréfi

04.04.2019 - Kauphöll
Íslandsbanki hefur í dag gefið út skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir evra (um 40 milljarðar íslenskra króna) til 3 ára. Bréfið ber 1,125% fasta vexti...Nánar

Aðalfundur Íslandsbanka 2019 - dagskrá, aðilar í framboði og tillögur

19.03.2019
Aðalfundur Íslandsbanka verður haldinn fimmtudaginn 21. mars 2019, kl. 15:00 í höfuðstöðvum bankans á 9. hæð Norðurturns að Hagasmára 3, 201 Kópavogi...Nánar

Íslandsbanki með átta tilnefningar til Lúðursins

28.02.2019
Íslandsbanki er með átta tilnefningar til Lúðurins ásamt því að vera tilnefndur til ÁrunnarNánar

Aðalfundur Íslandsbanka

25.02.2019
Aðalfundur Íslandsbanka verður haldinn fimmtudaginn 21. mars 2019.Nánar

Sparað fyrir barneignum

20.02.2019
Tekjutap aðila með meðaltekjur í 6 mánaða fæðingarorlofi nemur um 640.000 krónum. Við þetta bætast 400.000 krónur í töpuðum séreignarsparnaði. Ástæðan...Nánar

Íslandsbanki hefur gefið út ársskýrslu og áhættuskýrslu (Pillar 3) fyrir árið 2018

13.02.2019 - Kauphöll
Íslandsbanki hefur gefið út ársskýrslu og áhættuskýrslu fyrir árið 2018. Nánar

Ársuppgjör 2018

13.02.2019 - Kauphöll
Afkoma bankans og Íslandssjóða var ágæt á árinu og skilaði samstæðan hagnaði upp á 10,6 ma. kr. en erfiður rekstur annarra dótturfélaga dró heldur úr...Nánar
Netspjall