Aðalfundur Íslandsbanka

18.04.2013

Aðalfundur Íslandsbanka var haldinn í dag, fimmtudaginn 18. apríl. Friðrik Sophusson, formaður stjórnar, flutti skýrslu stjórnar og Birna Einarsdóttir, bankastjóri, kynnti uppgjör bankans og fór yfir helstu þætti í starfsemi hans á árinu 2012. Engar breytingar voru gerðar á stjórn bankans.

Friðrik fór yfir starfsemina á árinu 2012. Í máli hans kom fram að starfsmenn, stjórnendur og stjórn hafi unnið markvisst að því að styrkja innviði og rekstur bankans og að árangur þeirrar vinnu endurspeglaðist í sterku uppgjöri ársins.

Sterkur efnahagur og lágmarksviðmið eiginfjárhlutfalls 
Friðrik sagði eiginfjárstöðu bankans vera sterka og eiginfjárhlutfall hans hafa verið 25,5% í lok árs 2012. Hann sagði stjórn bankans hafa samþykkt markmið um 18% lágmarkseiginfjárhlutfall sem byggi á innra mati bankans á eiginfjárþörf, viðbrögðum Fjármálaeftirlitsins við því mati og þeim breytingum sem í vændum væru samhliða innleiðingu Basel III.

Heilbrigðir stjórnarhættir mikilvægastir
Friðrik fjallaði um hertar kröfur um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja til eftirlitsaðila og sagði skiljanlegt að regluverk fjármálamarkaðar hafi farið í gegnum endurskoðun í kjölfar fjármálakreppunnar. Hann benti hinsvegar á að mestu skipti að stjórnvöld og eftirlitsaðilar hefðu í huga að regluverk og eftirlit kæmi aldrei í stað ábyrgra og góðra stjórnarhátta. Virkasta leiðin til þess að stuðla að heilbrigðum og traustum rekstri fjármálafyrirtækja væri að tryggja sjálfsábyrgð fyrirtækjanna, stjórnenda þeirra og eigenda.

Lágmarksarður greiddur til eigenda
Þá kom fram í máli stjórnarformannsins að eignarhald bankans hafi haldist óbreytt frá því í október 2009 og að á þeim tíma hafi þeim aldrei verið greiddur arður. Á sama tíma hafi bankinn lagt um 23 milljarða til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Stjórnin hafi því ákveðið að leggja til við aðalfund að greiddur yrði hóflegur arður til eigenda eða samtals um þrír milljarðar króna og að arðurinn skyldi greiddur í íslenskum krónum. Friðrik sagði þessa ákvörðun endurspegla að rekstrargrundvöllur bankans væri kominn í ákveðið jafnvægi og útgreiðsla lágmarksarðs því eðlileg að mati stjórnar.

Framtíðareignarhald
Friðrik vék máli sínu að eignarhaldi bankans og sagði ljóst að núverandi eigendur ætli sér ekki að eiga hann til framtíðar. Hann sagði mestu máli skipta fyrir viðskiptamenn, starfsmenn og samfélagið að Íslandsbanki verði í eigu einkaaðila, innlendra eða erlendra, sem ætla sér að stunda fjármálastarfsemi til framtíðar og hafa langtímasjónarmið að leiðarljósi. Þannig geti bankinn best rækt skyldur sínar við viðskiptavini, atvinnulíf og samfélagið í heild.

Birna Einarsdóttir sagði að árið 2012 hefði markað þáttaskil í rekstri Íslandsbanka og hefði verið ár viðsnúnings þar sem vinna síðustu ára hefði skilað sér í öflugri banka og betri hag viðskiptavina. Í máli hennar kom fram að hagnaður ársins nam 23,4 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 17,2%. Hún sagði efnahag bankans vera traustan sem geri honum kleift að vera mikilvæg undirstaða í uppbyggingu íslensks atvinnulífs.

Ár sameiningar og samþættingar
Á árinu lauk sameiningu við Byr og Kreditkort auk þess sem bankinn keypti Framtíðarauð, sem var séreignasparnaður Auðar Capital. Birna sagði að með sameiningunni við Byr hafi bankinn náð þeirri stöðu á viðskiptabankamarkaði sem stefnt var að, en það er að reka hagkvæmasta útibúanetið á landinu og að vera með markaðshlutdeild yfir 30%. Þá sagði Birna að með sameiningunni við Kreditkort væri bankinn að efla greiðslukortastarfsemi sína og næði fram hagræðingu með því að sameina ýmsa stoð- og bakvinnslustarfsemi. 

Öflugur þátttakandi í atvinnulífinu
Í máli Birnu kom fram að Íslandsbanki hefði veitt 142 milljarða að láni til fyrirtækja á árinu 2012 og að fjöldi lánamála hefði aukist um 39% frá fyrra ári. Þá kom fram að 82% allra mála sem færu til lánanefnda væru samþykkt. Bankinn hafði umsjón með skráningu hlutabréfa Eimskipa og Vodafone í kauphöllina á síðari hluta ársins, sá um skuldabréfaútboð Eikar fasteignafélags og vann að mörgum árangursríkum verkefnum við fjármögnun og endurskipulagningu ýmissa fyrirtækja á árinu. Hún sagði þessi dæmi og fjölmörg önnur sýna að Íslandsbanki væri öflugur þátttakandi í íslensku atvinnulífi.

Árangur í endurskipulagningu og fjármögnun
Birna sagði að umfangsmikil vinna við endurskipulagningu lánasafns bankans væri að skila sér og náðst hefði að lækka um helming þann hluta lánasafnsins sem væri í fjárhagslegri endurskipulagningu, úr 22,6% í 13,7%. Hún benti á að í dag væri um 86% af lánasafni bankans ekki í fjárhagslegri endurskipulagningu. Íslandsbanki hefði ákveðið að þakka skilvísum viðskiptavinum fyrir viðskiptin síðustu ár með 30% endurgreiðslu vaxta, en um 20.000 viðskiptavinir fengu endurgreiðslu að meðaltali um 120.000 krónur og var heildarupphæð endurgreiðslunnar 2,5 milljarðar króna.   

Þá sagði Birna Íslandsbanka hafa unnið að því á árinu 2012 að lengja í og breyta samsetningu fjármögnunar bankans með útgáfu sértryggðra skuldabréfa og þróun nýrrar innlánavöru, Vaxtaþrepi 30 dagar, auk nýrri útgáfu víxla.

Að lokum sagði Birna að kannanir sýndu að bankinn væri leiðandi í fjármálaþjónustu, bæði hjá fyrirtækjum sem og einstaklingum en markmið bankans er að vera númer eitt í þjónustu. Mikil áhersla væri lögð á skýra stefnu og framtíðarsýn bankans og að það væru áhugaverðir tímir framundan við áframhaldandi uppbyggingu íslensks fjármálalífs.

Ákvarðanir aðalfundar
Á fundinum var samþykktum bankans breytt á þann veg að stjórn félagsins skal skipuð að minnsta kosti tveimur varamönnum í stað sjö áður. Stjórn bankans er óbreytt frá fyrra ári en í varastjórn verða þau Jón Eiríksson og Þóranna Jónsdóttir. Þá samþykkti fundurinn að greiða 3,0 milljarða króna í arð til hluthafa bankans vegna rekstrarársins 2012. Á fundinum var einnig samþykkt að Deloitte hf. verði endurskoðunarfélag bankans til næstu tveggja ára. Engin breyting var gerð á þóknunum til stjórnarmanna á aðalfundinum og þá var samþykkt að starfskjarastefna bankans yrði samþykkt óbreytt frá fyrra ári.

Ársreikning, áhættuskýrslu og ræðu formanns má finna hér.

Nýjustu fréttir

Íslandsbanki gefur út skuldabréf fyrir 300 milljónir evra og tilkynnir um endurkaup á hluta af eldra skuldabréfi

04.04.2019 - Kauphöll
Íslandsbanki hefur í dag gefið út skuldabréf að fjárhæð 300 milljónir evra (um 40 milljarðar íslenskra króna) til 3 ára. Bréfið ber 1,125% fasta vexti...Nánar

Aðalfundur Íslandsbanka 2019 - dagskrá, aðilar í framboði og tillögur

19.03.2019
Aðalfundur Íslandsbanka verður haldinn fimmtudaginn 21. mars 2019, kl. 15:00 í höfuðstöðvum bankans á 9. hæð Norðurturns að Hagasmára 3, 201 Kópavogi...Nánar

Íslandsbanki með átta tilnefningar til Lúðursins

28.02.2019
Íslandsbanki er með átta tilnefningar til Lúðurins ásamt því að vera tilnefndur til ÁrunnarNánar

Aðalfundur Íslandsbanka

25.02.2019
Aðalfundur Íslandsbanka verður haldinn fimmtudaginn 21. mars 2019.Nánar

Sparað fyrir barneignum

20.02.2019
Tekjutap aðila með meðaltekjur í 6 mánaða fæðingarorlofi nemur um 640.000 krónum. Við þetta bætast 400.000 krónur í töpuðum séreignarsparnaði. Ástæðan...Nánar

Íslandsbanki hefur gefið út ársskýrslu og áhættuskýrslu (Pillar 3) fyrir árið 2018

13.02.2019 - Kauphöll
Íslandsbanki hefur gefið út ársskýrslu og áhættuskýrslu fyrir árið 2018. Nánar

Ársuppgjör 2018

13.02.2019 - Kauphöll
Afkoma bankans og Íslandssjóða var ágæt á árinu og skilaði samstæðan hagnaði upp á 10,6 ma. kr. en erfiður rekstur annarra dótturfélaga dró heldur úr...Nánar
Netspjall