Starfsviðtöl

Þegar kemur að því að meta umsækjendur í störf er algengt að valinn hluti umsækjenda sé boðaður í atvinnuviðtal.

Megin tilgangi atvinnuviðtals má skipta í þrjá þætti:

  • Auka við þær upplýsingar sem fyrir liggja um menntun og fyrri reynslu.
  • Leggja mat á hvers kyns eiginleika sem gert er ráð fyrir að tengist frammistöðu í starfi.
  • Kynna starfið og starfsheildina fyrir umsækjanda.

Mikilvægt er að líta á viðtalið sem tækifæri fyrir báða aðila til að miðla og safna upplýsingum. Umsækjandi ætti því að mæta í viðtalið með það að leiðarljósi að tilgangur viðtalsins er sá að aðilar kynnist betur hvor öðrum. Umsækjandi ætti því að vera tilbúinn að greina bæði frá styrkleikum sínum og veikleikum. Enginn er fullkominn og engum er greiði gerður með því að fá starf sem hann ræður ekki við.

Í viðtali byrjar vinnuveitandi yfirleitt á því að kynna megin innviði fyrirtækisins og hvað það hefur upp á að bjóða. Einnig er farið nánar yfir þær upplýsingar sem fram komu í atvinnuumsókn umsækjanda. Vinnuveitandi spyr gjarnan spurninga sem hjálpa honum að meta umsækjanda í ljósi verkþátta þess starfs sem á að fara að ráða í og einnig út í þá eiginleika sem viðkomandi þarf að hafa.

Áður en mætt er í viðtalið

Umsækjandi skal að sjálfsögðu gæta þess að mæta á réttum tíma og vera snyrtilegur til fara. Æskilegt er að umsækjandi hafi kynnt sér fyrirtækið eins vel og kostur er t.d. með því að skoða vef þess, ræða við starfsmenn innan þess ef hann þekkir einhverja og lesa umfjöllun um það í fjölmiðlum. Með þessu er hann betur í stakk búinn til að átta sig á því hverju fyrirtækið er að sækjast eftir og þar af leiðandi að koma á framfæri hvað af því hann hefur sjálfur upp á að bjóða.

Mjög gott er að undirbúa nokkrar spurningar um hvaðeina sem umsækjanda langar að vita um fyrirtækið og starfið sem hann sækist eftir. Undirbúningur umsækjanda fyrir viðtal segir nokkuð til um það hversu vel hann býr sig fyrir þau verkefni sem hann tekst á við í starfi og einkalífi. Spurningar umsækjanda eru ekki síður mikilvægar en spurningar vinnuveitanda og geta átt þátt í að vekja frekari áhuga vinnuveitandans. Til að koma í veg fyrir að spurningar gleymist er ágætt að punkta þær niður á minnisblað.

Augljóst er að ekki fá allir starfið sem komast í atvinnuviðtal. Umsækjandi sem ekki fær starf ætti þó að vera ánægður með að hafa komist í viðtal, líta á það sem viðurkenningu og nýta sér reynsluna í því næsta.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall