Stefna Íslandsbanka í samfélagslegri ábyrgð

Íslandsbanki hefur frá árinu 2010 verið aðili að alþjóðlegum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð, UN Global Compact og hefur birt árlega samfélagsskýrslur (COP) sem byggjast á nálgun sáttmálans.

Ákveðið var að leggja enn frekari áherslu á samfélagsábyrgð árið 2013 með því að kortleggja samfélagsverkefni bankans. Í framhaldinu var ákveðið að samfélagsábyrgð yrði ein af þremur stefnuáherslum hans og ný stefna mótuð um málaflokkinn.

Hin nýja stefna Íslandsbanka í samfélagsábyrgð var kynnt 2015 og var samfélagsskýrsla bankans fyrir 2014 sú fyrsta þar sem stuðst var við viðmið Global Reporting Initiative, GRI. Skýrslan er því í samræmi við kjarnaskilyrði GRI G4.

Fimm meginstoðir stefnu Íslandsbanka í samfélagsábyrgð:

Viðskipti: Íslandsbanki leggur áherslu á góða stjórnarhætti og hagkvæmni. Bankinn leitast við að þjóna viðskiptavinum sínum með því að hafa skýrt regluverk, veita gagnlegar upplýsingar og gæta jafnræðis meðal viðskiptavina.

Fræðsla: Markmið Íslandsbanka er að auka þekkingu, færni og áhuga á fjármálum með því að bjóða upp á aðgengilega og áhugaverða fræðslu um fjármál og efnahagsmál. Fræðslunni er ætlað að vekja áhuga og aðstoða fólk við að taka upplýstar ákvarðanir um eigin fjármál.

Umhverfið: Íslandsbanki leggur áherslu á að vinna í takt við umhverfið og að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem starfsemi bankans kann að hafa á umhverfið.

Vinnustaðurinn: Ýtt er undir helgun starfsmanna með virkri þátttöku í samfélagsverkefnum, vellíðan á vinnustað og markvissri fræðslu. Markmið Íslandsbanka er að ráða, efla og halda í hæfileikaríkt og ábyrgt starfsfólk.

Samfélagið: Íslandsbanki leggur sitt af mörkum til að efla nærumhverfi sitt með því að styðja við félags-, menningar- og íþróttastarf auk þess að styrkja nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefni. Stuðningur er bæði í formi þátttöku starfsmanna og beins fjárstuðnings við valin verkefni.

Ákveðið var að fara af stað með níu lykilverkefni, valin af framkvæmdastjórn bankans, þegar ný stefna í samfélagsábyrgð var kynnt:

  • Ábyrg lánastarfsemi
  • Upplýsingaöryggi
  • Ábyrg innkaupastefna
  • Samgöngustefna
  • Jafnréttisstefna
  • Fræðsla til viðskiptavina
  • Stefna um ábyrgar fjárfestingar
  • Hjálparhönd Íslandsbanka
  • Mótun skýrrar styrkjastefnu

Öll verkefnin eru vel á veg komin og sum eru þannig í eðli sínu að þau eru í stöðugri þróun. Sérstök áhersla hefur verið lögð á Hjálparhönd þar sem starfsfólki gefst kostur á að verja einum vinnudegi eða fleirum á ári í þágu góðs málefnis. Starfsfólk velur málefnið sjálft.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall