Stofnefnahagsreikningur Íslandsbanka birtur

28.09.2009

Í kjölfar þess að samningar tókust á milli Íslandsbanka, skilanefndar Glitnis, fyrir hönd kröfuhafa og íslenska ríkisins hefur Íslandsbanki ákveðið að birta stofnefnahagsreikning bankans og er hann dagsettur 15 október 2008.

Samkvæmt nýbirtum stofnefnahagsreikningi eru eignir Íslandsbanka um 629 milljarðar.

Helstu liðir á eignahlið stofnefnahagsreikningsins eru lausafé að fjárhæð ríflega 53 milljarðar, útlán til viðskiptavina um 477 milljarðar og ógreitt hlutafjárloforð að fjárhæð rúmlega 64 milljarðar króna. Þessi upphæð hefur nú verið að fullu greidd til bankans sem eiginfjárframlag ríkisins.

Útlánasafn bankans er vel dreift en um 32% útlána eru til einstaklinga, um 16% til sjávarútvegsfyrirtækja, 14% til fasteignafélaga, 11% til fjárfestingafélaga og 27% til annarra atvinnugreina.

Á skuldahlið efnahagsreikningsins nema innlán frá viðskiptavinum samtals um 424 milljörðum. Innlánin skiptast í innlán fyrirtækja og einstaklinga, samtals um 372 milljarðar og innlán frá fjármálastofnunum, samtals um 52 milljarðar. Aðrar skuldir eru samtals um 83 milljarðar króna. Þá nemur skuldabréf vegna samninga við Glitni samtals um 52 milljörðum króna en það skuldabréf fellur niður kjósi kröfuhafar að eignast 95% í Íslandsbanka.

Íslandsbanki hefur náð að breyta umtalsverðum hluta óverðtryggðra skulda sinna í verðtryggðar skuldir. Þetta hefur minnkað verðtryggingarójöfnuð bankans og er ójöfnuðurinn metinn ásættanlegur miðað við núverandi aðstæður.

Við upphaflegan flutning á eignum og skuldum Glitnis yfir til Íslandsbanka var töluverður munur á myntsamsetningu  þeirra.  Eignirnar, sem eru aðallega útlán, eru að verulegu leyti í erlendri mynt en skuldirnar eru aðallega innlán í ISK frá innlendri starfsemi.

Nokkur hluti útlána bankans í erlendri mynt er til viðskiptavina sem eru með tekjustreymi í íslenskum krónum og eru þau lán að verulegu leyti meðhöndluð sem útlán í ISK.

Það er mat bankans að núverandi gjaldeyrisójöfnuður bankans sé vel viðráðanlegur.

Áætlanir Íslandsbanka gera ráð fyrir að hann sé rekinn með ásættanlegri arðsemi.

Fjármálaeftirlitið birti þann 14. nóvember 2008 bráðabirgðaefnahagsreikning bankans. Samkvæmt honum voru heildareignir nýja bankans nokkuð hærri en samkvæmt nýbirtum stofnefnahagsreikningi. Það skýrist í meginatriðum af því að við endanlega ákvörðun um yfirfærslu á eignum var ákveðið að yfirtaka færri lán en gert hafði verið ráð fyrir í bráðabirgðaefnahagsreikningnum.

,,Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að stofnefnahagsreikningur bankans liggi nú fyrir þar sem hann skapar bankanum traustan starfsgrundvöll.  Þessi nýi stofnefnahagsreikningur er sá grunnur sem við þurfum til þess að geta þjónað heimilum og  fyrirtækjum í landinu. Samsetning stofnefnahagsreikningsins endurspeglar ákveðið afturhvarf til hefðbundinnar bankastarfsemi þar sem útlán eru að stærstum hluta fjármögnuð með innlánum viðskiptavina."

Nýjustu fréttir

Íslandsbanki gefur út skuldabréf fyrir 300 milljónir evra og tilkynnir um endurkaup á hluta af eldra skuldabréfi

04.04.2019 - Kauphöll
Íslandsbanki hefur í dag gefið út skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir evra (um 40 milljarðar íslenskra króna) til 3 ára. Bréfið ber 1,125% fasta vexti...Nánar

Aðalfundur Íslandsbanka 2019 - dagskrá, aðilar í framboði og tillögur

19.03.2019
Aðalfundur Íslandsbanka verður haldinn fimmtudaginn 21. mars 2019, kl. 15:00 í höfuðstöðvum bankans á 9. hæð Norðurturns að Hagasmára 3, 201 Kópavogi...Nánar

Íslandsbanki með átta tilnefningar til Lúðursins

28.02.2019
Íslandsbanki er með átta tilnefningar til Lúðurins ásamt því að vera tilnefndur til ÁrunnarNánar

Aðalfundur Íslandsbanka

25.02.2019
Aðalfundur Íslandsbanka verður haldinn fimmtudaginn 21. mars 2019.Nánar

Sparað fyrir barneignum

20.02.2019
Tekjutap aðila með meðaltekjur í 6 mánaða fæðingarorlofi nemur um 640.000 krónum. Við þetta bætast 400.000 krónur í töpuðum séreignarsparnaði. Ástæðan...Nánar

Íslandsbanki hefur gefið út ársskýrslu og áhættuskýrslu (Pillar 3) fyrir árið 2018

13.02.2019 - Kauphöll
Íslandsbanki hefur gefið út ársskýrslu og áhættuskýrslu fyrir árið 2018. Nánar

Ársuppgjör 2018

13.02.2019 - Kauphöll
Afkoma bankans og Íslandssjóða var ágæt á árinu og skilaði samstæðan hagnaði upp á 10,6 ma. kr. en erfiður rekstur annarra dótturfélaga dró heldur úr...Nánar
Netspjall